20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2648 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að leitast við að veita nokkur svör við þeim spurningum sem hér eru fram bornar varðandi galla í framleiðsluafurðum sem umsamið var að selja til Sovétríkjanna. Ég skal reyna að gefa í ekki mjög löngu máli yfirlit um þetta og svara þá um leið fyrirspyrjanda.

Það er þá fyrst að víkja að ástæðum og hvernig hagað var viðskiptum við Sovétríkin hvað snerti sölu á gaffalbitum á s.l. ári. Þá voru gerðir við Prodintorg í Moskvu þrír samningar um sölu eða kaup þeirra á gaffalbitum, samtals um 86 098 kassa að verðmæti samtals 3 732 745 Bandaríkjadalir. Á núverandi gengi nemur það 1 milljarði og 200 þús. kr. Framleiðsla þessi var unnin af tveimur verksmiðjum sem eru aðilar að Sölustofnun lagmetis, þ.e. K. Jónsson & Co. h.f. og Lagmetisiðju ríkisins eða Siglósíld. Framleiðslan skiptist þannig milli verksmiðjanna að K. Jónsson & Co. annaðist rúm 70%, en Siglósíld tæp 30%. Vörunum var afskipað á tímabilinu febr.–nóv. 1978.

Hinn 28. nóv. s.l. hafnaði Prodintorg hluta af gaffalbitum sem uppskipað hafði verið úr Ljósafossi 25. sept., og ástæðan, sem fram var borin, var slæm lykt af vörunni. Það var sem sagt skynmat. Fulltrúar frá Sölustofnun lagmetis og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins áttu fundi í Moskvu dagana 4.–6. des. Var þar samið um að bæta 6 framleiðsludaga eða sem nam 3424 kössum, að heildarverðmæti tæplega 149 þús. dollarar eða 47.3 millj. ísl. kr. á cif-verði. Höfnun Prodintorg var að öðru leyti dregin til baka. Magn það, sem hér þarf að bæta, var framleitt af K. Jónssyni hf. á Akureyri, og allar líkur eru taldar á að gallann megi rekja til ástands hráefnisins áður en það fór í sjálfa gaffalbitavinnsluna.

Niðurstaðan af framangreindum viðræðum fulltrúa Sölustofnunar lagmetis og fulltrúa Prodintorg varð sú, að í febrúarmánuði 1979, þ.e. í yfirstandandi mánuði, skyldi hinu umsamda magni, 3424 kössum, afskipað héðan, en í hverjum kassa eru 100 dósir. Þess skal getið, að þá er þessir samningar fóru fram höfðu Prodintorg eigi borist niðurstöður af rannsóknum sínum á síðasta farmi af gaffalbitum er var skipað upp í Sovétríkjunum úr m/s Goðafossi 30. okt. s.l. Hinn 28. des, barst Sölustofnuninni svo skeyti frá Prodintorg þess efnis, að hafnað væri af sömu ástæðu og fyrr greinir, þ.e. slæmri lykt, hluta af þeim farmi. Varan, sem um var að ræða, var frá sama fyrirtæki, K. Jónsson hf. á Akureyri.

Hinn 15. jan. s.l. fóru utan fulltrúar frá Sölustofnun lagmetis og fulltrúi frá framleiðanda. Niðurstaða viðræðna þessara manna og fulltrúa Prodintorg var sú, að fallist var á að bæta 5290 kassa sem bættir skyldu á tímabilinu mars — maí 1979. Heildarbæturnar samkv. framansögðu eru því 8 714 kassar, hver með 100 dósum, allt framleitt af K. Jónssyni & Co., heildarverðmæti í Bandaríkjadölum 379 059 eða rúmar 122 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Magn það, sem hér um ræðir, er 10.1% viðskiptanna við Prodintorg.

