19.02.1979
Sameinað þing: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2643 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

57. mál, fæðingarorlof kvenna í sveitum

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Það mál, sem við flytjum hér fjórir Alþfl.-menn um fæðingarorlof kvenna í sveitum, hefur áður komið inn í sali hins háa Alþingis og menn reynt að ryðja því braut, þessu sjálfsagða réttlætismáli. Við treystum því, að í þetta sinn fái mál þetta betri undirtektir en verið hefur á fyrri þingum, og má segja það í framhjáhlaupi í sambandi við þessa umr., að félmrh. hefur mikinn hug á að koma þessu réttindamáli inn í almannatryggingakerfið, þannig að konur í sveitum njóti þessara sjálfsögðu réttinda sem konur í verkalýðsfélögum hafa fengið fyrir allnokkru.

Í till. kemur fram að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að eiginkonur bænda og aðrar útivinnandi konur í sveitum fái notið fæðingarorlofs er jafngildi þeim fæðingarorlofsgreiðslum sem nú eru í gildi.

Ég vil — með leyfi forseta — lesa þá stuttu grg. sem fylgir þessari þáltill. Þar segir:

„Um árabil hafa konur, félagar í verkalýðsfélögum, fengið greitt fæðingarorlof. Þessar greiðslur hafa nýverið hækkað allverulega og nema nú 426 þús. kr. miðað við 90 daga orlof vegna barnsfæðinga.

Á síðasta ári greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður 295.5 millj. kr. í fæðingarorlof, en ætla má að heildarfjárhæð í ár verði 450 millj. kr. eftir hækkanir, sem nýlega voru ákveðnar.

Tilgangurinn með þessum greiðslum er að bæta mæðrum það tekjutap, sem þær verða fyrir, vinni þær utan heimilis og kaupgreiðslur til þeirra falli niður vegna fjarveru frá störfum í tengslum við barnsfæðingar.

Meðal kvenna í sveitum, sem enga aðild eiga að stéttarfélögum, eru þessar orlofsgreiðslur óþekktar. Í þessu felst mikið misrétti, stéttamisrétti, sem ástæða er til að vekja athygli á og færa til betri vegar.

Samkvæmt búreikningum er vinnutími eiginkvenna bænda, utan heimilis, 800 klst. á ári. Hinn 1. mars s.l. var tímakaup þeirra í dagvinnu 703 kr., 984 kr. í eftirvinnu og 1266 kr. í nætur- og helgidagavinnu. Lætur nærri að vikulaun hafi numið tæplega 41 þús. kr. og árslaun 2,1 millj.

Þótt vinnutími til sveita sé mjög óreglulegur, ef miðað er við fastan vinnutíma fólks í stéttarfélögum, mun varla hvarfla að nokkrum manni að draga í efa hina miklu vinnu sveitakvenna utan heimilis. Vinna þeirra er ekki bundin við virka daga, — hana verður að inna af hendi 365 daga á ári.

Samtök bænda hafa ekki getað tryggt þessum hópi kvenna fæðingarorlof. Hér verður enginn dómur á það lagður hvort ástæðan er áhugaleysi eða fjárskortur. Hins vegar er ljóst að stofna hefði átt sjóð til greiðslu fæðingarorlofs og í hann hefði átt að renna fjármagn frá bændum sjálfum, sbr. greiðslur félaga í verkalýðsfélögum, og að hluta fjármagn frá viðskiptaaðilum bænda.

Með þessari till. er borin fram sú ósk, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að sjálfsögð réttindi sveitakvenna verði að veruleika. Æskilegt er að setja lög um þetta efni og að þau tengist endurskoðun á almannatryggingakerfinu.“

Ég sagði í upphafi, að mál af þessu tagi hefðu áður komið inn í sali Alþ. og tilgangurinn með þessari þáltill. væri einkum sá að hnykkja á um að þetta mál kæmist í höfn. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að núv. ríkisstj. hafi hug á að taka þetta mál upp í sambandi við endurskoðun á núgildandi almannatryggingakerfi, þannig að fæðingarorlof verði ekki eingöngu bundið við konur í verkalýðsfélögum, heldur yfirleitt allar konur í þessu landi.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, en vil þó aðeins skjóta því hér að, að ég tel að það fyrirkomulag, sem nú tíðkast um greiðslu á fæðingarorlofi, þ.e.a.s. að það skuli greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sé orðið ófært með öllu og á því þurfi að verða breyting þegar í stað og tryggt verði að Atvinnuleysistryggingasjóður geti gegnt hlutverki sínu. En samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, fer því fjarri að sjóðurinn gæti gegnt sínu meginhlutverki, þ.e.a.s. að greiða laun ef til atvinnuleysis kemur í þessu landi, einkum og sér í lagi vegna þess að mikið fjármagn sjóðsins er bundið í ýmsum lánum og fjármagnið er einnig bundið í verðbréfum og fleiru sem sjóðurinn hefur fjárfest í.

Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti þess, að það fái góðar undirtektir. Ég tel að hér sé á ferðinni mikið réttlætismál, enda búið að koma fyrir í sölum þessarar virðulegu stofnunar áður, og ég vænti þess, að það komi til með að njóta stuðnings.