19.02.1979
Sameinað þing: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2635 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

14. mál, rannsóknarnefnd til að kanna rekstur Flugleiða og Eimskipafélags Íslands

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er svo langt um liðið síðan ég bað um orðið að það, sem ég hafði þá hugsað mér að segja, hefur að einhverju leyti færst til í höfðinu á mér, svo margt hefur gerst á þessum tíma. Eitt atriði er þó sem enn stendur þar fast, og það er í ræðu hv. flm. þáltill. á þskj. 14. Hann segir í þessari ræðu m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ljóst að flutningur till. markar viss þáttaskil í þeim starfsháttum, sem tíðkast hafa hér á Alþ., og endurspeglar þess vegna breyttar kröfur og breyttan hugsunarhátt í þjóðfélaginu um starfshætti sem mundu auka framlag Alþ. til lausnar vandamála sem þjóðin á við að glíma hverju sinni.“

Þetta er nánar skýrt í sömu ræðu, með leyfi hæstv. forseta: „Þessi till. hefur vakið miklar umr.,“ segir þar. Það, sem ég vil fyrst víkja að, eru þau þáttaskil sem till. boðar og stefna í aðra átt en var minn hugsunargangur þegar ég fór inn í íslensk stjórnmál. Ég hafði þá hugsað mér að vinna þar að framkvæmd þjóðmála þannig að það væri til að bæta þjóðfélagið, eins og það var hugsað fyrir 20 árum, á sviði félagsmála, samgöngumála, heilbrigðismála og fleiri þátta sem hafa verið aðalverkefni alþm. á þeim 23 árum sem ég hef setið á hv. Alþ. Hefði þetta hins vegar verið þannig, að það hefði átt að kjósa hv. alþm. til þess að þeir væru nokkurs konar rannsóknarréttur í þjóðfélaginu og ættu að endurskoða fyrirtæki og fleira þess háttar, þá held ég að tilvera mín í stjórnmálum hefði aldrei orðið nein. (Gripið fram í: Það hefði verið illa farið.) Það hefði verið illa farið, það er rétt, því margt hef ég gert og að mörgu góðu unnið. En það hefur verið á öðrum sviðum en rannsóknarmálum. Ég vona a.m.k. að nafn mitt verði einhvern tíma nefnt í sambandi við brúna yfir Borgarfjörð þegar þessi hv. þm. kann að fara þar yfir, en það mál var rannsakað með eðlilegum hætti af þar til settum embættismönnum til þess að ákvarða hvaða leið væri heppilegust til þess að leysa úr samgöngumálum fyrir eða yfir Borgarfjörð.

Það, sem hér er nú komið fram, er að rannsaka þrjú stórfyrirtæki. Í þessari þáltill. er gert ráð fyrir að sérstakri rannsóknarnefnd verði falið að vinna að rannsókn á starfsemi Flugleiða og Eimskipafélags Íslands. Þetta eru tvö stærstu fyrirtækjum í þessu landi. En í kjölfar þessarar þáltill. fylgdi svo önnur, þar sem gert var ráð fyrir að taka eitt stærsta fyrirtæki landsins, Samband ísl. samvinnufélaga, til rannsóknar líka.