Framleiðslu þeirra gaffalbita, sem K. Jónsson hf. skyldi bæta í þessum mánuði, lauk í byrjun mánaðarins. Við ítarlega sýnatöku, sem gerð var af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, kom hins vegar í ljós, að framleiðslan var ekki talin fullnægja ákvæðum samninga um gæði. Á sama tíma annaðist Framleiðslueftirlit s jávarafurða könnun á hráefnislager K. Jónsson & Co. Segir orðrétt í skýrslu eftirlitsins m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Við skoðun kom þegar fram að stórfelldir gallar eru í síldinni og er þar einkum um að ræða súr.“ Þá segir og í sömu skýrslu: „Eru um 4/5 af þeirri síld, er skoðuð var, óhæfir til vinnslu, en um 1/5 er með vott af súr eða rétt á mörkum. Heilbrigð og góð síld fannst ekki í þeim hluta sem skoðaður var.“

Hér er um að ræða síld sem söltuð var á haustvertíð 1977. Á þessu stigi er ekki endanlega hægt að fullyrða af hverju gallinn á gaffalbitunum stafar. Þó er hægt að slá því föstu, að hann muni stafa af hráefninu. Gæti þar ýmislegt komið til greina, svo sem of lítið saltmagn, rangt hitastig og pæklun, en um þetta vil ég auðvitað ekkert fullyrða endanlega. Þetta verður rannsakað ítarlega og nauðsynlegt að komast fyrir um orsakir þessara alvarlegu skemmda.

Það er vert að víkja þá að því, hvaða afleiðingar þetta gæti haft fyrir markaði í Sovétríkjunum á lagmeti sérstaklega, og að þeim ráðstöfunum sem iðnrn. hefur þegar gert varðandi þetta mál.

Fulltrúar Sölustofnunar lagmetis hafa tjáð mér að náið samstarf sé á milli þeirra og viðskiptafulltrúa Sovétríkjanna hér á landi um hagkvæmustu lausn þessara mála. Iðnrn. og viðskrn. fylgjast með gangi þeirra að sjálfsögðu. Lagmetisiðja ríkisins, Siglósíld, á þegar framleitt nægilegt magn sem skoðað hefur verið eða metið til þess að láta af hendi sem fyrstu sendingu bóta, ef um slíkt semdist. Ekki er enn fullgengið frá fjárhagshlið málsins milli aðila, en þessa dagana er unnið að því af fullum krafti. Er þess vænst að það takist að ganga frá sendingu fyrir 1. mars n.k., ef samningar takast milli þeirra aðila sem ég hér nefndi. Ljóst er að þetta alvarlega mál hefur tafið samninga Sölustofnunar lagmetis við Sovétríkin um sölu gaffalbita og annars lagmetis.

Á þessu stigi er ekki hægt að fullyrða hvort þetta kemur til með að skaða framtíðarviðskipti við Sovétríkin á þessu sviði. Sölustofnun lagmetis leggur höfuðáherslu á að ganga frá umsömdum bótum og hefur ástæðu til að ætla að þá er afgreiddar hafa verið febrúarbætur muni Prodintorg reiðubúið til frekari samninga.

Um framleiðslueftirlit og útflutning á lagmeti gildir reglugerð nr. 221 frá 1976. Þessi reglugerð er við það miðuð að atburðir sem þessi eigi ekki að geta átt sér stað. Það verður að viðurkennast og telja að erfiðleikar hafi átt sér stað í sambandi við framkvæmd reglugerðarinnar, og meginástæðan virðist sú af lauslegri skoðun, að ekki hafi tekist að afla fjár til að standa við framkvæmd þessarar reglugerðar og greiða þeim aðilum fyrir það eftirlit sem hún gerir ráð fyrir, en ég hef þegar gert ráðstafanir og aðrar í undirbúningi til að reyna að koma þessum málum í lag.

Eins og kunnugt er heyrir Framleiðslueftirlit sjávarafurða undir sjútvrn. og það hefði verið reiðubúið til að annast eftirlit, en því hefur ekki verið ætlað fjármagn til að standa undir þessu eftirliti, þó að það hafi gripið inn í í vissum tilvikum þegar sérstaklega hefur verið um beðið.

Að mínu mati nær það náttúrlega engri átt, að ekki sé betur staðið að málum sem þessum, og nauðsynlegt að viðkomandi rn. taki á þeim sameiginlega. Þau mál eru nú í gangi, og ég vænti þess, að úr þessu rætist og menn læri af þeim mistökum sem hér hafa átt sér stað.

Um viðskiptalega hlið málsins að því er snertir framleiðslufyrirtækið ætla ég ekki að ræða, það tel ég þessu óviðkomandi. Varðandi hins vegar áhrifin á viðskiptin við Sovétríkin, þá er það mál sem viðskrn. fjallar um sem slíkt. En ég vænti að ég hafi með þessum orðum varpað nokkru ljósi á eðli þessa máls og hvað er í gangi á vegum míns rn. í samvinnu við aðra til þess að bæta hér úr.