15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2603 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Gils Guðmundsson):

Mér þykir rétt að taka það fram áður en lengra er haldið, að þannig stendur á, sem er að vísu heldur óvenjulegt, að hvorki fleiri né færri en hv. þrír alþm. höfðu farið þess eindregið á leit við mig að fá að taka til máls hér í dag utan dagskrár. Tveir þeirra eru þingflokksformenn. Nú er það svo, að þegar hafa komið inn í þessar umr. utan dagskrár að hluta til þau atriði sem hv. 3. þm. Norðurl. e. hafði ætlað að gera hér að sérstöku umræðuefni utan dagskrár, sem er, að mér skilst, sú orkukreppa sem m.a. og ekki síst stafar af olíuverðshækkunum. Ég held, með tilliti til þess að þetta verði ekki enn flóknara en ella, að eðlilegt væri að hann kæmi fram með fsp. sína nú.

Enn fremur vil ég taka fram, — ekki að ég ætli að fara að skera niður ræðutíma utan dagskrár að svo stöddu, — að ég er fyrir löngu hættur að hafa áhyggjur af hinni prentuðu dagskrá með þeim 13 málum sem þar eru. Hún kemur væntanlega að gagni síðar. En þegar eru 8 hv. alþm. og ráðh. á mælendaskrá í þessari 1. umferð umr. utan dagskrár. Hv. 3. þm. Norðurl. e. kemur nú að sinni fsp. sem ég hafði gefið honum heimild til.