21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2677 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

148. mál, orlof

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. þetta með fyrirvara og vil gera hér nokkra grein fyrir þeim fyrirvara mínum.

Ég er sammála því, að nauðsynlegt sé fyrir innheimtuaðila að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um greiðslu orlofsfjár frá vinnuveitanda. Aftur á móti tel ég að það þurfi að gæta mjög mikillar varfærni við að hver og einn geti haft greiðan aðgang að bókhaldsgögnum. Það er Póstgíróstofan sem sér um þessi mál í dag, en við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er mikill áhugi, sérstaklega úti um landið, á að fá þessu breytt og fá þetta mál öðrum aðilum í hendur, og það hefur verið gert sums staðar á landinu að taka þetta heim í hérað. Menn hafa verið óánægðir með ávöxtun þessa fjár og þess vegna gert breytingar á þessu og hafa mikinn hug á að þær breytingar nái fram að ganga á næstunni og verði að sjálfsögðu viðurkenndar af löggjafanum. Þess vegna leyfi ég mér að bera fram brtt. við þetta frv. Það er brtt. við 1. gr.: „Síðari efnismálsgr. falli niður.“ Ég tel að til þess að skoða bókhaldsgögn þurfi menn með sérþekkingu, því að ef menn, sem um þetta fjalla, hafa ekki þá þekkingu sé mjög auðvelt að mistúlka það sem þar er og þess vegna þurfi að gjalda þarna mjög mikinn varhug við.