15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2608 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér út í þá almennu umr. sem þegar hefur átt sér stað hér í tengslum við svokallað frv. sem kennt hefur verið við hæstv. forsrh. Ég get í því efni vísað til orða sem hæstv. viðskrh. lét hér falla áðan, og ég vil bæta því við, að mér finnst tal um frumvarp í þessu sambandi ekki vera rétt orðnotkun. Mér finnst ekki eðlilegt að tala um gögn, sem eru á vinnslustigi, sem frv. fyrr en þau sjá dagsins ljós hér á Alþ. sem slík. Það má í þessu sambandi vísa til vinnugagns sem Alþfl. setti saman og nokkuð hefur verið í umr. undanfarnar vikur og mánuði og kallaði frv. Þetta geta menn að sjálfsögðu gert með ýmsar samantektir, gefið þeim slík nöfn, en ég tel að það sé ekki réttnefni að ræða um frumvörp fyrr en þau koma í búningi sem slík hér inn á Alþ. þar sem um þau er fjallað.

Ég mun í máli mínu leitast við að svara nokkru fsp. hv. 3. þm. Norðurl. e. varðandi orkusparnað og hvað á döfinni er í iðnrn. þar að lútandi. Ég vænti þess þó að geta dregið saman eða stytt mál mitt nokkuð vegna þeirrar umr. sem hér fór fram á fyrsta degi þingsins eftir jólahlé, þar sem ég kom inn í umr. vegna þáltill. sem hv. þm. stendur að ásamt hv. þm. Braga Níelssyni. Ég ætla ekki að endurtaka margt af því sem þar var að vikið og nú er trúlega aðgengilegt í þinggögnum. En ég tel rétt vegna þessarar fsp. að reyna að glöggva að nokkru þau atriði, sem hv. fyrirspyrjandi vék að, og tengja það í nokkru við þá umr. um hækkun á innfluttu eldsneyti sem hér hefur orðið og skiptir að sjálfsögðu mjög miklu fyrir þjóðina og þjóðarhag.

Skipulag orkusparandi aðgerða er í mótun. Fyrir utan það, sem þegar er í gangi á vegum rn. og þá ekki síst á vegum iðnrn., er nú hugað að þessum málum hjá ýmsum stofnunum sem málið varðar. Þar get ég nefnt til sérstaklega Orkustofnun, sem þegar hefur sett á fót starfshópa til að vinna að athugun á einstökum þáttum þessara mála, og fleiri rannsóknarstofnanir og ráð, sem eru með vinnu í gangi sem þetta varðar. En flest af því, sem hv. fyrirspyrjandi vé hér að, snertir hið innflutta eldsneyti, og ég vil reyna að draga saman hið helsta sem snertir þá mynd, með tilliti til þeirra miklu verðhækkana sem eru í gangi og ekki er séð fyrir endann á varðandi innflutta orku. Hæstv. viðskrh. fjallaði að nokkru um hvernig unnt væri að bregðast þar við, en ég mun sérstaklega víkja að því sem lýtur að orkusparnaði í þessu samhengi, en það er að sjálfsögðu á þann veg sem helst er hægt að ná árangri fyrir þjóðarbúið í heild. Annað er það, hvað gert er til að flytja á milli greina eða létta undir með atvinnurekstri og einstaklingum með tilfærslu á fjármagni.

Í iðnrn. er að verki sérstakur starfsmaður sem fjallar um þessi mál og ráðinn var til starfa nú eftir áramótin, Finnbogi Jónsson verkfræðingur, og hann hefur tekið þátt í vinnu að þessu í samvinnu við önnur rn. Ríkisstj. hefur staðið fyrir því að setja tvo starfshópa til að fjalla um eldsneytismálin. Viðskrh. vék að starfi annars þessara hópa, en sérstakur hópur hefur fjallað um það, á hvern hátt beri að mæta verðhækkunum á olíu með hagkvæmari orkunýtingu. Ég tel það vera til glöggvunar fyrir hv. þm. að ég greini frá hinu helsta sem fram kemur í fyrsta áliti frá þessum starfshópi, því að greinilegt er að það á eftir að fjalla hér á Alþ. um þessi mál á næstunni, bæði í þessari umr. og í sambandi við fleiri mál sem eru þegar á dagskrá svipaðs eðlis.

