21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

148. mál, orlof

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég hygg að flm. brtt., sem fram hefur komið varðandi frv. þetta, sé vart ljóst hvernig ástandið er í orlofsmálum verkafólks, en vægast sagt er það mjög slæmt. Það eru sjálfsagt margar ástæður fyrir því, en að mínu áliti er ein af ástæðunum sú, að atvinnurekendur hafa ekki staðið við samninga. Það er ekki almennt svo að vísu, en þar eru svartir sauðir sem gera það að verkum að verkalýðssamtökin óska eftir breytingum eins og þessari, að hægt verði að innheimta orlofsféð þótt viðkomandi atvinnurekandi þybbist á móti.

Vandamálið er margþætt, eins og ég sagði áðan. Kannske er það verst, að það skuli vera fleiri en eitt kerfi í orlofsmálunum. Það er ekki aðeins að menn fái orlofsfé í gegnum Póstgíróstofuna, heldur eru einnig greidd orlofslaun. Orlofslaunin greiðast af dagvinnu, en orlof af yfirvinnu fer allt til Póstgíróstofunnar.

Ég lýsi mig mjög andvígan þessari brtt. sem fram hefur komið og tel að hún sé til mikils skaða. Ég hendi á að það er aðeins Póstgíróstofan sem á að fá aðgang að bókhaldi þessara fyrirtækja og þá þeirra fyrirtæk ja sem eru grunuð um að hafa svikið sitt starfsfólk, svikið samninga. Um þetta er frv. sem liggur hér fyrir. Það gerir ráð fyrir að fara eftir óskum verkalýðssamtakanna í þessu efni. Reyndar hefur ríkisstj. heitið að beita sér fyrir því, að þetta verði að lögum, gegn ýmsu öðru, og vil ég nú beina því til manna, að þeir séu ekki að tefja málið eða leyna að eyðileggja það, því að um leið eru þeir að gera þeim mikinn óleik sem erfitt eiga fyrir. Það er einmitt fólkið, sem er fátækast og á erfiðast, sem lendir í því einnig að vera í útistöðum við vinnuveitendur sína varðandi orlofsfé. Það er fólkið, sem hvergi hefur e.t.v. fasta vinnu og þarf þess vegna að fá orlofsfé í gegnum Póstgíróstofuna. Ef þessum ákvæðum er ekki beitt eins og hér er lagt til að verði gert, þá verður þetta fyrirkomulag illviðráðanlegt og öllum til tjóns.

Hv. þm. Guðmundur Karlsson, 5. þm. Suðurl., ræddi hér um ágæta framkvæmd sem hefur verið í Vestmannaeyjum. Póstgíróstofan þar er ekki innheimtuaðili orlofsfjár. Ég hygg að sú breyting, sem gerð var í Vestmannaeyjum og er í því fólgin að vinnuveitendur greiða inn á bankareikning, að mér skilst, allt orlofsfé, hafi komið til vegna óánægju manna með Póstgíróstofuna, mönnum hafi fundist hún duga illa til innheimtu á orlofsfé og ávöxtunin afskaplega rýr. Það er ekki aðeins að Póstgíróstofan hafi illa ráðið við verkefni sitt, heldur líka það, að ýmsir atvinnurekendur spiluðu á það kerfi sem hún hafði, sem var í því fólgið að greiða orlofsfé kannske síðustu daga áður en orlofstíminn byrjaði. Þannig gat það verið að þeir, sem áttu að fá sitt orlof í maí, fengju það ekki fyrr en í september.

Gera má ráð fyrir að Vestmanneyingar hafi hugsað til þess einnig, að Póstgíróstofan er hér í Reykjavík og allt það fjármagn, sem ætti að greiðast í orlof, færi þá hingað í stað þess að stöðvast í bönkum á viðkomandi stað. Það er sjónarmið sem er vel hægt að virða, að halda fjármununum heima hjá sér og nota þá í þágu fólksins þar og atvinnulífsins.

Ég held samt, að þótt vel hafi tekist í Vestmannaeyjum að ávaxta féð og koma því til skila vegna þess að það eru fá fyrirtæki og stór sem þar eiga hlut að máli, þá verði mjög erfitt að koma þessu fyrir annars staðar á landinu. Það kom upp mikill áhugi hjá verkalýðsfélögunum á Suðurnesjum að fara þessa sömu leið, en það var stöðvað, það var ekki heimilt samkv. þeim lögum sem giltu. Vestmanneyingar fóru reyndar fram hjá þeim, en okkur tókst það ekki. Vinnuveitendur voru alveg á því að fara þá leið að reyna að halda fjármagninu í byggðarlaginu með því að ávaxta féð í hankastofnunum þar.

Við stöndum frammi fyrir því að kerfið er tvöfalt, Póstgíróstofan annars vegar og hins vegar atvinnurekendur sem greiða orlofslaun. Þeir, sem þurfa að nota Póstgíróstofuna, eru þeir launþegar, sem eru ekki í fastri vinnu, og líka þeir, sem vinna yfirvinnu. Ég legg á það þunga áherslu, að ekki verði tafið fyrir afgreiðslu þessa máls með þessari brtt., og ég skora á tillögumann að taka hana til baka. Ég held að þessi tillöguflutningur sé byggður á misskilningi. Ég tel að það sé á engan hátt hættulegt fyrir atvinnurekendur að leyft skuli að athuga og staðreyna upplýsingar um greitt og vangreitt orlofsfé. Ég held að atvinnurekendur ættu ekki að standa í vegi fyrir því, að þeir svörtu sauðir, sem þar eru innan veggja, þurfi að finna fyrir því að kíkt sé í bókhald þeirra, því að það eru sömu mennirnir og eru að svíkja það fólk, sem hjá þeim hefur unnið, svíkja samninga og ræna það því fé sem það sannarlega á.