20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

340. mál, hvar í dómskerfinu eru stödd nokkur mál sem teljast til efnahagslegra afbrota

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyrst fyrir um 11 mál, sem verið hafa til meðferðar hjá rannsóknarlögreglu, ríkissaksóknara og dómstólum landsins.

Fyrst er spurst fyrir um mál sem kennt hefur verið við Sparisjóðinn Pundið. Gangur þess máls hjá rannsóknarlögreglu hefur verið þessi:

Hinn 24. nóv. 1975 kærði maður nokkur þáv. sparisjóðsstjóra Sparisjóðsins Pundsins og annan mann, sem óháður var sparisjóðnum, fyrir meinta okurlánastarfsemi í sambandi við lánafyrirgreiðslu úr sparisjóðnum. Sá, sem kærði, hafði þá notið þessarar lánafyrirgreiðslu í þrjú ár og hafði hann þurft að greiða aukagreiðslu umfram vexti og kostnað til að fá fyrirgreiðslu út á sparisjóðshækur sem bundnar voru í sjóðnum.

Rannsókn þessa máls var þegar hafin og voru bæði sparisjóðsstjórinn og hinn maðurinn, sem kærður hafði verið, úrskurðaðir til að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarinnar. Vegna sjúkleika beggja mannanna var gæsluvarðhaldsvist þeirra stytt og var annar þeirra fluttur á sjúkrahús beint úr varðhaldinu. Hefur hann reyndar verið heilsuveill æ síðan.

Í þágu rannsóknar málsins var gerð húsleit í húsakynnum sparisjóðsins og öll gögn hans athuguð. Sú rannsókn var afar tímafrek. T.d. reyndist nauðsynlegt að yfirfara alla innleggs- og úttektarmiða hlutaðeigandi sparisjóðsbóka og kanna áritun þeirra. Þá var þörf á umfangsmikilli samanburðarvinnu, sem fram fór jafnt innan sparisjóðsins sem utan. Allmargar sparisjóðsbækur voru nafnlausar og reyndist tafsamt verk að afla upplýsinga um eigendur þeirra. Margir eigendur þeirra bóka, sem athugun sættu, voru orðnir aldurhnignir og heilsuveilir og tóku yfirheyrslur því langan tíma. Rannsókn málsins hófst hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík, sem þá var undir stjórn yfirsakadómarans í Reykjavík. Annaðist rannsóknarlögreglan í Reykjavik rannsókn málsins allt fram til 1. júlí 1977, þegar Rannsóknarlögregla ríkisins tók til starfa. Var málið þá framsent hinni nýju rannsóknarlögreglu til meðferðar.

Jafnskjótt og Rannsóknarlögregla ríkisins hafði fengið málið til meðferðar var ákveðið að hefja á ný rannsókn þess. Var sú ákvörðun tekin með hliðsjón af því, að kannað yrði hvort um brot á XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væri að ræða auk okurbrota. Fyrst og fremst beindist rannsóknin að því, hvort brotið hefði verið gegn 253. gr. hegningarlaga. Er í því sambandi rétt að fram komi að í forsendum gæsluvarðhaldsúrskurða þeirra, er kveðnir voru upp 25. nóv. 1975, segir að kærðir séu grunaðir um brot gegn XXVI. kafla almennra hegningarlaga og þá einkum gegn fyrrnefndri 253. gr. þeirra. Brot samkv. 253. gr. hegningarlaga varða varðhaldi allt að 2 árum. Samkv. 2. tölul. 81. gr. sömu laga fyrnist sök á 5 árum þegar refsing hefði orðið varðhald um lengri tíma en eitt ár.

Unnið var kappsamlega að rannsókn málsins eftir að það barst Rannsóknarlögreglu ríkisins. Fjöldi manna var yfirheyrður og gagna aflað. Um síðustu áramót var málið á lokaspretti, aðeins eftir að yfirheyra annan kærða um það sem fram hafði komið við framhaldsrannsókn. Veiktist hann þá skyndilega og lá alvarlega veikur á sjúkrahúsi langan tíma. Vegna þessara veikinda var ekki unnt að yfirheyra hann fyrr en í okt. s.l., en stöðugt var fylgst með heilsufari hans með tilliti til þess hvort hægt væri að yfirheyra hann. 13. nóv. s.l. barst rannsóknarlögreglunni læknisvottorð þess efnis, að frekari yfirheyrslur yrðu heilsu hans hættulegar. Þá var ákveðið að málið skyldi sent ríkissaksóknara til umfjöllunar.