Þessi starfshópur, sem ég gat um, var myndaður með fulltrúum frá iðnrn., viðskrn. og sjútvrn. og verkefni hans var að gera till. um hvernig opinberir aðilar geti stuðlað að því, að gripið verði til orkusparandi aðgerða varðandi innflutt eldsneyti, varðandi breytingu á notkun einstakra eldsneytistegunda og fleira á þessu sviði.

Það er rétt að greina frá því fyrst, að notkun okkar á innfluttu eldsneyti nú nemur eitthvað á bilinu 500–600 þús. tonn og er þá flugvélabensín og þotueldsneyti ekki meðtalið, og aukningin milli ára hefur verið eitthvað nálægt 7%. Skiptingin milli orkugjafa hins innflutta eldsneytis er þannig, að bensín er 17%, gasolía 59% og svartolía 24%. Skipting milli notkunarsviða er á þessa leið, en þetta eru tölur frá árinu 1977: Til húshitunar fóru þá 22% af innfluttu eldsneyti, til iðnaðar 27%, til fiskveiða 27% og í samgöngur 24%. Á þessum fjórum meginnotkunarsviðum er ekki ýkjamikill munur að magni til. Það er því að þeim sem sjónir okkar beinast þegar athugaðir eru möguleikar á sparnaðaraðgerðum í þessu sambandi.

Í kostnaðartölum, sem ég mun greina frá hér á eftir, er gert ráð fyrir að gasolíuverð hækki úr 57.50 kr. á lítra í 92 kr, á lítra og hækkun á svartolíuverði verði úr 39 þús. kr. fyrir tonn í 45 þús. kr. á tonn, en samkv. því væri munurinn á svartolíuverði og gasolíuverði um það bil 40%. Þetta er nálægt því sem viðskrh. gat um áðan, þótt breytingar séu á milli daga og vikna á hinum alþjóðlega markaði að þessu leyti og því ekki við neinar fastar tölur að miða frá degi til dags.

Ef við lítum fyrst til fiskiskipanna, þá nam gasolíunotkun þeirra 139 þús. tonnum á síðasta ári og má áætla að þar af hafi 63 skuttogarar notað um 71 þús. tonn. Miðað við sömu olíunotkun á þessu ári má áætla árlegan olíukostnað fyrir og eftir hækkun sem hér greinir: Fyrir hækkun hafi kostnaðurinn verið 9.6 milljarðar kr., en eftir hækkun, með því verði sem ég tilgreindi, 15.4 milljarðar og mismunurinn þannig 5.8 milljarðar miðað við eitt ár. Ef gert er ráð fyrir að allir skuttogarar gætu skipt yfir á svartolíu yrði fjármagnssparnaður í olíukaupum, miðað við þann verðmismun, sem er á gasolíu og svartolíu, 4.5 milljarðar. Með þessu er ég engan veginn að gera því skóna að slík breyting fyrir togaraflotann í heild, sem ekki hefur þegar tekið upp svartolíubrennslu, sé möguleg af tæknilegum ástæðum eða í hana verði ráðist. Það verður að sjálfsögðu aðvera mat þeirra sem fyrir útgerð viðkomandi skipa standa, hvort þeir grípa til slíkra aðgerða, en æskilegar eru þær augljóslega út frá kostnaðarsjónarmiði. Áætlaður kostnaður við breytingar frá gasolíu yfir á svartolíu er um 6 millj. kr. á hvert skip. Ekki er talið óhugsandi að sum stærri nótaveiðiskipin gætu einnig breytt til varðandi eldsneytisnotkun.

