20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir viðvörun hv. þm. Ingvars Gíslasonar varðandi afleiðingarnar af því slysi sem hér hefur átt sér stað fyrir atvinnulíf í einu plássi, Akureyri, þar sem gamalgróið fyrirtæki, sem einna lengst hefur þraukað við framleiðslu á niðursoðnum sjávarafurðum til útflutnings, hefur lent í stórvandræðum, hvernig svo sem á því stendur.

Nú er ljóst af þeim upplýsingum sem fram hafa komið hjá hæstv. iðnrh. og raunar hv. þm. Lárusi Jónssyni, að ábyrgðin á þessu tjóni, sem er upp á 122 millj. kr., virðist ætla að falla á fyrirtæki þetta á Akureyri, K. Jónsson & Co. Ég veit ekki sönnur á því, en það hef ég lesið í norðanblöðunum, að nú sé þannig ástatt hjá þessu fyrirtæki að það hafi sagt upp starfsfólki sínu frá og með næstu mánaðamótum, og ástæðan, sem upp er gefin, er sú, að hráefni skorti þar til framleiðslu.

Nú er hæstv. sjúvtrh. eins og stundum áður fjarri góðu gamni, því æskilegt hefði verið að við hefðum fengið upplýsingar frá honum um einmitt þessi atriði sem hv. þm. Lárus Jónsson vék að áðan varðandi þann hemil sem verið hefur á starfsemi Framleiðslueftirlitsins í sambandi við gæðamat. Ég hef tilhneigingu til að trúa því, að hv. þm. Lárus Jónsson hafi getið sér rétt til áðan, að hér sé miklu fremur um að ræða stjórnunaratriði en fjárskort sem því ráði, að nokkur tregða hefur verið á eðlilegri framkvæmd eftirlits á þessu sviði. Við okkur blasa staðreyndir samkynja og kannske aðeins stigsmunur á í sambandi við áföll sem við urðum fyrir á fyrra ári við útflutning á sjávarafurðum, þar sem í ljós kom að stórkostlegar skemmdir höfðu orðið á varningi sem við fluttum út til sölu erlendis þótt með nokkuð öðrum hætti væri og tjón okkar yrði annars konar og e.t.v. ekki jafnhættulegt fyrir markaðsstöðu okkar og virðist hafa orðið á Sovétmarkaðnum. Er þar skemmst að minnast upplýsinga sem fram hafa komið um skemmdir á hundruðum tonna af fiskflökum sem flutt voru m.a. á Ameríkumarkað, og við höfum ekki fengið hér á Alþ. enn þá fullnægjandi skýringar á orsökum þess arna. Jafnvel þeir aðilar, sem þarna áttu að hafa hönd í bagga, hafa sjálfir lýst yfir að þeir gætu ekki skýrt þessar stórkostlegu skemmdir, með hvaða hætti þær hafi átt sér stað og á hvaða stigi framleiðslunnar.

Það væri ákaflega æskilegt, að við þyrftum nú ekki öðru sinni að ganga í gegnum hörmungatímabil í líkingu við það sem var á árunum í kringum 1960 og fyrir þann tíma, þegar eyðilagðir voru fyrir okkur markaðir erlendis með útflutningi á gallaðri vöru og þá ekki síst í Austur-Evrópulöndunum, þegar m.a. var gengið þannig frá áliti íslenska fisksins á markaði í Austur-Þýskalandi og Tékkóslóvakíu, að austur-þýskar húsfreyjur segja enn í dag, að ef minnst sé á íslenskan fisk á heimilum þeirra þurfi þær ekki aldeilis að hafa áhyggjur af matseldinni þann daginn, því að fólkið hafi bókstaflega ekki lyst á neinu. Ég geri mér grein fyrir því, að lykt getur orðið svo slæm, hv. þm. Matthías Bjarnason, að hún munist kynslóðum saman. Og það liggur í augum uppi, að þeir erfiðleikar, sem við verðum fyrir á rússneska markaðnum af þessum sökum núna, hljóta að bitna á fleiri fyrirtækjum en K. Jónsson á Akureyri. Það liggur í augum uppi, að þessir erfiðleikar muni bitna á Siglósíld einnig.