Ég hef verið að velta því fyrir mér ef þetta yrði niðurstaða hér á hv. Alþ. Þá datt mér í hug að atvikin höguðu því svo, að á þessum vetri fór ég til Rússlands, sem að vísu er ekki í frásögur færandi. En meðal þeirra staða, sem mér voru sýndir þar, voru ýmsir merkisstaðir í höfuðborginni Moskvu. Þar var mér sýndur háskóli, geysilega mikið hús og mikil stofnun. Að vísu var það aðeins að utan, því gefin var sú skýring á að skoða þessa stofnun að innan, að barn, sem færi inn í stofnunina eins árs gamalt, kæmi út úr henni aftur 100 ára gamall ef farið væri í hvert einasta herbergi í þessum háskóla og engin töf yrði á leiðinni. Mér datt þetta í hug þegar ég fór að virða fyrir mér hugmyndir um að endurskoða þessi þrjú fyrirtæki. Það er skoðun mín, að ef hv. þm. framkvæmdu það eins og þarna er gert ráð fyrir, þá mundi það taka þá hv. alþm., sem til þess voru kjörnir, allan þann tíma sem þeir sætu á þingi. Og satt að segja fannst mér illa farið með góðan grip, þ.e. hv. þm., ef ætti að fara að láta þá hafa slík verkefni, því að vafalaust mundu einhverjir af þeim þm., sem lentu í þessum verkefnum, ekki hafa farið inn á Alþ. vegna þess að þeir hefðu ætlað sér í rannsóknarrétt. Þess vegna vil ég þegar segja það, að ég er algerlega andstæður þeirri skoðun, að alþm. eigi að fara að starfa eins og þeir væru í rannsóknarrétti, því að ég álít að þeirra för til Alþingis hafi verið gerð með annað í huga en að taka það að sér.

Okkar vald er þrískipt, þ.e. löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald, og milli þessara aðila á að halda þeirri skiptingu sem verið hefur, en ekki fara að breyta því og gera löggjafarvaldið að rannsóknarvaldi. Á því byggist afstaða mín til þessa þáttar till., sem hún í raun og veru er byggð á, að því sem mér skilst á ræðu hv. flm., að þetta sé grundvöllurinn að tilkomu hennar. Ég vil líka halda því fram, að auk þess finnst mér illa með þá þm. farið sem verða látnir taka þetta verk að sér, og ég vil ekki eiga þátt í því að valda þeim leiðindum sem þar féllu í þeirra hlut. Einnig er afskaplega fjarri mér að trúa því, að það væri vel að staðið að láta pólitíska alþm. fara í slík rannsóknarstörf. Og mér finnst, þegar ég les framsöguræðu hv. flm., að þá staðfestist þessi skoðun mín, að hugsunarhátturinn og hugmyndirnar, sem séu á bak við flutning till., gefi einmitt ástæðu til að ætla að hv. alþm. væru illa til þess fallnir að fara í slík rannsóknarstörf. Ég held að þeir séu um of með fyrir fram mótaðar skoðanir til þess að geta unnið slíkt verk sem nauðsyn ber til ef endurskoðun á sér stað.

Hitt verð ég að segja, að fyrir hv. Alþ. liggur frv. um ríkisendurskoðun og samband Alþingis og þeirrar stofnunar. Þar á löggjafarþingið að ákveða hvernig það eigi að fylgjast með ríkisrekstrinum sem er ein af skyldum þess. Ég lít svo á að það frv. sé eðlilegt, því þar sé um að ræða endurskoðun af hálfu ríkisins á starfsemi ríkisins sjálfs og meðferð þeirra fjármuna og rekstri þeirra stofnana sem ríkið sjálft rekur. Ég hef nokkuð kynnst þessari starfsemi og veit að hún er mjög mikilvæg og veit líka að hún er afskaplega tímafrek. En mér verður hugsað til þess nú, að þegar kosið var til endurskoðunar á ríkisreikningi á yfirstandandi þingi, þá var málum hagað svo að enginn þm. var kosinn til endurskoðunar. Þar er einn varaþingmaður, en hinir eru ekki þm. Ég tel að þetta sé misráðið, þarna þurfi Alþ. að vera á verði og eigi að vera, og byggi það á reynslu minni í þessu starfi og sem fjmrh., að þarna beri brýna nauðsyn til og fyrst og fremst beri að vinna að því að ná góðu samstarfi á milli hinna þingkjörnu fulltrúa og ríkisendurskoðunar, því að annars næst ekki góður árangur í þessu starfi. Mér finnst því að hefði verið ástæða til að haga þessu öðruvísi, en við því er ekkert að segja. Þetta er saga sem hefur endurtekið sig og er því ekki sérstaklega á ferðinni nú, þó að svona hafi til tekist að þessu sinni.

