20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

179. mál, ráðstafanir vegna birgðasöfnunar mjólkurafurða

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi upplýsti er hér um gífurlega mikið vandamál að ræða. Birgðir af smjöri voru 1. 1. 1979 1331 tonn og var birgðaaukning á s.l. ári 221 tonn. Birgðir af ostum voru sama dag, 1. 1. 1979, 1227 tonn og var birgðaaukning á s.l. ári 253 tonn.

Mér þykir jafnframt rétt að gefa yfirlit yfir þróun þessara mála undanfarin 4 ár:

1975 var heildarframleiðsla mjólkur 108.3 millj. lítra, sala innanlands var 101.1 millj. lítra og umframframleiðsla 6.6% heildarframleiðslunnar.

1976 voru framleiddar 108.7 millj. lítra, sala innanlands 100.7 millj. lítra og umframframleiðsla 7.4%. 1977 var framleiðsla 115.5 millj. lítra, sala innanlands 91.2 millj. lítra og umframframleiðslan því 21%. 1978 var framleiðslan 120.2 millj. lítra, sala innanlands 97 millj., en umframframleiðsla 19.3%. Í ár er áætlað að umframframleiðslan verði um 24%.

Mér þótti rétt að þessar tölur kæmu fram, þannig að ljóst yrði að umframframleiðsla þessi stafar ekki eingöngu af aukinni framleiðslu á mjólk, heldur einnig af nokkrum samdrætti í neyslu.

Í sambandi við þann útflutning, sem nú er verið að ræða um, sem fyrst og fremst miðar að því að birgðir aukist ekki, en dragi eitthvað úr þeim, er áætlað að vöntun útflutningsbóta á mjólkurvörur sé 1 milljarður 781 millj. 588 þús. kr. á þessu verðlagsári, en þar af er vegna útflutnings á smjöri 1 milljarður 325 millj. 500 þús. kr. Þess má geta að áætlað er að vöntunin sé rúmir 3 milljarðar vegna kindakjöts. Með þessari áætlun er því heildarvöntun útflutningsbóta yfir 4.8 milljarða.

Af ráðstöfunum, sem ríkisstj. bindur vonir við í þessu alvarlega máli, vil ég fyrst nefna frv. það sem flutt var í des., þar sem gert er ráð fyrir að veita Framleiðsluráði landbúnaðarins viðtækar heimildir til að sporna gegn vaxandi framleiðslu. Í sambandi við mjólkurframleiðsluna eru fyrst og fremst vonir bundnar við að draga verulega úr fóðurbætisnotkun. Að vísu er um það deilt, hvort þær ráðstafanir, sem frv. heimilar, ná þeim árangri, en sú skoðun mín er tvímælalaus, að auðveldast sé að draga úr umframframleiðslu mjólkurafurða með því að draga svo um munar úr notkun fóðurbætis. Ég hygg einnig að það sé skynsamlegasta leiðin hjá bændum. Þá draga þeir úr frumkostnaði starfsemi sinnar um leið og úr mjólkurframleiðslunni er dregið. Nú hefur því miður orðið nokkur dráttur á afgreiðslu þessa máls, en von mín er þó sú, að gripið verði til slíkra ráðstafana strax og frv. hefur fengið afgreiðslu hér á Alþ. og það geti orðið til að draga nokkuð úr þeirri aukningu sem verður á þessu ári.

Hins vegar þarf fleira til og hefur verið unnið m.a. á vegum markaðsnefndar að athugun á auknum útflutningi. Ég hef sett í gang athugun á því, hvort unnt muni reynast að fá aukinn þann kvóta sem við höfum til ostaútflutnings til Bandaríkjanna.

Einnig hefur verið athugað með sölu á mjólkurafurðum á Keflavíkurflugvelli. Mjólk er seld þangað, aðrar afurðir eru boðnar, en staðreyndin er sú, að ameríski herinn á kost á þessum afurðum á miklu lægra verði en hér et um að ræða. Þarna er spurning, hvort á að skylda herinn til þess að kaupa afurðir okkar, og þá einnig, hvort skylda eigi hann til að kaupa þær á fullu heildsöluverði eða hvort við Íslendingar eigum að greiða niður þessar afurðir fyrir ameríska herinn. Það mál þarf sannarlega nánari athugunar við.

Þá mun ég flytja á Alþ. nú fljótlega frv. til l. um breyt. á jarðræktarlögum, þar sem ég mun fara fram á að heimilt verði að ráðstafa styrkjum á næstu 5 árum með meiri sveigjanleika en verið hefur upp á síðkastið. Sömuleiðis mun ég flytja till. til þál. um stefnumörkun í landbúnaði, þar sem ég fer einnig fram á álit Alþingis á því, hvort til greina komi að ráðstafa útflutningsbótum á nokkurn annan máta en nú hefur verið yfir heildaráætlunartímabilið.

Þrátt fyrir slíkar aðgerðir er ljóst að leggja. verður á innvigtunargjald á mjólk, á því er enginn vafi, líklega yfir 16 kr. á hvern lítra. Spurningin verður hins vegar sú, hvort Alþ. er þá síðar, t.d. haustþingið, reiðubúið til þess að endurgreiða að einhverjum hluta slíkt innvigtunargjald á grundvelli þeirra upplýsinga, sem þá liggja fyrir, og þeirra ráðstafana, sem ég hef nú nefnt og mun leggja fyrir.

Ég vil svo segja það um seinni hluta spurningarinnar, að ég lét þegar kanna það sem þar er spurt um. Þarna er um athyglisvert mál að ræða, en því miður virðast engar upplýsingar liggja fyrir, sem í raun og veru eru tiltækar eða hægt er að fóta sig á. Ég hef óskað eftir því, að þetta verði skoðað nánar, og skal með ánægju láta hv. fyrirspyrjanda í té þær upplýsingar sem ég fæ þegar þær liggja fyrir.