30.10.1978
Efri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

47. mál, heilbrigðisþjónusta

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þegar viðreisnarstjórnin gekkst á sínum tíma fyrir endurskoðun laga um heilbrigðisþjónustu og lagði fram grg. um nefndarstörf og frv. nokkurn veginn eins og það sem nú er í gildi, þá var það fyrst og fremst vegna þess að farið var að bera á læknaskorti í dreifbýlinu og það hafði sýnt sig, að fólkið úti um landið sætti sig ekki við að hafa ekki tök á því að ná til læknis, og var mál manna, að þetta gæti raskað allri búsetu í landinu. Síðan hefur margt gott verið gert og margt gott skeð. Á þeim tíma voru það fyrst og fremst læknisbústaðirnir á hverjum stað sem voru heilsugæslustöðvar héraðanna, en nú hafa verið byggðar heilsugæslustöðvar víða um land og byggingar eru í gangi enn víðar.

Í vor var rætt allmikið í heilbr.- og trn. þessarar hv. d. hvort tími væri kominn til að hafa tveggja lækna stöð á Eskifirði. Ég held að við höfum verið nálægt því að samþykkja það og fyrst og fremst hafi ástæðan verið sú fyrir því, að það var ekki gert, að við töldum að á meðan hætta væri á að eins læknis stöðvarnar færu meira og minna úr skorðum með sína þjónustu, þá væri kannske ekki rétt að vera að stuðla að því, að þessi staður, sem liggur sérstaklega vel við, þ.e.a.s. annars vegar Norðfirði og hins vegar Egilsstöðum, fengi tveggja læknastöð strax. Ég fyrir mitt leyti tel samt eins og síðasti ræðumaður, að svo sé komið að það sé ástæðulaust annað en veita Eskifirði réttindi til að hafa tvo lækna í trausti þess, að það verði, eins og fram kom hjá honum, til þess að tryggja þar þann lækni sem þar situr nú.

En ég vildi aðeins segja nokkur orð um hvernig stendur á því, að H 1 stöðvarnar eru nú í miklum vanda og við stöndum nú e.t.v. frammi fyrir þeim mesta vanda í þessum efnum sem við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir, verra ástandi en á milli 1960 og 1970, þegar menn voru verulega hræddir um læknisþjónustuna úti á landi. Ýmislegt kemur þar til, m.a. það sem hv. þm. Bragi Níelsson minntist á áðan, einangrun lækna. Það er sennilega alveg rétt. En það er ekki nýtt fyrirbrigði og menn gera sér grein fyrir því. Hitt er ekki síður, að það virðist ekki vera tekið nokkurt tillit af yfirvöldum til aðstöðu þessara manna. Bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum eru svæði þar sem óhjákvæmilegt er að hafa lækna með stuttu millibili. Þar eru heiðar svo erfiðar á vetrum, að þar er ekki gagn að því þótt tveggja og þriggja lækna stöðvar séu á einum stað og eigi svo að sækja 180 km frá sér. Þar eru veður það ströng og heiðarnar erfiðar, að slíkt gengur ekki. Þess vegna verða H1 stöðvar að vera í gangi enn um alllanga hríð á báðum þessum landssvæðum.

Þrátt fyrir þetta virðist það ekki vera metið neins þótt þessir menn einir allra í landinu verði að búa við þau skilyrði, að það er heimild allra, sem í héraðinu eru, að kalla þá til starfa nótt sem nýtan dag allt árið um kring. Þrátt fyrir það fá þessir menn fjárhagslega ekki betri kjör en aðstoðarlæknar á spítölum hér syðra. Þeir fá ekki aðstoð til þess að fara í frí, og þeir verða sjálfir að braska við að ná sér í afleysara ef þeir ætla að fá sér raunverulegt sumarfrí. Það lítur þannig út, að störf þeirra séu hreint ekki mikils metin.

Ég held að þetta sé ein meginástæðan fyrir því, hve illa gengur að halda mönnum í einmenningshéruðunum. Þessir menn, sem verða sjálfsagt að vera á vakt allt árið um kring, fá ekki nein aukafrí, þeir fá ekki meira en sinn mánuð, ef þeir þá geta fengið mann til að leysa sig af. Hins vegar ef aðstoðarlæknar á spítala, hvort sem það er nyrðra eða syðra, taka vissar gæsluvaktir fram yfir það sem fast er samið um, þá á hann rétt á vetrarfríi og hann á rétt á alls konar fríðindum fyrir slíkt. Ég held að það fyrsta, sem þurfi að gera — og gæti verið jafnveigamikið og að Eskifjörður fengi tvo lækna í staðinn fyrir einn — sé að gera ráðstafanir til að einmenningslæknishéruðin gömlu, þ.e.a.s. H1 stöðvarnar, geti fengið fasta afleysara, t.d. að læknastúdentar, sem væru komnir að prófi, væru sendir út á þessar stöðvar yfir sumarið og fengju laun fyrir það frá opinberum aðilum, þannig að læknarnir, sem þar vinna, gætu verið frjálsari að því að fara í frí og að fara jafnvel eitthvað frá um helgar í ríkari mæli en hefur verið á undanförnum árum.

Það er ekki vafi á því, að nú er að skapast sama ástand eða verra en var áður, þegar fólki varð ljóst, að eitthvað varð að gera til að halda læknunum úti í strjálbýlinu. Mér sýnist að sigið hafi á ógæfuhliðina og sé að síga á ógæfuhliðina núna í þessu efni. Það verður að taka þetta mál föstum tökum. Ég skora á þau yfirvöld, sem nú ráða, að taka einmitt þetta sérstaka vandamál heilbrigðisþjónustunnar til gaumgæfilegrar athugunar nú strax, vegna þess að það verður erfitt að rétta við aftur þegar læknar eru allir búnir að segja upp og verður að ráða menn tvo-þrjá mánuði í einu. Sú stefna er þar að auki núna í læknisfræðinni að auka læknisþjónustuna hvarvetna utan sjúkrahúsa og setja meira fjármagn í hana en gert hefur verið undanfarið. Það er gert í þeim tilgangi í fyrsta lagi að bæta þjónustuna, lækna sjúkdómana nógu snemma, og í öðru lagi að spara fé, því að það eru hvarvetna spítalarnir sem eru dýrasti þáttur heilbrigðisþjónustunnar og það er mál margra, að með því að bæta frumþjónustuna megi fækka dögunum á sjúkrahúsum mjög verulega. Þarna eru Bretar eins og víðar í fararbroddi, og reynsla þeirra þegar virðist benda eindregið í þá átt, að þetta sé rétt stefna, þá ætti eitt af því fyrsta hjá okkur að vera það í fyrsta lagi að fá fleiri heilbrigðisþjónustulækna til starfa utan sjúkrahúsa á þessu þéttbýlasta svæði landsins og í öðru lagi að bæta aðstöðu og bæta kjör læknanna úti í strjálbýlinu, sem eru einir sér, þannig að þeir geti sótt námskeið, þeir geti farið til félaga sinna og geti fengið eðlilegt frí og þá helst meira en kannske 3-4 vikna frí, sem þeim er heimilað, og að þeir þurfi ekki sjálfir að standa í því að útvega sér staðgengla.