20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

340. mál, hvar í dómskerfinu eru stödd nokkur mál sem teljast til efnahagslegra afbrota

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 330 leyft mér að bera upp fsp. við hæstv. dómsmrh. um það, hvar í dómskerfinu séu stödd nokkur mál, sem teljast megi til svokallaðra efnahagslegra afbrota.

Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa um það mörg orð, að á undanförnum árum hafa orðið allmiklar umr. hér á landi um tiltekna tegund afbrota, sem með samheiti má kalla efnahagsleg afbrot og eiga það sammerkt að þar er um að ræða afbrot þar sem einstaklingar eru að auðga sig beinlínis í efnahagslegu tilliti. Eins hafa verið uppi umr. um það, að dómskerfið hér á landi hafi ekki alls kostar verið í stakk búið að takast á við þær afbrotategundir sem hér eru gerðar að umræðuefni. Á undanförnum árum hafa fjölmiðlar fjallað um allnokkur mál af þessu tagi, og því er þessi fsp. fram borin, að hæstv. dómsmrh. upplýsi þingheim um hvar 11 mál, sem hér eru talin, séu stödd á ferli dómskerfisins. Þessi mál eru: 1. Svokallað Pundsmál. 2. Svokallað Grjótjötunsmál. 3. Mál sem kennd voru við Guðbjart heitinn Pálsson. 4. Svokallað Landsbankamál. 5. Mál sem kennd hafa verið við Friðrik Jörgensen. 6. Svokallað ávísanakeðjumál. 7. Mál læknis, sem kærður var fyrir að hafa móttekið greiðslu fyrir þjónustu sem hins vegar var ekki innt af hendi. 8. Svokallað Alþýðubankamál. 9. Svokallað Finansbankamál. 10. Svokallað Antikmál. 11. Mál sem fjölluðu um bílasala sem kærðir voru á fyrra ári.