Ég vil ekki láta hjá líða við þetta tækifæri, — ekki til þess að verja K. Jónsson á Akureyri sem vafalaust ber þarna alla ábyrgð og mun bera hið endanlega fjárhagslega tjón, hjá því verður ekki komist, — en þá vil ég ekki láta hjá líða að minna á það, að á sínum tíma var framleidd, ef ég man rétt, margra mánaða framleiðsla gaffalbita hjá Siglósíld til sölu til Austur-Evrópu og kom í ljós að bragðið af þessum gaffalbitum var ekki eins og til hafði verið ætlast. Það var ekki vond lykt af þeim, þeir voru bara öðruvísi á bragðið en Rússar vildu hafa sína gaffalbita. Bragðið var eins og verkstjórum og sérfræðingum þeirra við Siglósíld þótti gott, en það var ekki eins og Rússar vildu hafa það. Ég man ekki betur en þá þyrfti að gera út sérstaka sendinefnd til Sovétríkjanna, gott ef ekki var valið pólitískt í nefndina, til þess að fá Rússa til að fallast á að borða þessa gaffalbita engu að síður. Þetta verður leiðrétt hjá mér ef þetta er misminni. En þessi vara var hráefnislega og efnislega ógölluð og hún seldist þarna með slíkum fortölum.

Ég vænti þess, að hv. þm. Matthías Bjarnason, fyrrv. sjútvrh., trúi því raunar ekki að ég hafi verið að sveigja að sér persónulega þó að ég nefndi úldinn fisk. Þetta slys, sem henti í sumar er leið, verður ekki skrifað á reikning fyrrv. sjútvrh. fremur en stóra slysið fyrir 1960 verður skrifað á bak einnar ríkisstj. eða eins sjútvrh. Hér er verið að ræða um mjög alvarlegt mál sem varðar skipulagningu á fiskframleiðslu okkar til útflutnings. Það er stórhættulegt fyrir okkur vegna sérstaks eðlis þessarar vöru, þar sem fiskurinn er, að láta það henda okkur að út sé flutt og á okkar ábyrgð inn á matborð granna okkar í næstu löndum skemmdur fiskur.

Mér er það minnistætt frá árinu 1961, — ég vann þá lítillega við gerð útvarpsþáttar sem var kallaður „Þátturinn um fiskinn,“ — að þá sá ég bréf t.d. sent til Sambands ísl. samvinnufélaga frá húsmóður nokkurri í Kaliforníu og fylgdi með fiskifluga í umslaginu. Hún sagðist ekkert vera á móti fiskiflugum út af fyrir sig, en hún sagðist vænta þess, að sá tími rynni ekki upp að hún þyrfti að bera þær á borð fyrir sitt fólk og ef til þess kæmi vildi hún sjálf ráða valinu, hún mundi ekki treysta sér til að kaupa hraðfrystan fisk merktan Íslandi þaðan í frá, undir engum kringumstæðum.

Það er ekki ljóst mál hvernig verður raunar bætt fyrir þessa gölluðu vöru sem flutt hefur nú verið út til Sovétríkjanna frá Íslandi. Það er ekki ljóst mál. Það eitt er víst, að við höfum ekki tilbúnar ógallaðar dósir af gaffalbitum upp á 122 millj. til að flytja út á þessum tíma. Eins og ég sagði, þá er sennilegast að tjónið lendi á þessu fyrirtæki á Akureyri. Það ber hina endanlegu ábyrgð. Enginn annar var raunverulega viðstaddur til þess að meta það hráefni sem í dósirnar fór. Þó var til og í starfi íslensk stofnun sem átti að annast þetta. Við höfum ekki fengið nægilegar upplýsingar um hvernig á því stóð, að það var ekki gert. Það liggur ekki fyrir trygging fyrir því, að þetta verði gert framvegis. Ég hygg að við verðum að muna það, ef ske kynni að hæstv. sjútvrh. yrði viðstaddur hér dagstund í Sþ., að minna hann á þessi atriði eða gefa honum kost á að taka þátt í umr. um þessi mál.

Ég hirði ekki að fara lengra út í upprifjanir á hinum fyrri slysum sem orðið hafa svipaðs eðlis og þetta sem við ræðum um nú. En ég fullyrði að það á að vera á valdi okkar og hlýtur að vera á valdi okkar að tryggja það að atvik eins og þetta endurtaki sig ekki.