21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2678 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

148. mál, orlof

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég verð í hreinskilni sagt að lýsa undrun minni á þeim tillöguflutningi sem hv. 5. þm. Suðurl., Guðmundur Karlsson, var að gera grein fyrir áðan. N. fjallaði um þetta ákvæði 1. gr. frv. mjög ítarlega fékk um það umsagnir og yfirlýsingu rn. um að settar yrðu nánari reglur til þess að fyrirbyggja þau atriði sem hann gerði hér að umræðuefni. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, að ekki er ætlun þeirra, sem að þessari löggjöf standa, að nota þetta ákvæði til þess að ráðskast mjög með bókhald fyrirtækja og gera á því gagngerðar athuganir, heldur er þetta frv. til komið vegna þess að reynslan hefur sýnt að launagreiðendur standa ekki skil á því orlofsfé sem launafólki ber og það á inni, heldur er orlofsféð notað á margvíslegan hátt í rekstri fyrirtækjanna. Orlofsféð er ekki lagt til hliðar, og þegar launafólk ætlar að taka orlofsfé sitt finnst það ekki, hvorki hjá þeim innheimtuaðila, sem oftast nær fer með þau efni, né hjá launagreiðandanum sjálfum, og á hinu almenna launafólki í landinu bitnar þetta skipulagsleysi.

Ég held að það sé engin ástæða til að tortryggja þessa lagasetningu á þann hátt sem mér finnst þarna koma fram og hefur að vissu leyti komið fram í umsögn frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Og ég átti satt að segja ekki von á því, þegar samstaða varð í n. um það nál. sem ég var að mæla hér fyrir áðan, — að vísu var einn nm., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, fjarverandi, eins og fram kemur í nál., — þá átti ég ekki von á að hér kæmi á síðari stigum málsins tillöguflutningur sem virðist fyrst og fremst vera til kominn í stíl við þá umsögn sem Vinnuveitendasamband Íslands sendi n., ekki vegna þess að verið væri að mótmæla þessari lagasetningu sem slíkri, heldur að hún kynni e.t.v. einhvern tíma að skapa fordæmi fyrir öðru. Fyrst svo er, þá held ég að sé nauðsynlegt að hér komi mjög skýrt og eindregið fram að það eru ríkur vilji samtaka launafólks í þessu landi, sem hafa átt og þurft að gæta hagsmuna launafólks í orlofsmálum, að þessi breyting verði gerð og komið verði í veg fyrir að fyrirtæki og aðrir rekstraraðilar geti misnotað orlofsfé tilraunafólks á þann hátt sem gert hefur verið og þessu frv. er ætlað að koma í veg fyrir.

Ég hefði talið ákjósanlegra í alla staði, meiri sæmd í raun og veru fyrir þessa hv. d., ef sú samstaða, sem náðist í n. um að afgreiða málið, hefði haldist, þótt menn hefðu lýst sínum almenna fyrirvara. En þegar hún er nú á síðustu stundu rofin með því að flytja brtt. í þá veru sem hér hefur verið flutt, þá kemst ég ekki hjá því að lýsa algerri andstöðu við þá brtt., vegna þess að hún felur í sér að fella brott kjarnaatriðið í þeirri lagasetningu sem hér er til umfjöllunar, — kjarnaatriði sem er fyrst og fremst það hagsmunamál sem samtök launafólks hafa sett á oddinn.

Ég ætla ekki af þessu tilefni að hafa fleiri orð um þetta atriði, þótt vissulega mætti leggja ýmislegt út af því, hvað hafi valdið því að samstaða í n. hafi verið rofin með þessum hætti og málflutningur Vinnuveitendasambands Íslands birtist nú hér í formlegri brtt. Það er að vísu athyglisvert og verður mjög athyglisvert að fylgjast með því, hvaða hv. þm. þessarar d. styðja málstað Vinnuveitendasambandsins við afgreiðslu þessa frv. og hverjir ekki. Það verður atkvgr. sem ég er viss um að ekki aðeins ég eða aðrir þm. í þessari d. munu taka mjög vel eftir og festa sér í minni um langan tíma, heldur verður það atkvgr. sem ég er viss um að samtök launafólks og sá mikli fjöldi launafólks um allt land, sem hefur átt við þessa erfiðleika að glíma, mun taka mjög vel eftir. Fyrst þessi brtt. hefur komið fram, þá er í raun og veru atkvgr., sem um hana fer fram, skýt og hrein atkvgr. um það, hverjir hér í d. styðja málstað Vinnuveitendasambands Íslands og hverjir styðja málstað samtaka launafólks.