21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2685 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

148. mál, orlof

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það að orlofskerfin eru tvö í landinu er til komið, eins og margt illt í þessu landi, vegna þeirrar óðaverðbólgu sem hefur geisað í landinu. Það er til komið vegna þess að laun hafa hækkað um allt að 50–60% á einu ári og hafa þrátt fyrir það ekki verið í takt við verðbólguna, ekki hækkað svo sem skyldi. Sá maður sem á að þiggja sem orlofsfé 8.33% af fé sem greitt var fyrir 12 mánuðum, fær vissulega miklu færri krónur en maður sem tekur orlofslaun eða orlof á þeim launum sem greidd eru þann dag er viðkomandi fer í orlof.

Ég er sammála því sem hv. þm. Guðmundur Karlsson sagði, að orlof væri aðeins hluti af launum. Við aðgreinum þó þetta á þann veg, að orlofsféð skuli notað til þess að fólk hafi tækifæri til að fara í orlof, fá hvíld frá störfum, geta komist frá því að vera sífellt í starfi. Sú túlkun hefur verið uppi hjá launþegasamtökunum, að ástæða sé til að haga málum þannig að fólk geti notið orlofsins. Því var það að í upphafi voru notuð orlofsmerki, síðan tekið upp það kerfi sem nú er, póstgíróleiðin, og loks orlofslaun.

Ég er því algerlega andvígur að orlofsfé verði greitt jafnóðum til launþega, því að það er nú einu sinni þannig að menn eyða því sem þeir fá í hendurnar, það er alveg sama hvaða maður það er, og menn safna ekki peningum í dag, verðbólgan sér fyrir því. Ef orlofsféð væri greitt jafnóðum, eins og ég sagði áðan, er það miklu lægri upphæð en orlofslaunin. Ef okkur tækist að lækka verðbólguna allverulega, svo hún yrði ekki meiri en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar, þá væri ekki óeðlilegt að Póstgíróstofan sæi alfarið um orlofið. En vegna þess, sem ég hef áður sagt varðandi verðbólguna, og vegna þess líka, að Póstgíróstofan hefur ekki getað sinnt sínu hlutverki sem skyldi, hefur verið horfið frá því að fela henni að fara með þessi mál nema að nokkru leyti.

Þjónusta Póstgíróstofunnar hefur batnað allverulega fyrir eftirrekstur verkalýðssamtakanna og er nú svo að við þjónustu hennar má una. En henni er gert mjög erfitt fyrir vegna þess að ýmsir atvinnurekendur geta komist hjá því að veita þær upplýsingar sem þarf á að halda. Ég vil henda á, sérstaklega þeim sem eru þm. landsbyggðarinnar, ef svo má segja, að þeir, sem verða hvað verst úti í orlofsmálunum, eru þeir sem eiga heima úti á landi. Það hefur tíðkast til þessa, að ef maður ætlar að fá rétt sinn varðandi Póstgíróstofuna hefur þurft að fara í afgreiðsluna í Reykjavík og gera hreint fyrir sínum dyrum og sýna launaseðla eða senda ljósrit af launaseðlum. Allt hefur þetta tekið mikinn tíma og valdið fólki miklum óþægindum og kostnaði. Þess vegna held ég að ef þetta ákvæði frv. yrði niður fellt yrði það beinlínis gert til þess að hrekkja það fólk sem til þessa hefur þurft að þola mikið ónæði vegna þeirra svörtu sauða sem svíkja samninga.

Ef málsókn yrði notuð til þess að ná rétti sínum, þá er það þannig með dómskerfi okkar að það tekur 2–3 ár að ná rétti sínum. Ég er hræddur um að enginn hér inni vildi fá orlof sitt greitt eftir 2–3 ár, — orlofið sem átti að nota fyrir 2–3 árum, og ég er hræddur um að þá fengjust miklu minni krónur að verðmæti en upphaflega var.

Ég skora á tillögumenn einu sinni enn að draga þessa till. til baka. Það kemur fram í grg., að ætlast er til að Póstgíróstofan hafi aðgang að bókhaldi fyrirtækja ef ástæða þyki til, og er rétt að undirstrika að það er aðeins ef ástæða þykir til, hjá þeim sem hafa verið að svíkja fólkið. Og ég held að það sé á misskilningi byggt að vera að gera þetta fyrir Vinnuveitendasamband Íslands, því að í raun held ég það komi atvinnurekendasamtökunum afskaplega illa ef á einhvern hátt er reynt að hlífa þeim, sem svíkja samninga, svíkja verkafólk og brjóta lög í landinu.