Hv, fyrirspyrjandi vék að öðrum möguleikum til sparnaðar í sambandi við skipastólinn, þ. á m. varðandi breytingu á ganghraða, og það er alveg rétt, að með því móti má spara verulega ef skipstjórnarmenn geta stillt ganghraða í hóf og fara þar ekki yfir ákveðin mörk. Þar er að sjálfsögðu þeirra að velja um. Það, sem opinberir aðilar geta gert í þessu sambandi, er að koma á framfæri leiðbeiningum um þessi efni, og það höfum við í huga að verði gert. Þarna má einnig nefna nýtingu á kælivatni aflvéla til upphitunar í skipum og það sem var til umr. nýlega á Alþ. í sambandi við þáltill., skynsamlegri stjórnun og skipulag veiðanna sjálfra.

Ef við lítum til húshitunar með tilliti til eldsneytis, þá var notkun gasolíu á árinu 1978 til húshitunar samtals 95 þús. tonn. Ef við gerum ráð fyrir að þessi olíunotkun minnki um 11% á ári vegna þess að menn breyti yfir í aðra hitagjafa, þá má áætla árskostnað fyrir og eftir olíuhækkun sem hér greinir: Fyrir hækkun 5.8 milljarða og eftir hækkun 9.4 milljarðar. Mismunurinn er hvorki meira né minna en 3.6 milljarðar kr. á þessu notkunarsviði. Áætlað er að fjöldi heimila í landinu með olíuupphitun nú sé um það bil 15 þús. Þetta þýðir að áætluð meðalútgjaldaaukning á hvert heimili vegna olíuverðshækkana, sem nú eru fyrirsjáanlegar, hversu lengi sem þær kunna að vara, sé um 240 þús. kr. á ári. Til þess að draga úr þessari gífurlegu kostnaðaraukningu er hugsanlegt og reyndar óhjákvæmilegt að stjórnvöld veiti stuðning til að mæta þessu, og ef við gerum ráð fyrir að olíustyrkur væri að upphæð t.d. 50 þús. kr., þá væri kostnaðurinn við slíkt 650–700 millj. kr. Ég er ekki þar með að segja að slíkt hrökkvi til. Þetta er mál sem verður að skoða sérstaklega og meta hvað menn treysta sér til að hlaupa undir bagga hjá þeim sem eiga að mæta þessum gífurlega aukna kostnaði.

Það er því eðlilegt að byrjað sé að líta á sparnaðarmöguleika. Með 10% sparnaði í olíunotkun við húshitun, sem auðvelt er að ná fram með hættri stillingu á kynditækjum, má draga úr þessari útgjaldaaukningu fjárhæð sem nemur á notanda eða heimili um 60 þús. kr. á ári. Víða er hægt að ná mun meiri sparnaði. Þar sem hús eru óþétt, einfalt gler í gluggum, einangrun léleg eða kynditæki gömul og úr sér gengin væri hægt að ná fram 20–40% sparnaði í olíunotkun, en slíkt kostar auðvitað umfangsmeiri aðgerðir, sem hægt er að stuðla að m.a. með lánastefnu í sambandi við viðhald húsa, eins og raunar hefur verið gert að nokkru leyti með breytingum á reglum þar að lútandi.

Á ýmsum stöðum er nú unnið að áætlunum um fjarvarmaveitur sem byggjast á notkun svartolíu, afgangsraforku og nýtingu á kælivatni frá dísilrafstöðvum, þar sem þær eru fyrir hendi. Ég vil nefna eitt dæmi sem þetta varðar. Það er fyrirhuguð fjarvarmaveita á Höfn í Hornafirði. Stofnkostnaður slíkrar fjarvarmaveitu var miðað við verðlag í nóv. 1977 226 millj. kr. Ef tekið er mið af væntanlegum olíuverðshækkunum hafa hagkvæmniforsendur þessarar fjarvarmaveitu gerbreyst og hreinn sparnaður í olíunotkun á Höfn yrði a.m.k. 100 millj. kr. á ári. Með nýtingu afgangsvarma frá dísilrafstöð yrði sparnaðurinn enn meiri eða a.m.k. 150 millj. kr. á ári. Þetta er vísbending um þýðingu þess að koma á sem fyrst fjarvarmaveitum á stöðum sem hljóta að taka þær upp í sambandi við húshitun í náinni framtíð.

