20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

Umræður utan dagskrár

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. afar mikið, en það er vissulega fróðlegt að hlýða á mál hæstv. iðnrh. um þetta efni, því hér er vissulega mjög alvarlegt málefni á ferðinni.

Markaðurinn í Sovétríkjunum fyrir ýmsar fiskafurðir okkar, ekki síst í lagmetisiðjunni, er ákaflega mikilvægur og það skiptir vissulega máli að við rækjum skyldur okkar við þennan markað eins og aðra sem við sækjumst eftir. Þetta er því mjög svo alvarlegt mál, og ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá ráðh. báðum og hjá hv. fyrirspyrjanda, hversu alvarlegt og mikilvægt þetta mál er og hversu mikilvægt er að það verði leyst þannig að það þurfi ekki að draga á eftir sér neinn slóða.

Mér virtist koma greinilega fram í ræðu hæstv. iðnrh., að gallarnir á vörunni, sem send var til Sovétríkjanna, stöfuðu af hráefninu, saltsíld sem keypt var að af fyrirtækinu á Akureyri sem vann þessa vöru. Mér finnst að þetta séu mjög mikilvægar upplýsingar. Það er þó a.m.k. búið að vinna svo vel að rannsókn þessa máls, að menn vita af hverju gallarnir stafa, að gallarnir stafa af hráefninu fyrst og fremst, og það er mjög mikilvægt að rannsóknin skuli vera það langt komin.

Það, sem hvað helst hlýtur að vekja okkur til umhugsunar, er það sem kom fram hjá hæstv. iðnrh., að framkvæmd reglugerðarinnar frá 1976, sem á, eins og hæstv. ráðh. tók til orða, að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst sem þarna hefur skeð, virðist vera algerlega í handaskolum. Það er mjög illt afspurnar, og ég vil leggja á það áherslu. að ég held að það leggi mjög ríkar skyldur á hendur ríkisvaldinu um að bæta það fjárhagstjón sem fyrirtækið á Akureyri, K. Jónsson & Co., hefur orðið fyrir í þessu sambandi. Ég held að okkur sé flestum kunnugt að þetta kemur mjög hastarlega við þetta fyrirtæki, K. Jónsson & Co., sem er gamalt og gróið fyrirtæki á Akureyri og veitir þar mikla atvinnu. Það eru tugir fólks sem hafa þar nánast að segja fasta atvinnu, og fyrirtækið er nú í mjög hættulegri fjárhagslegri stöðu eftir að þetta kom upp.

Ég vil sem sagt beina því til ráðh. og til þingheims, að þetta mál verði leyst á þann veg að það þurfi ekki að verða til þess að þetta gamla og gróna og ágæta fyrirtæki á Akureyri verði e.t.v. gjaldþrota eða a.m.k. svo lamað af fjárhagssökum að það hafi veruleg áhrif á rekstur þess og á afkomu tuga fólks á Akureyri.