Ég vil hins vegar víkja að því sem kemur fram í framsöguræðu hv. flm., þar sem hann telur að till. hafi vakið athygli, sem hún hefur vafalaust gert, og vitnar þar til þess, að hún hafi verið tekin upp í fjölmiðlum, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Nú ætla ég mér ekki að fara að telja mér trú um að ég geti leiðbeint þessum stofnunum um hvernig þær eigi að haga sínum verkum. Hitt verð ég að segja, að mér finnst heldur óviðfelldið um mál sem er þingmál og ekki er komið til umr. á hv. Alþ., að framsaga fyrir því skuli fara fram í útvarpi og sjónvarpi, eins og.átti sér stað í þessu máli. Ég segi ekki að það sé vitni um ágæti þess, heldur þau vinnubrögð sem þar eru viðhöfð og ég tel að mjög orki tvímælis. Út af fyrir sig mega þessar stofnanir velja sér til viðræðu þá menn sem þær helst kjósa. En að framsaga um þingmál fari fram í fjölmiðlum áður en hún fer fram á Alþ., það er ekki að mínu skapi eða eftir mínum skilningi á störfum Alþingis. Ég tel það ekki eðlilega virðingu við Alþ. sem stofnun, sem ég vil í heiðri hafa, og tel því mistök þegar slíkt á sér stað. En um það ætla ég ekki að hafa fleiri orð en ég hef þegar gert.

Það, sem ég vildi svo segja frekar um þetta mál, er fyrst og fremst að því er varðar Flugleiðir, því að ég hef haft af málum þeirra nokkur afskipti. Á sínum tíma, þegar vinstri stjórnin 1971=74 sat að völdum, voru málefni Flugleiða, eða Flugfélags Íslands og Loftleiða, mjög til meðferðar. Það, sem þá gerðist, var að samkeppni milli þessara aðila var svo mikil að ríkisstj. óttaðist að fyrirtækin mundu ekki þola slíka samkeppni og við gætum orðið í vissri hættu ef hún héldi þannig áfram.

Ég tel að skilningur á þessu komi fram í ræðu hv. flm., framsöguræðunni, þar sem hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 1339. dálki:

„Það þarf ekki að tíunda það fyrir hv. alþm., hvað mikilvægur grundvallarþáttur samgöngukerfisins er í nútímaþjóðfélagi. Fyrir eyþjóð eins og Íslendinga hefur baráttan um forræðið yfir samgöngutækjunum verið einn af hornsteinum sjálfstæðisbaráttunnar, sem þjóðin hefur löngum háð bæði fyrir og eftir lýðveldisstofnunina.“

Ég er hv. flm. sammála um þetta. Af þessum ástæðum taldi þáv. ríkisstj. — og í þeirri ríkisstj. var Hannibal Valdimarsson þá samgrh. — að nauðsyn bæri til að vinna að því, að þessi átök leiddu ekki til þess, að þessum þætti samgöngukerfis okkar væri stefnt í hættu. Þess vegna var það sem ríkisstj. tók sjálf upp beint samband við þessa aðila til að reyna að koma á sameiningu þeirra. Ef vald fyrirtækisins er orðið slíkt, að ástæða sé til að rannsaka starfsemi þess á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir, þá ber sú ríkisstj. og þeir sem í henni sátu, þ. á m. ég, ábyrgð á því að hafa unnið að þessum málum. Engin ástæða er til að leyna því eða koma sér fram hjá því, að ef hér hefur verið rangt að verki staðið, þá bar ríkisstj. sú sem þá sat, ábyrgð á því. Það var hins vegar skoðun hennar að nauðsyn væri að vinna þetta verk. Það tók allverulegan tíma og var oft og tíðum æðið tvísýnt. En það tókst samt að koma þessu saman á þann hátt að sameina þessi fyrirtæki. Ég tel að forusta ráðuneytisstjórans í samgrn. hafi verið mjög farsæl og sterk við að koma þessu í framkvæmd. Ég er enn á þeirri skoðun sem ég var þá, að brýna nauðsyn bar til að koma þessu í framkvæmd, m.a. vegna þess að flugsamkeppnin í veröldinni er orðin svo mikil og hin stóru flugfyrirtæki í veröldinni hafa sameinast, bæði á Norðurlöndum og eins í Bandaríkjunum, til þess að verða sterkari í þessari samkeppni. Þrátt fyrir þá sameiningu, sem gerð var með Loftleiðum og Flugfélaginu í Flugleiðir, et samkeppni Flugleiða t.d. í Atlantshafsfluginu mjög hörð og erfið eins og nú er. Staða þeirra er ekki of sterk þó að þetta hafi verið gert. Hins vegar hefur það jafnan verið svo, að Flugleiðamenn hafa staðið sig vel í flugstarfseminni og störf þeirra hafa því yfirleitt verið farsæl, þó að þeir hafi á s.l. ári orðið fyrir slysi, sem alltaf getur komið fyrir og var mjög sorglegt eins og kunnugt er. En ég vil endurtaka það, að ég tel að það hafi verið mikil ástæða til að vinna að þessari sameiningu. Ég vil líka benda á það, að millilandaflug er háð leyfum stjórnvalda. Þess vegna getur þar ekki verið um einokun að ræða, vegna þess að viðkomandi stjórnvöld verða að gefa leyfi til þess að flug geti átt sér stað á milli landa.