Rannsókn máls þessa hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins dróst einvörðungu vegna veikinda kærða, svo sem að framan hefur verið lýst. Rétt er einnig að taka fram, að kæranda máls þessa var bent á að skila sundurliðaðri og rökstuddri skaðabótakröfu, sem unnt væri að birta kærðu, en slík krafa barst ekki þrátt fyrir ítrekaða ósk þess efnis.

Öllum er fullkunnugt um hver urðu endalok þessa máls. Ríkissaksóknari taldi ekki að ástæða væri til frekari aðgerða í máli þessu af hálfu ákæruvaldsins. Ástæðan væri sú, að sök kærðu væri fyrnd þar sem um væri að ræða meint okurbrot, en ekki brot gegn almennum hegningarlögum. Ég get bætt því hér við, að ýmsir lögfróðir menn eru ósammála um þessa niðurstöðu.

Í framhaldi af þessu er rétt að það komi fram hér og nú, að innan skamms verður lagt fyrir Alþ. frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, þar sem m.a. verður gert ráð fyrir veigamiklum breytingum á fyrningarreglum laganna. Hegningarlaganefnd er nú að leggja síðustu hönd á tillögur þess efnis, en sú vinna hefur staðið alllengi, enda um vandasamt verk að ræða.

Í öðru lagi er spurt um Grjótjötunsmálið. Mál þetta er til meðferðar í Sakadómi Reykjavíkur. Að því er mér var tjáð, þegar þetta svar var útbúið, 5. febr. s.l., var gert ráð fyrir að það yrði tekið til dóms 6. febr. Ég hef ekki grennslast eftir því, hvort svo hefur orðið, en það er þá a.m.k. alveg á næsta leiti.

Í þriðja lagi er mál sem kennt hefur verið við Guðbjart Pálsson. Með bréfi, dags. 24. mars 1977, sendi Sakadómur Reykjavíkur ríkissaksóknara endurrit af dómsrannsókn sem þá hafði farið fram vegna meintra tollalaga- og hegningarlagabrota Guðbjarts heitins Þórðar Pálssonar. Vegna andláts Guðbjarts skömmu áður tók rannsóknardómarinn þá ákvörðun að senda ríkissaksóknara rannsóknina, eins og hún stóð þá, til athugunar og umsagnar um það, hvort ástæða væri til að halda áfram vissum þáttum rannsóknarinnar.

Hinn 24. júlí 1978 sendi ríkissaksóknari Sakadómi Reykjavíkur rannsóknargögn á ný og mælti fyrir um áframhaldandi rannsókn á nokkrum þáttum málsins. Yfirsakadómarinn í Reykjavík synjaði kröfu ríkissaksóknara um dómsrannsókn með úrskurði sem ríkissaksóknari kærði aftur til Hæstaréttar. Hæstiréttur staðfesti úrskurð Sakadóms, og sendi ríkissaksóknari þá málið til Rannsóknarlögreglu ríkisins með bréfi, dags. 3. nóv. 1978. Rannsókn máls þessa hjá rannsóknarlögreglu er á byrjunarstigi, en kappkostað mun að ljúka henni sem allra fyrst.

Þá er í fjórða lagi spurt um svokallað Landsbankamál.

Hér er um að ræða rannsókn vegna misferlis fyrrum deildarstjóra í ábyrgðadeild Landsbankans. Mál þetta var sent ríkissaksóknara til ákvörðunar 9. f. m. og hefur þegar verið lögð mikil vinna í skoðun málsins hjá saksóknara.

Rétt er að benda á við þetta tækifæri, hve rannsókn þessa umfangsmikla máls hefur gengið hratt og örugglega. Hér er um að ræða eitt stærsta mál sinnar tegundar er komið hefur upp hér á landi. Þær endurbætur, sem gerðar hafa verið á réttarkerfinu hin síðari ár, hafa sannað ágæti sitt við rannsókn þessa máls, a.m.k. virðumst við vera á réttri leið.

