15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. verulega, en mér er skylt að fullnægja þeirri kurteisisskyldu að þakka hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. fyrir svör þeirra við fsp. mínum fyrr í umr., þar sem ég hef á samviskunni að hafa í upphafi fundar hér í dag vakið máls á þessum málum sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í þessum umr. En í raun og veru er samviska mín ákaflega góð, vegna þess að ég tel að þessar umr. hafi verið mjög gagnlegar og leitt í ljós það sem nauðsynlegt er að komi fram: ráðleysið og stjórnleysið sem nú ríkir og hæstv. ríkisstj. ber ábyrgð á.

Mér voru það að vísu vonbrigði, að hæstv. forsrh. gat ekki upplýst þingheim um að hverju væri stefnt varðandi meðferð þess frv. er hann lagði fram á fundi ríkisstj. s.l. mánudag, og ekki var á máli hans að heyra, að nein tímamörk væru í huga ríkisstjórnarflokkanna, hvorki varðandi framlagningu frv. né varðandi afgreiðslu frv. Þetta skýtur skökku við ummæli fulltrúa allra stjórnarflokkanna hingað til, — ummæli sem hafa borið vitni um að þeir hafi talið brýna nauðsyn bera til bráðra aðgerða í efnahagsmálum.

Ég skal ekki fara út í að gagnrýna efnislega í löngu máli afsökun hæstv. forsrh. og skýringar á því, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. hefðu ekki verið bráðabirgðaúrræði hingað til, heldur fyrstu aðgerðir. Þegar ég nefni bráðabirgðaúrræði, þá vitna ég beinlínis í orð hæstv. forsrh. fyrr á þingi á þessum vetri og forsvarsmanna annarra stjórnarflokka, sem allir hafa talað um aðgerðir ríkisstj. hingað til sem bráðabirgðaúrræði. Hæstv. forsrh. hrósaði sér af því að hafa eytt 15.5% af kaupgjaldsvísitölunni og launakostnaðarþungi atvinnuveganna hefði verið þeim mun meiri ef það hefði ekki verið gert. Ég held að hann hafi komist svo að orði: Þeim er eytt, þau eru farin út úr heiminum og koma aldrei aftur, a.m.k. voru það orð á borð við þessi eða jafnáhrifamikill. En með hvaða hætti er þeim eytt? Að mestu leyti með auknum niðurgreiðslum.

Nú er það svo, að fjárlög gera alls ekki ráð fyrir óbreyttum niðurgreiðslum allt árið út á yfirstandandi ári, heldur er skortur á fjárframlögum í þessu skyni sem nemur nær 3 milljörðum kr., þannig að það þarf á miðju ári að lækka niðurgreiðslur þegar af þeirri ástæðu, ef halda á áætlun fjárl., og þá mun verðlagshækkun og hækkun kaupgjaldsvísitölu nema um 3–4% af þessum 15.5% sem hæstv. forsrh. hélt fram að væru farin fyrir fullt og allt.

Í öðru lagi má nefna, að að því leyti sem blöð segja frá efni og innihaldi frv. forsrh. frá því á mánudag, þá er gert ráð fyrir enn frekari lækkun niðurgreiðslna bæði á þessu ári og á næsta ári, þannig að niðurgreiðslur nemi ekki meiru en muninum á verði til bóndans og neytandans. Þá munu enn frekar koma aftur inn í kaupgjaldsvísitöluna prósentustigin sem hæstv. forsrh. hrósaði sér af að hafa eytt fyrir fullt og allt.

Sannleikurinn er sá, að úrræði núv. hæstv. ríkisstj. hafa ekki eingöngu verið bráðabirgðaúrræði, þau hafa verið langtum verri en bráðabirgðaúrræði, vegna þess að þau hafa aukið á vandann sem við var að glíma, og skulu ekki höfð fleiri orð um það, svo áliðið sem er dags og þessara umr.

Hv. þm. Bragi Sigurjónsson talaði um nýju fötin keisarans í tengslum við og sem lýsingu á núv. ríkisstj., og get ég vel á þá lýsingu fallist. Hann skaut á síðustu ríkisstj. og talaði um að síðasta ríkisstj. hefði aldrei þorað að gera neitt. Þetta er misminni hjá hv. þm. Í febrúar í fyrra voru til umr. á Alþingi efnahagsaðgerðir af hálfu fyrrv. ríkisstj. sem flokksbræður hv. þm. Braga Sigurjónssonar snerust gegn. Þeir þorðu þá ekki að gera neitt. Þeir höfðu þá ekki kjark. Og ég verð að segja það, að ég sakna þess að kjarkmaður á borð við hv. þm. Braga Sigurjónsson var ekki í þingflokki Alþfl. á síðasta þingi.

Ég hlýt að fagna jákvæðum undirtektum hæstv. viðskrh. undir þá ábendingu mína, að hafnar verði viðræður við fulltrúa Sovétríkjanna og fulltrúa Portúgals til þess að kanna hvort unnt sé að jafna þá sveiflu, sem fyrirsjáanlegt er að verður á verði olíu til hækkunar, sérstaklega þar sem útlit er fyrir að við Íslendingar verðum sérstaklega fyrir barðinu á þessari olíuverðshækkun umfram aðrar þjóðir, eins og málum er háttað.

Ég skal svo að lokum, herra forseti, aðeins segja þetta: Formælendur Alþb. segja frv. forsrh. ekki alvörufrv. Formælendur Alþfl. segja: Þetta eru ekki frv.-drög, heldur frv. sem leggja ber fram þegar í stað á Alþ. Hæstv. forsrh. segir: Ég hef samið það frv. sem mér var falið að semja, ég hef innt af höndum mína skyldu. — Þar með skildist mér að hann vildi þvo hendur sínar, en hætti reyndar við, að væntanlega mundi hann þó hafa einhverja hönd í hagga með málinu áfram. Sannleikurinn kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl., hæstv. yfirráðh., þótt merkilegt megi heita að vissu marki, þegar hann sagði:

Núv. stjórnarflokkar verða að gera upp við sig hvort þeir geta komið sér saman um úrlausn í efnahagsmálum. — Ég tek undir þessi orð, en vil leggja á það megináherslu, að þær samkomulagstilraunir stjórnarflokkanna á milli, sem nú hafa staðið í ríkisstj. nærfellt missiri og þar áður nær tvo mánuði til viðbótar í stjórnarmyndunartilraununum, verða einhvern tíma að taka enda, vegna þess að landið hefur verið stjórnlaust og verður stjórnlaust meðan svo háttar að aðstandendur ríkisstj. geta ekki komið sér saman um eitt eða neitt.