Ef við lítum svo aðeins á samgönguþáttinn og gerum ráð fyrir að hækkun á bensíni verði úr 181 kr. á lítra í 232 kr. á lítra, þá leiðir það til útgjaldaaukningar hjá bifreiðaeigendum sem nemur um 6 milljörðum kr. á ári eða um það bil 87 þús. kr. á bifreið. Til viðbótar kæmi svo hækkun vegagjalds um 14 kr. á lítra, sem bættist við þetta, og svarar það til 1.7 milljarða eða um það bil 24 þús. kr. að meðaltali á hvern bíl í landinu. Miðað við sömu hækkun á bensíni má gera ráð fyrir einhverjum samdrætti í bensínnotkun væntanlega og sjálfsagt er að hvetja til sparnaðar á þessu sviði, en tekjur ríkisins mundu hækka, að því er talið er, um röska 2 milljarða vegna þessarar verðhækkunar, eftir þeim reglum sem nú eru í gildi. Hugsanlegar ráðstafanir af stjórnvalda hálfu á þessu sviði gætu verið í því fólgnar að auka notkun almenningsfarartækja og örva sveitarfélög og aðra til þess að nota slík tæki, e.t.v. með breytingum á reglum um þungaskatt og annað af því tagi.

Þær aðgerðir, sem rætt hefur verið um innan ríkisstj. samkv. tillögum þess starfshóps, sem ég hef getið um og rakið hér helstu niðurstöður hans, beinast að því að koma á hagkvæmari orkunýtingu á sem flestum sviðum varðandi innflutt eldsneyti. Aðgerðir, sem mælt hefur verið með, eru m. a, þær, að stjórnvöld tryggi útgerðaraðilum lán til þess að greiða fyrir breytingu á notkun eldsneytis í fiskiskipum. Talað hefur verið um 5 millj. kr. lán — til skamms tíma að vísu — í þessu sambandi og þegar verið samþ. í ríkisstj. að fara inn á þessa braut. Einnig liggur fyrir till. um það í ríkisstj., sem ég vænti að verði tekið á mjög bráðlega, að komið verði á fót ráðgjafarþjónustu sem hafi það hlutverk m.a. að dæma um hæfni einstakra véla varðandi breytingu á eldsneyti, breytingu á gasolíu yfir í svartolíu, veitti leiðbeinandi aðstoð við breytingar á skipum og fylgdist með árangri af slíkum breytingum og miðlaði upplýsingum um þessi mál. Þessi ráðgjafarnefnd þyrfti einnig að vera í sambandi við Siglingamálastofnun ríkisins sem hefur með ýmsa þætti þessara mála að gera og sjálfsagt og nauðsynlegt er að samstarf sé haft við. Við höfum gert ráð fyrir að inn í þennan hóp komi fulltrúar frá rn., sjútvrn. og iðnrn., en einnig frá Landsambandi ísl. útvegsmanna.

Fyrir utan þetta er nauðsynlegt að gera athugun á fleiri leiðum til hagkvæmari orkunýtingar í fiskiskipaflotanum, eins og ég hef þegar nefnt, bæði varðandi ganghraða og fleiri þætti.

Hvað snertir húshitunina, þá er að sjálfsögðu brýnt að afhuga um möguleika á að flýta fyrir undirbúningi varðandi fjarvarmaveitur, og það er sýnilega brýnt að auka fjármagn til rannsókna varðandi jarðhitaleit frá því sem verið hefur.