Ég minnist þess einnig, að þegar ég fór sem samgrh. til Lúxemborgar og ræddi við samgrh. þar, sem nú er hættur störfum, þá kom það einmitt fram hjá honum, að þeir þar í landi vildu miklu heldur eiga samstarf við Íslendinga um flugmál, vegna þess að þar væri um smáþjóð að ræða, heldur en við stóru þjóðirnar sem mjög sæktu á að komast inn á þeirra markað. Ráðh. í Lúxemborg spurði um það, hver afstaða íslenskra stjórnvalda væri til flugstarfseminnar hér, og taldi að það hefði auðvitað mikil áhrif á þá, að hún væri skynsamleg, og þess vegna mundu þeir reyna að leggja sitt til að Flugleiðir gætu haldið starfsemi sinni áfram, því að ekki var því að neita, að þeir voru búnir að verða fyrir verulegu áfalli þegar flugfélögin voru sameinuð. Ég teldi því mjög illa farið og hættulegt fyrir okkur, ef staða okkar gagnvart Lúxemborg væri orðin veikari en hún þá var, og kann ekki skil á því, hvernig núv. stjórnvöld þar huga að þessum málum. En ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu, því að þetta kom mjög greinilega fram.

Út af því, sem fram kemur í sambandi við þessa till. um þátttöku Flugleiða í ýmsum öðrum flugfélögum hér innanlands og annarri slíkri starfsemi, vil ég segja það varðandi eignarþátttöku þeirra í hinum minni flugfélögum hér, að ég hygg a.m.k., að því leyti sem ég kann skil á því, að það hafi ekki síður komið frá hinum einstöku minni félögum úti á landsbyggðinni en frá Flugleiðamönnum og það hafi verið gert til þess að reyna að ná betri árangri í innanlandsfluginu en áður hefur verið. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fargjöld hér innanlands hjá Flugleiðum og í öllu flugi eru háð leyfi stjórnvalda. Það hefur jafnan verið svo, að í umsóknum frá Flugleiðum hefur verið sótt um hærri fargjöld en leyfð hafa verið. Og þeir Flugleiðamenn hafa haldið því fram og á þeim reikningum hefur það komið fram, að tap hafi yfirleitt verið á innanlandsfluginu. Nú má svo sem um þetta deila eins og fleira. Hitt held ég að sé samt ljóst, að hin önnur flugfélög, sem hér hafa starfað, hafa ekki talið sig hafa þann hagnað af þeirri starfsemi, að ekki hafi þurft á einn eða annan hátt að fá aðstoð, og m.a. hefur þátttaka Flugleiða í eignaraðild að þessum fyrirtækjum verið, að því er ég best veit, byggð á ósk þessara litlu fyrirtækja. Venjulega hefur það verið svo, að hér sé um að ræða minnihlutaaðild Flugleiða í þessum fyrirtækjum, að þeir, sem fyrir voru, hafi þar meiri hl., en ekki Flugleiðamenn.

