20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta sem hæstv. iðnrh. gerði grein fyrir að því er varðar þetta mjög svo alvarlega mál sem hér hefur komið upp. Ég legg á það áherslu að vinna þannig að þessu máli, að markaður verði tryggður fyrir afurðir okkar í Sovétríkjunum á árinu 1979, það sé meginatriðið, og í annan stað verðum við auðvitað að gera ráðstafanir innanlands til þess að tryggja að svona lagað geti ekki komið fyrir. Það er vitaskuld engin afsökun í sjálfu sér til fyrir því, að svona lagað komi upp hjá þjóð sem er jafnháð framleiðslu og útflutningi sjávarafurða og við erum að því er varðar öll lífskjör okkar í þessu landi.

En ég kom hingað upp aðeins til að svara fsp. hv. 2. landsk. þm. varðandi könnun á útflutningsverslun. Mér heyrðist á honum að hann væri orðinn óþolinmóður að frétta af því að ríkisstj, setti þá könnun af stað, og ég deili þessari kennd með honum, þ.e.a.s. óþolinmæðinni. Það var snemma í okt. að ég tók þetta mál upp við sjútvrh., sem á að fjalla um þetta mál samkv. samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna ásamt viðskrh. Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er talað um að gerð verði úttekt á starfsemi sölusamtaka í sjávarútvegi. Þess vegna er auðvitað eðlilegt að bæði rn., sjútvrn. og viðskrn., hafi með þetta að gera. Ég fyrir mitt leyti er tilbúinn með þá hlið af þessu máli sem að mér snýr, en hæstv. sjútvrh. er hins vegar erlendis og búinn að vera nokkra daga. Ég tel enga ástæðu til að ætla annað en ríkisstj. eða ég og sjútvrh. getum tilkynnt áður en langur tími líður hvernig að þessari rannsókn á útflutningsversluninni verður staðið. Í hana verður að fara. Það er ekki þetta mál út af fyrir sig sem ýtir undir okkur í þeim efnum. Það er mörg fleiri atriði sem þar er um að ræða og nauðsynlegt að sé þannig tekið á þeim að stjórnvöld geti áttað sig sem best á því, hvort þau vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið um langt árabil í útflutningsmálum, eru þannig, að ástæða sé þar til einhverra breytinga. Á grundvelli slíkrar úttektar ætti, tel ég, ríkisstj. að vinna að tillögugerð í þeim efnum.

En sem sagt, ég vil aðeins ítreka áhuga minn á því, að þessi könnun verði sett af stað og það fyrr en seinna, og ég vænti þess, að ríkisstj. komi því verki frá áður en langur tími líður. Ég tel að það megi ekki dragast öllu lengur að í þetta verkefni verði gengið.