Þannig eru það margir þættir sem snerta þessi mál og eru á undirbúningsstigi og sumpart búið að taka ákvörðun um á vegum iðnrn. eða eru til umr. innan ríkisstj.

Verðþróunin á innfluttu eldsneyti og áhrif hennar á framtíðarviðhorf í orkumálum eru margþætt. Þær breytingar, sem orðið hafa í þessu efni, kalla að mínu mati á endurmat á mörgum þáttum orkumála. Við hljótum að þurfa að endurskoða ýmsar framkvæmdaáætlanir í raforkuiðnaðinum á næstu árum, og við þurfum að endurmeta framkvæmdir í sambandi við hitaveitur, bæði sem lýtur að jarðvarma og fjarvarmaveitum. Þriðji eða fjórði þátturinn, sem hér kemur til álita, er það sem fyrirspyrjandi vék að varðandi hugsanlega framleiðslu á eldsneyti hér innanlands. Ég vil gera þann þátt lítillega að umtalsefni til upplýsinga fyrir hv. þm., en margt af því hefur þó borist mönnum til eyrna í gegnum fjölmiðla og umr. hér að undanförnu.

Það, sem þarna er á ferðinni, er möguleikinn á að framleiða. með rafgreiningu vetni sem unnt væri að vinna úr eldsneyti sem gæti komið í staðinn fyrir það eldsneyti sem við nú flytjum til landsins. Einna líklegast í þessum efnum og auðveldast er að framleiða úr vetninu metanol með sérstökum aðferðum. Þær eru raunar ekki flóknar, heldur að binda við vetnið kolefni, sem kæmi frá koltvísýringi eða kolsýrlingi, og framleiða á þann hátt metanol. Metanolið eða öðru nafni tréspíritus er miklu líklegra til þess að koma til greina sem eldsneytisgjafi heldur en hreint vetni. Það væri afar kostnaðarsamt og er tæknilega á engan hátt leyst enn sem komið er og mun taka alllangan tíma, að því er fróðustu menn telja, að taka vetnið sjálft upp sem eldsneytisgjafa. En með metanoli er unnt að nýta bæði það dreifingarkerfi, sem til er í landinu, og þann vélbúnað, sem til er, án verulegra breytinga, a.m.k. með því að blanda metanolið saman við bensín á bensínvélum. Það á ekki að þurfa neinar teljandi breytingar til þess að blanda eða bæta í bensínið metanoli sem svarar 16–20%. Spurningin er aðallega um það, hvort það sé hagkvæmt að fara út í slíka vinnslu hérlendis með rafgreiningu og nota hluta af orkulindum okkar í þessu skyni.

Víða erlendis eru rannsóknir í gangi hvað þetta snertir, en þar horfa menn fyrst og fremst til þess að framleiða metanol úr ýmsum lífrænum efnum, úr kolum og öðrum lífrænum efnum sem af er að taka í misjöfnum mæli í hverju landi. Svíar eru með rannsóknir í þessu skyni, Bandaríkjamenn einnig í stórum stíl, og margt bendir til að þar verði horfið að metanoli sem eldsneytisgjafa í náinni framtíð í vaxandi mæli.

Eðlilegt er að spurt sé um hversu orkufrekan iðnað sé hér að ræða. Ég hef ekki nákvæmlega unnar tölur sem þetta varða, en tel mig þó geta fullyrt að til þess að framleiða methanol til íblöndunar í bensín, sem næmi 15% eða svo, þyrfti afl á bilinu 15–30 mw., og til þess að koma í staðinn fyrir bensín, sem við nú notum, þyrfti rafafl sem næmi 150–200 mw. Hér er um umtalsverða orkunotkun að ræða, sem að sjálfsögðu fer vaxandi með vaxandi notkun þessara eldsneytisgjafa. Ef til þess kæmi að nýta eldsneyti, metanol eða annað, sem framleitt væri á vetnisgrunni í framtíðinni, þá þyrftum við á að halda umtalsverðum hluta okkar orkulinda til að standa undir þessari framleiðslu. Inn í þá mynd kæmi skipaflotinn fyrir utan farartæki á landi. Í sambandi við þá endurskoðun, sem ég vék að, eða endurmat í sambandi við okkar orkumál, hljótum við að taka þessa þætti með. Það er kannske ekki beinlínis um orkusparnað að ræða út frá eðlisfræðilegu sjónarmiði að breyta á þann hátt frá einni eldsneytistegund yfir í aðra. En hér er um að ræða þjóðhagslega spurningu, spurningu um að taka upp eða framleiða hér innanlands orku, sem nú er flutt til landsins, og spara á þann hátt gjaldeyri sem við nú þurfum að nota í vaxandi mæli í þessu skyni.