Ég veit að það má deila um einstaka þætti í starfsemi Flugleiða eins og annarra fyrirtækja, enda er fjarri mér að halda því fram, að þar séu einhverjir englar að verki, og ég vil hafa mennina mannlega, en ekki engla.

Ég veit líka um sum fyrirtækin, t.d. Hótel Húsavík, að það voru ekki Flugleiðamenn sem sóttu á að verða þar hluthafar. Hótel Húsavík var í mjög erfiðri fjárhagsstöðu og þurfti að auka hlutafé sitt, en vantaði kaupendur að því hlutafé sem búið var að ákveða að selja, og það var að þeirra ósk að Flugleiðir gerðust þar aðili.

Ég tel líka að það hafi sýnt sig, að hin önnur flugfélög, sem hafa hafið hér flug landa á milli, hafi ekki treyst sér til að halda því áfram, t.d. Arnarflug. Arnarflug og Air Viking fengu yfirleitt þau leyfi sem þau báðu um í sambandi við flug landa á milli, nema áætlunarflugið, það fengu þau ekki, en að öðru leyti þau flug sem beðið var um. Það eina, sem hefur verið haft eftirlit með, eru Kaupmannahöfn og London, en að öðru leyti fengu þau umsóknir sínar afgreiddar meðan ég þekkti þarna til. Þrátt fyrir þetta hefur orðið sú breyting á þarna sem raun hefur borið vitni og ég kann ekki að greina ástæður fyrir. Þó að það gerðist ekki löngu eftir að ég hætti sem samgrh., að Arnarflug seldi Flugleiðum hluta af sínu hlutafé, þá kom það ekki til umr. í samgrn. og fór fram án þess að það ætti þar neina aðild að, enda ekki um það að ræða, því að það var ákvörðun þeirra um ráðstöfun á sínum eignum.

Það, sem ég vildi svo segja um Flugleiðir að öðru leyti, er að það dregur enginn í efa, og ég veit að hv. flm. gerir það ekki heldur, að þýðing Flugleiða á íslenskum atvinnumarkaði er óumdeilanleg. Um þessar mundir starfar meira en hundraðasti hver Íslendingur hjá félaginu. Þetta þýðir ekki að Flugleiðir séu risafyrirtæki á erlenda vísu, eins og ég gat hér um áðan. Jafnvel á mælikvarða nágrannaþjóðanna á Norðurlöndum eru Flugleiðir lítið fyrirtæki.

Okkur er nauðsyn á eigin samgöngum. Vegna þess her okkur Íslendingum að standa saman um Flugleiðir. Flugleiðir og starfsfólk félagsins greiðir mikla skatta til samfélagsins. Áður en aukaskattheimta var ákveðin á s.l. hausti námu skattar og útsvör starfsfólks Flugleiða 780 millj. kr. Sjálft var félagið þriðji hæsti skattgreiðandi í Reykjavík með 139 millj. kr. (Gripið fram í.) Veltan, já, hún var mikil líka, enda verður að vera allmikil velta til þess að það sé hægt að leggja svona mikla skatta á. Það er ljóst.

Flugleiðir og þau félög, sem stóðu að stofnun þess, hafa aldrei sótt um eða fengið styrk til rekstrar síns, eins og algengt er í nágrannalöndunum. Þrátt fyrir að innanlandsfargjöldum hafi verið haldið óeðlilega lágum að dómi þeirra, svo tap hefur verið á þeim, hefur félagið ekki farið fram á stuðning í formi ríkisstyrks. Hins vegar vonast félagið eftir því að fá að selja framleiðslu sína á sannvirði.

Íslenskir ráðamenn hafa verið vinsamlegir Flugleiðum og veitt þeim stuðning við flugvélakaup í formi ríkisábyrgða. Ég vil hins vegar taka það fram, að flugfélögin, Flugfélag Íslands, Loftleiðir og Flugleiðir, hafa aldrei látið falla á ríkissjóð slíkar greiðslur. Ef það hefur komið fyrir áður að greitt væri í bili, en það hefur ekki verið gert á síðustu árum, þá hefur það verið greitt mjög fljótlega upp. Ríkissjóður hefur því ekki þurft að greiða vegna flugsins neinn eyri til þessa.

