21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

73. mál, samvinnufélög

Flm. (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla að gera nokkrar aths. við ræðu hv. þm. Þórarins Sigurjónssonar. Mér fannst ýmislegt af því, sem hann var að finna til foráttu, því frv. sem hér liggur fyrir til umr., hvorki nægilega skýrt hugsað né nægilega vel rökstutt. Ég ætla að víkja að nokkrum staðhæfingum sem komu fram í máli þm.

Hann sagði m.a. að ef þetta frv. yrði að lögum yrði allt vald samvinnuhreyfingarinnar flutt til Reykjavíkur. Ég held að þarna sé hlutum gersamlega snúið við. Ég held að ef hægt er að draga upp einhverja lýsingu af þessu máli núna eins og ástatt er eftir gildandi lögum sé varla hægt að ganga lengra í þá átt en nú er að safna valdi samvinnuhreyfingarinnar til Reykjavíkur. Ég veit ekki betur en hún hafi hér miðstöð sína. Hér eru allir hennar forustumenn. Hér er öllum dótturfyrirtækjum hennar stjórnað. Og flest eru þau staðsett hér eða einhvers staðar hér í nágrenninu. Ég held einmitt að ef þetta frv. yrði að lögum yrði það mjög mikilsvert skref í þá átt að dreifa valdi samvinnuhreyfingarinnar út um landið, einfaldlega vegna þess að með því fengju hinir almennu félagar, sem við vitum að búa ekki aðeins hér fyrir sunnan, — þeir búa ekki einungis í kringum höfuðstöðvar SÍS, heldur búa þeir úti um allt land, — með beinum kosningum fengju þeir rík tækifæri til þess að hafa meiri og betri áhrif á það hvernig farið er með valdið innan hreyfingarinnar. Ég leyfi mér því að andmæla algerlega í grundvallaratriðum þessari staðhæfingu þm. og fullyrði að áhrifin af þessu frv. yrðu þveröfug. Þau yrðu að hinir almennu félagar, eins og ég hef þegar sagt, sem búa úti um allt land, en ekki aðeins hér á Suðvesturlandshorninu, fengju veruleg áhrif á meðferð valdsins í samvinnuhreyfingunni.

Hv. 2. þm. Suðurl. gat þess enn fremur, að með þessu frv. væri lögð drög að valdbeitingu, því hér ætti að beita einhverju valdi til þess að knýja almannasamtök til að gera eitt og annað. Ég hef satt að segja ekki kynnst því fyrr, að lagasetningarstörf okkar hér á Alþ. væru kölluð valdbeiting. Það, sem um er að tefla hér, er auðvitað ekkert annað en að breyta lögunum. Það eru þegar fyrir lög sem skipa málum samvinnuhreyfingarinnar. Eru þau lög þá ekki valdbeiting líka? Auk þess hvarflar ekki annað að mér en þeir menn, sem vilja viðhalda óbreyttu ástandi í samvinnuhreyfingunni, hljóti að láta til sín heyra hér í þinginu, eins og hv. 2. þm. Suðurl. hefur þegar gert. Ég á líka von á því, að samvinnuhreyfingin fái kost á því að láta í ljós álit sitt og geti sent t.d. allshn., sem fær þetta mál sennilega til meðferðar, skoðanir sínar á málinu. Það er vilji minn að sjálfsögðu að þetta mál fái fullkomlega málefnalega meðferð hér í þinginu, menn ræði það ofstækislaust og af skynsemi og afgreiði það eftir því.

Það kom einnig fram í máli hv. 2. þm. Suðurl., hann sagði sem svo, að ef einhver gæti bent á betri leið til aukins lýðræðis í samvinnuhreyfingunni en nú væri farið, þá mundi hann styðja það. Það er einmitt það sem ég er að gera og við flm. þessa frv. Við erum einmitt að benda á leið, sem augljóslega hlýtur að auka og efla lýðræði innan hreyfingarinnar. Og nú vildi ég gjarnan að hv. 2, þm. Suðurl. stæði við orð sín og styddi þessa nýju og betri leið.

Hv. þm. vék að því, að það væri hugsanlegt, ef beinar kosningar af þessu tagi yrðu teknar upp, að atkvæðafjöldinn yrði meiri í einum landshluta en öðrum og þar með gætu völd kjósendanna safnast mikið á einn stað í landinu eða í einn landshluta. Það, sem hann var augljóslega að ýja að, er sú hugmynd að atkvæðisréttur manna í samvinnuhreyfingunni eigi að vera ójafn, það eigi ekki að vera jafn kosningarréttur. Það er skoðun mín, að þarna sé ekki um neitt annað að tefla, það verði að vera jafn kosningarréttur að þessu leyti, enda er gert ráð fyrir því í frv. Eftir því sem ég best veit eru félagsmenn samvinnuhreyfingarinnar svo dreifðir um landið að í raun og veru er engin ástæða til að óttast að þau völd, sem atkv. fylgja, muni safnast of mikið á einn stað.

Hv. 2. þm. Suðurl. vék einnig að því, að eftir því kerfi, sem nú gildir um kosningar forustumanna í samvinnuhreyfingunni, væri um að tefla mjög bein tengsl milli manna, samband væri náið, menn ræktu kunningsskap sín á milli og allir þekktu foringjann. Ég efast ekki um að félagsmenn í samvinnuhreyfingunni þekkja forustumenn sína. En ég mótmæli því algerlega, að forstjórar og framkvæmdastjórar SÍS séu í einhverjum lifandi tengslum við félagsmenn hreyfingarinnar. Því miður er ég sannfærður um að það er mjög fjarri því að svo sé.

Ég ætla að ítreka það sem ég sagði í upphafi, að mér fundust þær röksemdir gegn þessu máli, sem komu fram hjá hv. 2. þm. Suðurl., satt að segja veigalitlar og alls ekki skilmerkilegar. Það er því svolítið örðugt að taka á þeim og ég læt þetta duga.