20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hef í rauninni ekki miklu við svör hæstv. ráðh. að bæta í þessu alvarlega máli sem hér er vakin athygli á utan dagskrár. Ég vil þó gera þetta mál í stuttri ræðu að umtalsefni og vona að ég misbjóði ekki þolinmæði hæstv. forseta í þeim efnum.

Í máli fyrirspyrjanda kom fram, að hann taldi að enginn árangur hefði orðið af för fulltrúa Sölustofnunar lagmetis til Sovétríkjanna núna, vegna þess að engir samningar hefðu náðst. Þetta er ekki alveg rétt að því leyti til, að þar náðist sá árangur að um þessi tjónamál var samið, og eins og fram kom í máli hæstv. iðnrh. er tjónið nokkur þröskuldur í vegi fyrir áframhaldandi samningum. Ég vil þó á það benda aðeins til upplýsingar fyrir hv. þm., fyrst þetta mál ber hér á góma, að það hefur stundum verið miklu meiri aðdragandi að samningum við Sovétmenn um gaffalbita heldur en nú er orðið á þessu ári. T.d. var svo í fyrra, að þá voru fyrstu samningar ekki undirritaðir fyrr en nokkru seinna og m.a. hafði þá þáv. hæstv. sjútvrh. átt viðtöl við kollega sinn í Sovétríkjunum um þau mál. Ég vil aðeins benda á þetta til upplýsinga.

Að sjálfsögðu hefur Sölustofnun lagmetis, sem ég veit að hv. þm. vita að ég er tengdur, hef verið þar stjórnarformaður í nokkur ár, mjög miklar áhyggjur af þessu máli. Við erum að vinna að lausn þess í samráði við aðila, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., og hef ég engu við það að bæta. Ég vil hins vegar víkja að því sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, hv. þm. Finni Torfa, að Sölustofnun hlyti að bera sína ábyrgð á þessum mistökum eða slysi. Ég vil benda á að þetta er slys sem kemur fyrir eftir 15 ára sögu þessara Sovétviðskipta og í raun hefur sáralítið á bjátað í þessum efnum á öllum þessum langa tíma. Hann benti á að Sölustofnun lagmetis bæri hér einhverja ábyrgð á, og síst skal ég gerast dómari í þeirri sök. En ég vil á það benda, að skv, þeirri reglugerð, sem er um opinbert eftirlit á þessu sviði, eru tvær stofnanir sem annast þetta eftirlit, eins.og kom fram hjá hæstv. ráðh. Það er Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Það hefur í höndum eftirlit með lagmetisverksmiðjunum og eftirlit með hráefni. Samkv. reglugerð, sem er frá 20. maí 1976, á það líka að hafa á hendi sýnatöku af fullunninni vöru í lagmetisverksmiðjunum. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur síðan það eftirlitsstarf með hendi, að hún tekur við sýnum á hverjum framleiðsludegi og eftir ákveðnum reglum. Þessi sýni eru sett í gegnum rannsókn við stofuhita og ákveðinn tíma. Þarna er um að ræða vöru sem er niðurlögð, ekki niðursoðin. Að því leyti hefur hún tiltölulega stuttan geymsluþolstíma og er öllum aðilum um það kunnugt. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur þennan þátt á hendi og gefur útflutningsvottorð.

Ég skal ekki leggja á það dóm, hvort mönnum sýnist að þessar stofnanir hafi staðið eðlilega að sínum hlut í þessu máli. Um það hafa orðið óheppileg blaðaskrif, að mér finnst, og það er kannske margt þar sem þarf að athuga þegar verið er að leggja dóm á þessa starfsemi. En ég vil aðeins benda á í þessu sambandi, af því sérstaklega var talað um Sölustofnun lagmetis, að hún bæri hér verulega ábyrgð, vekja athygli á því, að Sölustofnun lagmetis hafði að vissu leyti forgöngu um setningu þessarar reglugerðar, þ.e.a.s. hún hafði þar mjög mikið hönd í bagga. Það var iðnrn. sem hafði um þetta formlega forustu. Sölustofnun hefur æ ofan í æ lagt á það áherslu, að þessari reglugerð væri framfylgt. Ég er hér með í höndum í jósrit af bréfi sem Sölustofnun skrifaði til þessara rannsóknastofnanna á s.l. sumri og vakti athygli á því, að það hefði orðið vart nokkurra aths. við einstaka framleiðsludaga. Í bréfinu segir — ég skal lesa bréfið orðrétt, það er stutt:

„Með tilvísun til viðræðna við yður svo og dæma, er upp hafa komið um neikvæða skoðun nokkra framleiðsludaga hjá framleiðendum frá því framleiðsla gaffalbita hófs að nýju í byrjun árs 1978, förum vér fram á eftirfarandi:

Fyrir hönd Lagmetisiðjunnar Siglósíld, Siglufirði og K. Jónsson & Co. hf. á Akureyri er óskað eftir að fulltrúar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins heimsæki háðar verksmiðjurnar og geri könnun á hreinlætisaðstöðu allri, svo og ástandi og geymsluaðstöðu hráefnisbirgða. Í samræmi við reglugerð um framleiðslueftirlit og útflutning á lagmeti teljum vér eðlilegt að haft sé samráð við Framleiðslueftirlit sjávarafurða.“

Þetta bréf er skrifað 8. júní 1978. Sýnir það að Sölustofnun lagmetis hefur að sínu leyti reynt að hafa áhrif á að þessum reglugerðum verði framfylgt.

Ég vil sérstaklega taka það fram, að Sölustofnun lagmetis telur þessa reglugerð út af fyrir sig fullnægjandi og í alla staði eðlilega, en að það þurfi að sjá svo til að henni sé framfylgt.

Um það hafa orðið deilur milli aðila, að Framleiðslueftirliti sjávarafurða hafi verið meinað fjármagn til að vinna sitt verk að þessu leyti. Ég skal ekki fara nánar út í það hér. Það er auðvitað fjárveitingavaldsins að svara fyrir það. Ég vil hins vegar, af því að ég hef átt sæti í fjvn. á undanförnum árum, segja það í þessu sambandi, að ég man ekki betur en að það væri svo, að fjvn. vildi ekki fallast á að Framleiðslueftirlit sjávarafurða þyrfti að ráða sérstaka embættismenn til að sinna þessu verkefni, heldur væri eðlilegt að bæði síldarmatsmenn og aðrir, sem hefðu eftirlit með fiskiðjuverum, gætu sinnt þessu verkefni ásamt sínum störfum. Ég held að þetta hafi verið sameiginlegt álit allra sem hlut hafa átt að máli í fjvn., þannig að ljóst sé að ekki hefur beinlínis verið um fjármál að ræða í þessu sambandi, heldur deilu um það, hvort í þessu skyni þyrfti sérstaka menn sem þá yrðu að sjálfsögðu dýrari fyrir ríkissjóð en ef aðrir, sem fyrir eru hjá viðkomandi stofnun, gætu sinnt verkefninu.