Hækkunin á eldsneytisverðinu gerir nánast nauðsynlegt að það dragist ekki lengi að tekin verði til meðferðar endurskoðun á ýmsum framkvæmdaþáttum, einnig í raforkuiðnaðinum. Ég vil þar m.a. benda á stofnlínur sem leggja þarf til þess að koma í veg fyrir dísilkeyrslu eða olíukeyrslu, þar sem hún enn er stunduð af illri nauðsyn til þess að framleiða raforku, og styrkingu á dreifikerfi í strjálbýli til þess að gera mönnum þar kleift að taka upp rafhitun í staðinn fyrir olíukyndingu. Hvort slíkt endurmat kemur inn í framkvæmdir þessa árs skal ég ekki segja, til þess þyrftu menn að endurskoða þætti sem þegar liggja fyrir ákveðnir, a.m.k. varðandi næsta ár og þau sem á eftir fylgja.

Hv. fyrirspyrjandi vék að fleiri þáttum og spurðist fyrir um aðgerðir á fleiri sviðum, m.a. hvað snerti áróður í fjölmiðlum fyrir orkusparnaði. Ég vék að því í ræðu hér um daginn, að í undirbúningi væri að koma fræðsluþáttum um þessi atriði í ríkisfjölmiðlana. Að því er nú unnið, og ég vænti þess að slíkir þættir hefjist innan ekki mjög langs tíma. Og ég vil taka undir það álit hv. fyrirspyrjanda, að það getur ráðið miklu að koma fróðleik og leiðbeiningum til almennings á framfæri um þessi efni.

Varðandi ábendingu hv. þm. um nefndaskipun í þessu samhengi til þess að vinna að þessum málum, þá tel ég að nú þegar séu í gangi starfshópar sem vinna að ýmsum þáttum þessara mála, þannig að það sé kannske ekki brýnt að bæta þar við sérstaklega alveg á næstunni. Er þó sjálfsagt að meta það út frá nauðsyn hverju sinni. Ég get alveg undir það tekið og tel raunar nauðsynlegt að sett verði í gang endurskoðun á þessum breyttu viðhorfum sem nú hafa skapast, og við munum áreiðanlega innan iðnrn. leitast við að hraða þeirri endurskoðun, sem olíuverðshækkunin hefur í för með sér, og einnig leitast við að fylgja eftir þeim sparnaðaraðgerðum sem nú eru í undirbúningi. Um einn þátt þessara mála hafa menn frétt og lesið í fjölmiðlum, þ.e.a.s. herferð í sambandi við stillingu á kynditækjum og fleira í því sambandi í tengslum við húshitun. Þar koma skólar til og skólafólk, og ég tel að það sé mjög æskilegt að tengja á þann hátt saman starfsemi skólanna, nýta þann góða liðskost, sem þar er, og tengja hann við aðgerðir af þessu tagi, — aðgerðir sem horfa til orkusparnaðar, en veita þeim, sem að þeim vinna, innsýn inn í þau atriði, sem þar þurfa til að koma.

Ég vænti þess, að með þessum orðum hafi ég svarað helstu þáttum í fsp. hv. þm. Braga Sigurjónssonar, og orðlengi þetta ekki frekar.