Í fimmta lagi er spurt um mál sem kennt hefur verið við Friðrik Jörgensen. Hér er um að ræða ákæru um fjármunabrot sem segja má að hafi verið ein sorgarsaga frá upphafi. Gangur þessa einstæða máls hefur áður verið rakinn hér á hv. Alþ., svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það nú, en vil þó geta þess, að málið hófst 22.12.1966 með kæru Útvegsbanka Íslands. Gangur málsins var nokkuð hraður framan af, en fyrst og fremst vegna óvæntra mannaskipta hafa orðið þarna á veralegar tafir. Þó hafa orðið áfangar í þessu máli, sem rétt er að minnast, m.a. er mér ekki ljóst að þess hafi verið getið fyrr, að 22.2.1972 ákvað saksóknari að fella niður kæru um gjaldeyrisskil, sem var mjög veigamikill þáttur í þessu máli. Var það gert að undangengnum ítarlegum rannsóknum að sjálfsögðu.

Refsimál það, sem höfðað hefur verið á hendur Friðrik Jörgensen, er til meðferðar hjá Sakadómi Reykjavíkur. Að því er mér er nú tjáð hefur málflutningur ekki enn verið endanlega ákveðinn, en verður sennilega í aprílmánuði n.k. Hillir því loks undir að þessu máli í ljúki fyrir sakadómi. Gjaldþrotaskiptum á búi Friðriks Jörgensens sjálfs og Friðriks Jörgensens hf. ætti að í ljúka á tiltölulega skömmum tíma eftir að endanlegur dómur hefur fallið í refsimálinu. Og ég vil lýsa þeirri einlægu von minni, að dómsmrh. þurfi ekki að standa hér aftur að ári og lofa afgreiðslu þessa máls hjá sakadómi.

Sjötta málið, sem spurt er um, er ávísanakeðjumál svokallað. Mál þetta barst ríkissaksóknara í maímánuði s.l. Síðan hefur verið unnið sleitulaust að könnun málsins hjá saksóknara.

Skjöl í máli þessu eru afar umfangsmikil. T.d. eru þau geymd í 28 stórum skjalakössum. Ekki er hægt að segja fyrir á þessu stigi málsins hvenær ríkissaksóknari lýkur könnun sinni á því.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að rannsókn þessa máls hefur m.a. orðið til þess, að viðskiptabankarnir hafa tekið upp ný vinnubrögð við eftirlit með útgáfu ávísana. Það veldur því, að mál sem þetta á ekki að geta komið upp að nýju. Það gerir málið flókið lagalega séð, að erfitt er að greina á milli annars vegar ófullkominna vinnubragða bankanna og hins vegar misnotkunar hinna ákærðu.

Í sjöunda lagi er spurst fyrir um mál læknis sem kærður var fyrir að hafa fengið greiðslu fyrir þjónustu er ekki var innt af hendi.

Hinn 6. maí 1977 barst Sakadómi Reykjavíkur bréf tryggingaráðs, þar sem óskað var opinberrar rannsóknar á meintu misferli læknis nokkurs við gerð reikninga til sjúkrasamlaga. Sakadómur framseldi málið sýslumanni Kjósarsýslu, þar sem læknirinn átti lögheimili á Seltjarnarnesi. Hófst hjá því embætti rannsókn á nokkrum tilfellum, þar sem sjúklingar úr Hafnarfirði áttu hlut að máli. Stuttu eftir að Rannsóknarlögregla ríkisins tók til starfa var málið framsent henni til meðferðar. Vegna veikinda þess rannsóknarlögreglumanns, sem falin var rannsókn málsins, dróst nokkuð að rannsókn hæfist af fullum krafti. Það gerðist hins vegar um áramótin 1977–1978 og hafa tveir rannsóknarlögreglumenn unnið við hana að staðaldri, m.a. s. unnu 4 menn að henni á tímabili.

