21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2695 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

73. mál, samvinnufélög

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Þar sem hér eru til umr. samvinnufélagalögin vil ég segja nokkur orð. Ekki er óeðlilegt að þessi lög séu athuguð og reynt að samræma þau breyttum tímum, ef það mætti verða til þess að þau gætu náð betur þeim tilgangi sem þeim er ætlað. En það frv., sem hér liggur fyrir, finnst mér ekki nægilega undirbúið og vil því gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þess.

Hv. 2. landsk. þm., Finnur Torfi Stefánsson, hefur ásamt Vilmundi Gylfasyni og Árna Gunnarssyni lagt fram hér á Alþ. frv. til l. um breyt. á lögum um samvinnufélög, þess efnis, að 1. mgr. 32. gr. laganna orðist svo: „Sambandsstjórn skal kosin árlega beinni, leynilegri kosningu, sem fer fram samtímis í öllum aðildarfélögum í samvinnusambandi“ o.s.frv.

Fram kemur í grg. flm., að núgildandi lög um samvinnufélög séu við breyttar aðstæður mjög ófullnægjandi orðin, einkum skorti á að almennum félagsmönnum séu tryggð nægileg áhrif í stjórn sambandsins og samvinnufyrirtækjanna, sem sé þó óumdeilanlega réttur þeirra. Þessi breyting á samvinnufélagalögunum er að mínum dómi grundvallarbreyting sem ekki er hægt að gera nema gjörbylta stærstu þáttum sem samvinnufélögin hafa byggt á. Ætla ég nú að gera nokkru nánari grein fyrir máli mínu.

Það var árið 1882 sem fyrsta kaupfélagið var stofnað hér á landi, Kaupfélag Þingeyinga. Síðan koma þau smátt og smátt, eftir því sem ástæður og geta var til á hverjum stað. Byrjað var í smáum stíl, en fólkið, sem að þeim stóð, sá fljótt hvað það var þýðingarmikið að byggja upp þessi þjónustufyrirtæki sem víðast um landið, sérstaklega á meðan samgöngur allar voru mjög erfiðar. Nú er það aftur á móti mikilvægt atriði fyrir fólkið í hinum dreifðu byggðum að hafa þessi félög, sem það sjálft á, til þess að byggja upp atvinnulíf ásamt margháttaðri þjónustu. Það getur í flestum tilfellum ekki án þeirra verið ef byggð á að haldast um allt landið.

Þessi samvinnufélög fólksins um hinar dreifðu byggðir hafa allt frá upphafi stjórnað málum sínum sjálf. Þau eru frjáls að því að kaupa og selja viðskiptavörur sínar hvar sem þau vilja. Hvert félag hefur sína stjórn sem kosin er af félagsmönnum þar sem hver og einn hefur jafnan rétt. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sem síðan ræður starfsfólk og stjórnar daglegum rekstri. Þetta félagsform hefur gefist vel. Samvinnufélögin hafa átt ríkan þátt í uppbyggingarstarfi þessarar þjóðar, og eru flm. sammála um það.

Félagsmenn hvers kaupfélags ráða sínum málum. Valdið er heima í byggðarlögunum, eins og við viljum flest hafa það, en ekki að það sé flutt til Reykjavíkur, sem stór hætta væri á ef breyta ætti lögum til þeirrar áttar sem flm. gera ráð fyrir. Kaupfélögin á öllu landinu eru nær 50 og í stjórnum þeirra eru um 250 manns. Auk þess eru deildarstjórar í hverjum hreppi í flestum félaganna. Í þessum félögum eru nú um 40 þús. félagsmenn.

Stærsti kosturinn hefur löngum verið talinn sá, að hinn almenni félagi þekki eitthvað þá menn í sjón og raun sem kosnir eru í félagsmálastörfin. Með því að slengja öllu í eitt, eins og frv. miðar að, er slíkt allt erfiðara.

Þá kem ég að því sem er framhaldsþáttur kaupfélaganna, en hann er sá, að árið 1902 mynduðu þáverandi kaupfélög samtök til að útvega og kaupa ýmsar vörur fyrir félögin og til að aðstoða við sölu á framleiðsluvörum félaganna, sem er upphafið að Sambandi ísl. samvinnufélaga. Einstaklingar eru ekki beinir aðilar að Sambandinu. Að því standa hins vegar um 50 samvinnufélög sem fela því að einhverju eða mestu leyti innkaup og sölu á viðskiptavörum sínum.

Flm. frv. segja að nauðsynlegt sé að breyta til við kjör stjórnar Sambandsins til þess að lýðræði sé í heiðri haft, sem sagt er að eigi sér stað í atvinnulífi hjá ýmsum nágrannaþjóðum okkar.

Til þess á að gjörbreyta félagslegu formi almannasamtaka með valdboði án þess að ræða það við þau. Þó kemur fram í grg. að samvinnurekstur sé það form lýðræðis í atvinnurekstri sem náð hefur mikilli útbreiðslu og gefi góða raun. Ekki veit ég heldur til þess, að eitt einasta samvinnusamband nágrannaþjóða okkar hafi tekið upp eða því verið fyrirskipað að viðhafa þetta form í skipan mála sinna. Samvinnufélögin hafa alltaf skipað málum sínum í samræmi við viðurkenndar lýðræðisreglur, og geti einhver bent á að önnur leið hafi reynst betur og nái um leið betur til hins almenna félagsmanns, þá er ég fús til að ræða hana.

Stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga er kosin að hætti nágrannaþjóða okkar á fullkomlega lýðræðislegan hátt, eins og reyndar er gert í mörgum félagasamtökum hér á landi. Athyglisvert er að sú regla gildir um kosningar í sambandsstjórnina, að hvet landshluti eigi ætíð fulltrúa í stjórninni. Í samkeppniskosningum gæti slíkt jafnvægi raskast og jafnvel farið svo, að meiri hlutinn væri frá einu landshorni, — eða hvernig hugsa flm. sér að koma því fyrir að svo yrði ekki? Það er því tillaga mín, að þetta mál verði rætt og athugað betur í þeim frjálsu félagasamtökum, sem hér um ræðir, og reynt að finna leið til þess, að hinn almenni félagi sé virkari í starfi samvinnufélaganna, en ekki farið að breyta núverandi skipulagi í þá átt sem frv. gerir ráð fyrir, þar sem ekki verður annað séð en gallarnir séu fleiri en kostirnir.