Um það leyti sem Flugleiðir voru stofnaðar voru bæði íslensku flugfélögin, eins og ég sagði áðan, rekin með halla. Þess vegna var það að út í þetta var farið. Það, sem hefur gerst síðan, er að nýtingarhlutfallið á flugvélum félagsins hefur batnað allverulega. Tölvukerfi það, sem hefur verið tekið upp hjá þessum fyrirtækjum, hefur og átt sinn þátt í að bæta þessa stöðu.

Ég vil segja það, að ljóst er að það er óhugsandi í þeirri samkeppni sem þetta fyrirtæki þarf að halda uppi við erlenda aðila að hægt sé að hafa mjög lítil fyrirtæki í þessum samgöngum.

Ég vil líka segja það í sambandi við þessa till. og þær umr., sem hafa orðið um hana, og þessar rannsóknartillögur um stórfyrirtæki hér á landi, að á vissan hátt finnst mér að það sé dálítið skrýtinn hugsunarháttur á bak við þetta. Það hefur komið fram, að stórfyrirtæki, sem voru hér á landi þegar ég var ungur og var að alast upp, eru nú ekki lengur til. Mér finnst að það sé ekki þetta sem eigi að vera hið æskilega, heldur hitt, að fyrirtæki geti eflst og starfað og starfað áfram. Ég minnist þess eitt sinn á framboðsfundi á Vesturlandi, að þar var gerð allhörð atrenna að Sambandi ísl. samvinnufélaga og Kaupfélagi Borgfirðinga. Nokkur deila varð auðvitað á fundinum út af þessu, og sá, sem gerði þessa árás, taldi að það væri munur á nú með hallir samvinnumanna og áður afgreiðsluna í fjörunni í Húsavík í upphafi Kaupfélags Þingeyinga. Ég tók eftir því, þegar ég var að ganga út úr fundarsalnum eftir þessar umr., að þá voru tveir menn að ræða um það sem þarna hafði komið fram. Þá sagði annar þeirra: „Til hvers stofnuðu Þingeyingar kaupfélag sitt. Það var til þess að fara úr fjörunni upp á bakkann.“ Ég álít að það, sem við höfum gert, hæði á því sviði og í samgöngumálum okkar, hafi einmitt verið að fara úr fjörunni upp á bakkann. Við höfum verið að vinna að því að efla þessa starfsemi og reyna að búa sem best að henni.

Nú má halda því fram, ef það er skoðun hv. þm., að fyrirtæki eins og Flugleiðir gæti verið rekið á vegum ríkisins. (Gripið fram í.) Ég hef aðra skoðun á því og tel að það, sem ríkið þurfi að sjá um í sambandi við samgöngur í flugi, séu flugvellirnir og aðbúnaður á þeim. Fyrir tveimur árum eða svo lét ég sem samgrh. gera sérstaka úttekt á flugvöllum hér á landi og aðbúnaði þeirra. Sú skýrsla, sem hv. Alþ. fékk vorið 1977 og var síðan rædd hér á þingfundi í fyrra, vorið 1978, sýndi að mjög skorti á þjóðfélagið að sinnti þessu verkefni sínu eins og nauðsyn bæri til. Þetta bendir til þess, að það sé fjarri því að þjóðfélagið í heild geti bætt þar á sig verkefnum sem það eigi að sinna. Þeirri úttekt, sem unnin var af n. þeirri sem ég skipaði og ég ræddi hér um, á þskj. 533 á síðasta þingi, fylgdi áætlun um það, hvernig leysa mætti þessi verkefni. Því miður er sú áætlun úr skorðum gengin vegna þess að ekki hefur verið hægt að leggja til það fjármagn sem þurfti til þess að halda áætluninni. M.a. hefur nú verðbólgan valdið því, og fjárhagsgeta okkar hefur ekki verið talin leyfa það að unnið væri að þessu verki á þann hátt sem nauðsyn bar til að gera. Þess vegna held ég að okkur beri að sinna þeim þætti með meiri dugnaði og meiri krafti en við höfum þegar gert, en fara ekki að eyða tíma þm. í að rannsaka starfsemi Flugleiða. Það tel ég illa farið með þeirra tíma og hæfileika, því ég hygg að þeir séu frekar á öðrum sviðum. Frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar ber brýna nauðsyn til að snúast í sókn í sambandi við flugvelli og flugöryggismál þeirra meira en gert hefur verið og meira en gerð var tilraun til í sambandi við undirbúningsvinnu að þessari skýrslu og fyrstu framkvæmd hennar.

