21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2679 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

148. mál, orlof

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. var ég ekki viðstaddur afgreiðslu málsins og mér þykir miður að svo var, en ég þurfti að vera á öðrum fundi, og þess vegna er mín ekki getið í sambandi við þá afstöðu sem n. tók.

Hv. 3. landsk. þm. hefur talað með sérkennilegum hætti um þetta mál að ýmsu leyti. Í fyrsta lagi fer hann nokkrum orðum um það, hve mikil samstaða hafi verið í hv. félmn. um þetta mál. Samstaðan var þó ekki meiri en það, að haldnir hafa verið nokkrir fundir og tvisvar leitað eftir umsögn og skýringum af hálfu félmrn., vegna þess að skoðanir voru skiptar um það, og það kom greinilega fram á nefndarfundum, hvort rétt væri að hafa síðari mgr. 1. gr. þessa frv. með og lögfesta það ákvæði, þ.e.a.s. að í því skyni að staðreyna slíkar upplýsingar sem um er talað í 2. mgr. sé innheimtuaðila orlofsfjár heimill aðgangur að bókum og bókhaldsgögnum launagreiðenda. Ekki hafa allir í n. litið sömu augum á þetta.

Hv. 3. landsk. þm. sagði að þetta atriði væri kjarni málsins. Ég leyfi mér að mótmæla því og vera á annarri skoðun. Kjarni málsins er sá, sem greinir í fyrri mgr. 1. gr. Kjarni málsins er sá, að launagreiðanda er skylt að veita innheimtuaðila orlofsfjár upplýsingar um greitt og vangreitt orlofsfé starfsmanna sinna. Þetta er kjarni frv., að leggja þessa skyldu á launagreiðendur. Síðan er ákvæði um hvernig eigi að framkvæma þetta.

Síðari mgr. fjallar um úrræði sem á að grípa til ef upplýsingar koma ekki fram. Þessi leið þykir mér vafasöm og afstaða til vinnuveitenda eða til launþega kemur málinu ekkert við. Það er algerlega óháð því, hvaða afstöðu menn vilja taka til aðila vinnumarkaðarins. Ástæðan til þess, að menn vilja ekki samþykkja þessa aðferð til að ná upplýsingunum fram, er af allt öðrum rótum runnin. Það er vegna þess, að eftir því sem ég best veit eru engin fordæmi þess í íslenskri löggjöf að heimila skuldheimtumanni að rannsaka bókhald skuldara. Ég veit ekki til að það sé nokkur almenn heimild til þess. Ég tel að það sé meira en lítið varhugavert að fara inn á þessa braut. Þetta er „prinsip“-mál, og það samrýmist ekki réttarvitund og réttarreglum í okkar þjóðfélagi að veita slíkar almennar heimildir. Þess vegna eigum við að gjalda varhug við þessu.

Ég er ekki heldur viss um að það sé nauðsynlegt að grípa til þessara ráða. Það er augljóst, ef fyrri mgr. 1. gr. verður samþ. og launagreiðendur gefa ekki upplýsingar, þá eru þeir að brjóta lög. Og það vill þannig til, að við höfum ráð við því ef menn brjóta lög. Það er hægt að leita til dómstólanna til þess að ná rétti sínum, ef svo ber undir. Til þess eru dómstólarnir.

Ég skal ekki segja hvort væri hægt að finna einhverjar aðrar leiðir en þá sem um getur í síðari mgr. 1. gr, frv. til þess að umbeðnar upplýsingar frá launagreiðendum fáist. Ég vil ekki útiloka að svo geti verið, því að auðvitað hljótum við allir að vera sammála um að það á að ná þessum upplýsingum fram. Það á að sjá svo um að þessi lög séu haldin og framkvæmd eins og hver önnur lög. En það réttlætir ekki að mínu viti að grípa til þess ráðs, sem gert er með síðari mgr. 1. gr. frv. Þess vegna er ég samþykkur þeirri brtt. sem fram er komin, og hún er í samræmi við þau viðhorf sem ég hef áður lýst í hv. félmn. Ég vænti þess, að þegar þetta mál er nánar athugað, þá fallist menn á það í þessari hv. d. að fella niður þetta ákvæði af þeim ástæðum sem ég hef greint. Ef það hins vegar verður ekki gert, þá sé ég mér ekki fært að greiða atkv. með frv.