19.02.1979
Sameinað þing: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2055)

57. mál, fæðingarorlof kvenna í sveitum

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil eingöngu þakka undirtektir við þessa till. og get fyllilega tekið undir það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson benti réttilega á. Ég sagði að vísu sjálfur í innganginum að þessari till., að ég taldi eðlilegast í sambandi við þá endurskoðun, sem nú er fyrirhuguð á almannatryggingakerfinu, að þetta fæðingarorlof næði til allra kvenna. Hins vegar hefur sjónarmið mitt í þessu máli verið einfaldlega það, að á meðan konur í verkalýðsfélögum njóta fæðingarorlofs og húsmæður til sveita gera það ekki, þá taldi ég það auðsætt réttlætismál að reyna að stíga eitt skref í viðbót í þá átt að auka réttlætið í þessum málum. Það vill oft gleymast í umr. um störf húsmæðra í sveitum, að þær eru ekki aðeins húsmæður, heldur eru þær vinnukraftur heimilisins að stórum hluta, vinna mikið að bústörfum, og við hugsanlega fjarvist frá heimili vegna fæðinga vill stundum brenna við að það verði býsna erfitt að bæta í það rúm sem þá tæmist.

Ég vil ekki fara fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi. Ég treysti því, að það verði til þess að ýta á eftir þeirri endurskoðun á almannatryggingakerfinu sem þm. hafa nefnt hér og nauðsynleg er og gæti orðið til þess að koma þessu réttlætismáli endanlega í höfn og þá, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð sagði, að það næði til allra húsmæðra, það þyrfti ekki að taka út úr þær húsmæður, sem eru í verkalýðsfélögum, eða húsmæður eða konur til sveita yfirleitt.