Gögn hafa þegar horist frá öllum sjúkrasamlögum á landinu og hafa þegar verið yfirheyrðir 265 sjúklingar af þeim tæplega 1200 sem við sögu koma. Máli þessu fylgir að auki gífurlegur skjalafjöldi og mikil vinna hefur farið í að bera saman reikninga við aðgerðabækur og dagbækur læknisins. Á þessu stigi málsins er ekki hægt að gera sér grein fyrir því, hvenær rannsókn þess lýkur. — Má geta þess til samanburðar, að nýlokið er í Danmörku rannsókn á hliðstæðu máli. Sú rannsókn tók tvö ár og unnu við hana að staðaldri fimm rannsóknarlögreglumenn.

Í áttunda lagi er spurt um Alþýðubankamál. Mál þetta er til meðferðar hjá Sakadómi Reykjavíkur. Það var dómtekið 26. f. m. og er dóms að vænta innan skamms.

Í níunda lagi er spurt um Finansbankamál. Ekki er með fullu ljóst við hvaða mál fyrirspyrjandi á þegar hann spyr um „Finansbankamál“. Eigi hann við rannsókn á meintum gjaldeyris- og skattsvikum þeirra, sem innstæður áttu í Finanshanken í Danmörku, þá er því að sjálfsögðu til að svara að hér er um fleiri en eitt mál að ræða.

Mál þessi bárust rannsóknardeild ríkisskattstjóra í des. 1977. Með bréfi, dags. 19. jan. 1978, skýrði gjaldeyrisdeild Seðlabanka Íslands ríkissaksóknara frá því, að þessi mál væru til rannsóknar hjá rannsóknardeild ríkisskaflstjóra. Síðan hefur saksóknari fylgst með gangi rannsóknarinnar hjá skattrannsóknarstjóra, en hefur talið rétt að bíða þess að öll málin væru afgreidd frá skattyfirvöldum áður en tekin væri ákvörðun um hvort mál yrði höfðað á hendur reikningseigendum. Nú mun rannsókn 22 mála vera lokið hjá skattrannsóknarstjóra, en u.þ.h. 30 mál eru þar enn til meðferðar.

Með bréfi, dags. 6. mars 1978, fór Seðlabanki Íslands þess á leit við Rannsóknarlögreglu ríkisins að rannsókn færi fram á því, með hvaða hætti upplýsingar úr póst- og ábyrgðarbréfabók bankans hefðu komist í hendur óviðkomandi óþekkts aðila. Sú rannsókn stendur enn.

Í tíunda lagi er spurt um svokallað Antikmál. Mál þetta er til meðferðar hjá Sakadómi Reykjavíkur. Óákveðið er hvenær mál þetta verður flutt, en væntanlega verður þess ekki langt að bíða.

Í ellefta lagi er spurt um mál bílasala sem kærðir voru á fyrra ári.

Hinn 14. sept. s.l. barst Rannsóknarlögreglu ríkisins kæra frá lögmanni í Reykjavík vegna meintra fjársvika í sambandi við bílaviðskipti. Í kjölfar þessarar kæru fylgdu fjölmargar aðrar kærur sama eðlis, auk þess sem Rannsóknarlögregla ríkisins hefur haft frumkvæði um rannsókn fjölda slíkra afbrota.

Mál þessi varða meint fjársvik, skjalafals, ranga skýrslugjöf til stjórnvalda o.fl. Að meginstefnu til tengjast kærur þessar starfsemi þriggja starfandi bílasala í Reykjavík, og hefur alls 21 aðili verið kærður, ýmist fyrir beina aðild eða hlutdeild. Rannsókn flestra þessara mála er nú lokið, en önnur eru á lokastigi. Stefnt er að því að ljúka rannsókn allra þessara mála í þessum mánuði og verða þau þá send ríkissaksóknara til frekari ákvörðunar. Hér að framan hefur verið greint frá stöðu þeirra mála sem fyrirspyrjandi hefur spurst fyrir um. Nú hefur verið útbýtt á Alþ. skýrslu minni um gang dómsmála og mun ég gera nánari grein fyrir stöðu þeirra mála þegar skýrslan verður tekin til umr. hér á hinu háa Alþingi.