20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

Umræður utan dagskrár

Hannes Baldvinsson:

Herra forseti. Ég mun reyna að virða tilmæli hæstv. forseta og gerast ekki mjög langorður í sambandi við það mál sem hér hefur verið vakin athygli á. Mér finnst þó rétt að taka fram, að mér finnst slæmt að þurfa að byrja mál mitt á því að leiðrétta missagnir flokksbróður míns, Stefáns Jónssonar, um útflutning Siglósíldar og þá gamansögu sem hann var að reyna að setja í samband við það.

Eins og alþm. er e.t.v. minnistætt, þá reis upp deila á milli Lagmetisiðjunnar Siglósíldar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins um gæði framleiðsluvöru Siglósíldar á þessum tíma. Það kom nefnilega í ljós að gaffalbitarnir frá Siglósíld þoldu ekki að geymast í stofuhita í 3 vikur, en það var ekki deila um bragð eða gæði að öðru leyti. Niðurstaðan í sambandi við þessa deilu og hvernig það mál var leyst var einfaldlega sú, að sýnishorn voru send beint til kaupenda, sem voru Sovétríkin í þessu tilfelli. Prodintorg, innflutningsfyrirtæki þeirra, var látið um að meta, hvort þeir teldu vöruna nothæfa eða ekki, og þeir samþykktu hana með lítilfjörlegum afslætti. Þessi framleiðsla á vegum Siglósíldar fór út og fékkst að fullu greidd. Ég læt þetta duga um sögu Stefáns. Hún er byggð á einhverjum misskilningi, sem ég kann ekki skýringar á, og ég held að það sé ekki rétt að vera að rifja það mál upp aftur, enda þjónar það ákaflega litlum tilgangi.

Mér finnst að þær umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál utan dagskrár, veki raunverulega fleiri spurningar en svarað hefur verið, þó að svör við ýmsu hafi verið greinargóð. Ég vil leyfa mér að spyrja: Hvernig má vera að fjárskortur kemur í veg fyrir að Framleiðslueftirlit sjávarafurða skoðar vöru sem K. Jónsson kaupir austur á Hornafirði, en þessi fjárskortur virðist ekki vera til staðar þegar verið er að skoða vöru sem Siglósíld kaupir á sama tíma á sama stað? Er hugsanlegt að kaupsamningar K. Jónssonar hafi gert það að verkum að Framleiðslueftirlitið hafi ekki talið sér fært og ekki heldur skylt að framkvæma þetta eftirlit, vegna þess að þeim var gert ókleift að annast það eftir þeim reglum sem gilda um eftirlit á saltsíldarframleiðslu? Ég leyfi mér að spyrja: Hvernig má það gerast í verksmiðju K. Jónssonar, að framleiddir eru rúmlega 8000 kassar, eða 15% framleiðslunnar s.l. ár, úr gölluðu hráefni? Iðnrh. hefur upplýst hér á undan að aðalástæðan fyrir skemmdunum og fyrir kvörtununum, sem borist hafa frá Prodintorg, sé sú, að unnið hafi verið úr gölluðu hráefni. En ég spyr: Hvernig má það gerast í verksmiðju með jafnlanga starfsreynslu og fyrir hendi er hjá K. Jónssyni, að 15% framleiðslunnar séu unnin úr gölluðu hráefni? Og ég spyr enn: Hvernig má það gerast, að sýnataka af þessum 15%, sem send er suður til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, ber ekki með sér að það sé verið að vinna úr gölluðu hráefni? Ég held að nauðsynlegt sé með tilliti til framtíðar lagmetisiðnaðarins á Íslandi að allt þetta mál verði kannað rækilega og gaumgæfilega og komist fyrir þau óeðlilegu vinnubrögð sem notuð hafa verið á allan hátt að því er virðist vera í sambandi við þetta mál.

Ég vil leyfa mér að rifja upp, að það fór ekki fram hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þegar Siglósíld var að framleiða út hráefni með hæpið geymsluþol. En hvernig stendur á því, að þegar K. Jónsson er að framleiða úr ónýtu hráefni kemst Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins ekki á snoðir um neitt? Ég vil líka leyfa mér að spyrja: Hvernig stendur á andvaraleysi lánastofnana, sem fjármagna hráefniskaup hjá þessum fyrirtækjum, og það þarf töluvert mikið hráefni til? Ríkisábyrgðasjóður hefur hlaupið undir bagga, bæði með ríkisfyrirtækinu Siglósíld og sömuleiðis með einkafyrirtækinu K. Jónsson, og fjármagnað þann hluta hráefniskaupanna sem lánastofnanir lána ekki út á. Hvernig má það vera að Ríkisábyrgðasjóður og bankar, sem lána út á þessi hráefniskaup, krefjast þess ekki að fyrir liggi vottorð um gæði þess hráefnis sem verið er að lána út á?

Ég gæti haldið áfram að þylja hér mun fleiri spurningar, en ég skal ekki lengja þessar umr. eins og ég lofaði í upphafi. En ég vil eindregið óska þess, að þeir, sem koma til með að fjalla um og rannsaka þetta mál ofan í kjölinn, geri það gaumgæfilega þannig að komist verði fyrir rætur meinsins sem þarna hefur greinilega fengið að búa um sig í heilt ár.