Ég vil líka segja það, að ef yrði farið að samþykkja hér á hv. Alþ. að skipa n. til að rannsaka starfsemi fyrirtækja eins og Flugleiða, Sambandsins og Eimskipafélagsins, og svo kæmu vafalaust einhverjir fleiri á eftir, þá get ég ekki skilið annað en við mundum veikja stöðu þessara fyrirtækja á erlendum vettvangi mjög alvarlega og það svo að orkaði mjög tvímælis hvort þau þyldu slíkt. Ég held það væri sama hvort um væri að ræða lánstraust eða önnur viðskipti eða leyfi sem aðrar þjóðir verða að veita flugfélögunum til þess að lenda hjá sér, að ef það lægi fyrir, að fyrirtækið væri undir opinberri rannsókn nefndar kjörinnar af þjóðþingi, þá hef ég ekki trú á að það yrði auðsótt að fá lendingarleyfi fyrir slíkt fyrirtæki. Það hefur reynst nógu erfitt að komast að þeim samningum, og t.d. nú fyrir stuttu urðu Flugleiðir að hopa í sambandi við lendingar í Glasgow. Það var dregið úr því, og tókst þó í þetta sinn að stöðvast á miðri leið frá því sem hugsað var af heimaaðilum.

Ég trúi ekki öðru en hv. flm. þessarar till. hafi tæplega hugsað þennan þátt svo sem nauðsyn bar til, því það væri óhugsandi að Alþ. væri ekki virt meira en svo, að ef það gerði slíka samþykkt, ákveða rannsókn á þessum fyrirtækjum, hefði það engin áhrif út á við. Mér finnst algjörlega óhugsandi að það gæti skeð, og ég trúi því ekki, að nokkur geti haldið því fram með rökum að hægt væri að hugsa sér það.

Ég tel því að farið væri með þetta mál inn á mjög hættulega braut ef þessi till. yrði samþykkt.

Í fyrsta lagi, eins og ég gat um í upphafi, er verið að breyta vinnubrögðum Alþingis frá því, sem hér hefur verið, svo gjörsamlega að þeir þm., sem færu inn á þetta svið, gætu ekki sinnt löggjafarstarfseminni eða tekið þátt í athugun á efnahagsmálum eða öðrum þáttum þjóðfélagsins sem hv. alþm. munu kannast við að þurfa að taka þátt í, bæði á þessu þingi og öðrum — ég held eins langt skeið og ég man og ekki heldur hugað að eðlilegri uppbyggingu í þjóðfélaginu og öðru slíku. Auk þess væri verið með aðdróttanir um að þessi fyrirtæki væru sérstakrar gerðar sem þyrfti að athuga. Í þriðja lagi vil ég benda á það sem ég sagði áðan, að það var ríkisstj. á árunum 1971–1974 sem gekkst fyrir sameiningu þessara félaga og hefur meira að segja átt fulltrúa hjá Loftleiðum, a.m.k. fram að þessu, til þess að fylgjast með, m.a. í sambandi við ábyrgð ríkissjóðs. Auk þess, eins og ég nefndi áðan, getur ekki orðið um einokunarstarfsemi að ræða í sambandi við flug landa á milli, vegna þess að þar er hörð samkeppni og lendingar eru háðar leyfum. Fleira mætti til tína sem ég ætla nú ekki að fara út í.

