15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2631 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

Umræður utan dagskrár

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Það var eiginlega tvennt sem ég vildi koma að hérna, þó að mjög sé liðið á fundartímann.

Ég vil endilega minna á þegar við ræddum um efnahagsmál í lok nóvembermánaðar s.l. og til umr. var frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, sem við Alþfl.-menn vorum ekkert ýkjahrifnir af að samþykkja í þeirri mynd sem það frv. kom fram í. Það frv. varð mér á að kalla vettlingatök á verðbólgunni, og ég meina sannarlega að svo hafi verið. En þó ekki væri í þeim lögum gert nema lítið til þess að spyrna við verðbólgunni voru aths. með lagafrv. þar sem veruleg drög voru lögð að því að marka þá stefnu sem ríkisstj. eða a.m.k. forsrh. virðist vera að leggja fram núna. Og ég vil minna Alþb.-menn á, að þeir samþykktu allar þessar aths. með frv. um leið og þeir samþykktu frv. þó að aths. hafi vissulega ekki lagagildi. Eigi að síður samþykktu þeir þær. Bæði frv.-drög þau, sem við Alþfl.-menn sömdum í desembermánuði, þar sem við stefndum að því að láta á það reyna, hvort menn meintu það sem þeir samþykktu þegar lagt var fram þetta frv. og aths. með því, — það frv. okkar Alþfl.-manna og núverandi frv. hæstv. forsrh. eru beinlínis unnin upp úr þessum aths. Öll meginstefnumörkun í þessum tveimur frv. eða frv.- drögum, eins og menn vilja kalla það, er það, sem samþ. var á Alþ. í lok nóvembermánaðar s.l.

Af því að hv. þm. Bragi Sigurjónsson er farinn héðan af fundi núna vil ég aðeins með örfáum orðum fá að þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör sem hann gaf við spurningum sem hv. þm. beindi til hans. Þessi svör eru hins vegar það veigamikil og málið í heild, að ég vil ekki fara ítarlega í umr. um þetta mál núna heldur bíða þess og vona að tekið verði til umræður þetta mál okkar, sem er búið að vera alloft á dagskrá hér, en hefur ekki fengist rætt til hlítar, þó að það kæmi fram á fyrstu vikum þingsins. Ástæður til spurninga hv. þm. Braga Sigurjónssonar voru fyrst og fremst þær geigvænlegu hækkanir sem fyrirsjáanlegar eru á olíuverði nú á næstunni. Í svari hæstv. iðnrh. kom m.a. fram, að mikill hluti þjóðarinnar utan Reykjavíkursvæðisins býr við olíukyndingu húsa sinna og, allur sá hluti þjóðarinnar á yfir höfði sér að kyndingarkostnaður húsa hækki um 240 þús. kr. á ári, en hugsanlegt að ríkið komi aðeins til aðstoðar 50 þús kr. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir hans góðu ræðu og þá ræðu sem hann flutti áður um þessa þáltill. okkar nafnanna. Hins vegar má benda á að enn hefur ekki komið fram í umr. að við eyðum á Íslandi æðimikilli orku sem fer forgörðum. Ég á þar við það sem ég þekki til, að stóriðjan á Íslandi er með mjög mikla orku sem ég hygg að ekki sé nýtt til fullnustu. Og ég hygg það ekki bara, því að ég veit það, að þegar Grundartangaverksmiðjan verður komin í gagnið, þá fer þar orka til spillis sem nægja mundi miklu meira en til að hita upp allt Akranes. En þó að tvisvar sinnum hafi verið gerðar rannsóknir á því máli, þá hefur ekki verið áhugi hjá eigendum verksmiðjunnar, sem eru að miklu leyti íslenska ríkið, til að halda áfram þeim rannsóknum. Það er vitað mál, að það er kostnaðarlega hagkvæmt að virkja þá afgangsorku sem þar kemur fram við brennslu kolsýrlings eða kolmónoxíðs. Einnig veit ég að sementsverksmiðjan á Akranesi er með mikla hitaorku, sem einu sinni var athugað um að hita upp sjúkrahúsið með og aðrar opinberar byggingar á Akranesi. En það vantaði áhuga hjá stjórn ríkisfyrirtækisins til að nýta þessa orku.

Þetta og annað viðvíkjandi þáltill. munum við láta bíða að sinni, en ég fagna því, að iðnrn. virðist nú taka jákvætt í þetta mál sem Alþfl.-menn hafa áður flutt á þingi, en ekki verið gert neitt í málinu eða mjög lítið þar til nú.

Hins vegar er ég ekki alveg hress yfir öðrum þáttum iðnrn. gagnvart hitaveitumálum. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar fór í haust fram á að á lánsfjáráætlun yrði sett lán upp á 2000 millj. kr. Það voru gefin góð orð um eitthvað af þessu, en þetta hefur verið bútað niður í nokkrum áföngum, og nú sé ég í plagginu um lánsfjáráætlun, sem lagt var á borð okkar í dag, að það er komið niður í 750 millj. Þetta er fyrirtæki sem hefur öruggan rekstrargrundvöll, þar sem við þurfum ekki að leita að vatni. Við höfum vatnið í Borgarfirði þar sem renna 180 lítrar af sjóðandi vatni á sekúndu til einskis. En vatnið eigum við ekki. Beiðni til rn. um það að afla þessara verðmæta með lögum hefur í 10 mánuði legið í rn. Svona vinnubrögð eru ekki til þess að vekja traust á því, að við stefnum rétt í orkumálum.