Út af Eimskipafélagi Íslands ætla ég nú ekki að eyða löngum tíma. Það var eitt af óskabörnum þjóðarinnar. Ég minnist þess úr þeirri ríkisstj. sem ég sat í á árunum 1971–1974, þegar þetta óskabarn átti 60 ára afmæli, að þáv. viðskrh. hugsaði málið á þann veg, að hann samþykkti þá beiðni Eimskipafélagsins um að kaupa þá sex skip af þessum þrettán sem um er talað þarna. Nú kann ég ekki skil á því, hvort þeir Eimskipafélagsmenn hafi verið nógu heppnir eða nógu hyggnir í innkaupunum. Þar kann ég ekkert um að dæma. Ég held hins vegar að þáv. viðskrh. hafi kunnað þar nokkuð til og hann hefði ekki beitt sér fyrir að þetta leyfi væri veitt nema af því hann hefði sjálfur haft trú á að þetta væri rétt. Ég reyndar efast ekki um það.

Ég vil líka segja það, að það er fjarri því að þetta fyrirtæki geti ráðið hér flutningum eða haft einokunaraðstöðu hér. Hvort tveggja er, að það eru fleiri fyrirtæki hér á landi, Sambandið o.fl., sem annast vöruflutninga, og enn fremur er sá möguleiki fyrir hendi að erlendar þjóðir geri það líka. Hættan fyrir okkur, ef við veikjum stöðu þessara fyrirtækja, er einmitt sú, að við séum að ryðja brautina fyrir því að erlendar þjóðir geti tekið meiri þátt í okkar samgöngukerfi, bæði á sviði fólks- og vöruflutninga. Því finnst mér að það eigi sama við í þessu tilfelli og hinu fyrra, að staða fyrirtækisins út á við hjá öðrum þjóðum hlyti að veikjast og það mjög alvarlega, ef í ljós kæmi að íslenska löggjafarþingið hefði talið ástæðu til að taka þessi fyrirtæki til sérstakrar meðferðar. Þess vegna skortir mig skilning á því, hver árangurinn yrði af því ef slíkt væri gert, enda segi ég það enn og aftur, að ég treysti ekki pólitískum alþm. til þess að fást við það. Það yrðu þá að vera aðrir aðilar, ef þjóðin teldi ástæðu til að gera slíkt. En ég tel hina mestu fásinnu að halda að slíkt eigi að gera og er því mótfallinn þessari till. af þeim grundvallarástæðum sem ég hef nefnt.

Ég get líka sagt það, og það er sennilega einhver fyrirboði um þau nýju vinnubrögð sem sumir hv. þm. vilja koma hér á, að mér hefur verið sagt það — ekki hér innan Alþ., heldur úti í bæ, sem ég veit ekki hvort er rétt, að þn. ein sé að rannsaka mál eins aðila sem stundum hefur komið hingað með kvörtun í sambandi við Alþingi og embættismenn. (Gripið fram í.) Ég vil ekki fara frekar út í það mál að sinni. En ef það væri rétt, þá vil ég segja að það mál hefur verið hér til meðferðar á Alþ. Það er hávísindalegt mál, og ég veit ekki til að það sé nokkur hv. alþm. á þingi hér nú sem geti tekið að sér slíka rannsókn. Ef slíkt mál kæmi til kasta Alþ., þá fengi það sína venjulegu meðferð þar. En þá mundi ég að sjálfsögðu vitna til þeirra gagna sem voru lögð fram í því máli á sínum tíma og urðu til þess, að þeir hv. alþm., sem þá voru flm. að því, endurfluttu það ekki.

Hins vegar finnst mér það alvarlegast, ef hv. Alþ. telur sig hafa rétt til að kalla fyrir sig Pétur og Pál og meðhöndla þá eins og fyrir rannsóknarrétti væri. Þessi sögn, ef rétt er, styður þá grundvallarhugsun mína í sambandi við þetta mál, að hér sé verið að fara inn á braut sem ég vona að hv. Alþ. beri gæfu til að víkja frá.