21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

73. mál, samvinnufélög

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Austurl., hélt því fram, að hér væri um að ræða gamla tillögu sem íhaldið, eins og hann orðaði það, hefði flutt áður. Mér finnst að þarna þurfi að gera nokkurn greinarmun á, hvort um er að ræða Íhaldið með stórum staf eða íhaldið með litlum staf. Sé um að ræða Íhaldið með stórum staf kann vel að vera að það íhald hafi flutt þessa till. einhvern tíma áður, en mér heyrðist af ræðu síðasta ræðumanns að íhaldið með litlum staf hér í þinginu — það helsta — hafi verið að mæla gegn þessari till. eins og flestum framfaramálum sem hér hafa verið flutt í vetur. Þarna held ég að við þurfum að gera nokkurn stafamun og orðamun og jafnvel hugsanamun.

Það er auðvitað rétt, sem fram kemur í grg. með þessu frv. til laga og eins í máli hv, síðasta ræðumanns, að kjarni málsins er auðvitað að hér er við verulegan vanda að etja. Það hefur hent hverja hreyfinguna á fætur annarri, og þar með samvinnuhreyfinguna, það er ljóst, að fámennir hópar á hinum félagslega toppi ef svo má að orði komast, ráða málum, en hinn almenni félagsmaður hefur í tímanna rás orðið mikið til afskiptur — hefur ekki áhrif á það hvernig málum er skipað.

Hér hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Þórarni Sigurjónssyni, að verða mundi um valdbeitingu að ræða. Ég segi fyrir mína parta, að ég get engan veginn fallist á að hér væri um nokkra valdbeitingu að ræða. Það er ekki valdbeiting að setja hlutafélagalög í landinu, ef okkur þykir viturlegt að skipta þeim málum öðruvísi. Það er áreiðanlega ekki valdbeiting að mati neins okkar að setja auðhringalöggjöf í landinu, ef okkur þykir viturlegt að skipa þeim málum öðruvísi. Auðvitað standa upp talsmenn auðhringanna, talsmenn hlutafélaganna jafnvel, og halda því fram að hér sé um valdbeitingu að ræða, hér sé löggjafinn að skipta sér af málum sem honum að öðru jöfnu komi ekki við. Það segir sig sjálft, að ef hagsmunir einhverra eru skertir með þessum hætti, þá segja þeir hinir sömu að þar sé um valdbeitingu að ræða. Það, sem löggjafanum ber auðvitað að gera í þessu samhengi, er að ganga úr skugga um hvort hér sé um vandamál að ræða. Er það vandamál í þessari tilteknu hreyfingu að of fáir fari með of mikil völd og væri hægt að skipa málum öðruvísi þannig að fjöldinn hefði hagnað af? Ef löggjafinn kemst að slíkri niðurstöðu er auðvitað sjálfsagt að breyta til. Þetta frv. til l., sem hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson ásamt fleiri hefur flutt, felur í sér ákaflega einfalda breytingu: að taka upp beinar kosningar í stórri félagslegri hreyfingu og auka þar með völd og áhrif hins almenna félagsmanns. Ég fæ ómögulega skilið að þar sé um valdbeitingu að ræða.

Hv. síðasti ræðumaður, Lúðvík Jósepsson, drap á annað stórmál sem vel er vert að velta fyrir sér í þessu samhengi. Það er hin stærsta félagslega hreyfing í landi okkar, nefnilega verkalýðshreyfingin. Það er alveg ljóst að verkalýðshreyfingin á við nákvæmlega sams konar vanda að etja og hér hefur verið lýst að því er varðar samvinnuhreyfinguna. Þar gerist það í félagi eftir félag, að haldnir hafa verið fámennir aðalfundir, kannske með nokkrum tugum manna, sem kjósa sér forustu, og það hefur þróast svo í gegnum árin að forustumennirnir koma málum svo fyrir að þeir birta litlar auglýsingar í blöðum, sem varla sjást, ef þær þá sjást, og síðan halda þeir fundina. Þeir hafa í kringum sig hóp með örfáum tugum karla og kvenna og halda þarna völdum ár eftir ár og tala í nafni þúsundanna ár eftir ár. En það kemur óvart iðulega í ljós, að þegar á þarf að reyna er þessar þúsundir hvergi að finna. Ég vek t.d. að því er til þessa máls tekur athygli á, og þetta kemur aftur og aftur í ljós, skoðanakönnun sem birt var í Dagblaðinu í fyrra rétt eftir aðgerðirnar 1. og 2. mars, sem voru mótmælaaðgerðir gegn efnahagsráðstöfunum þáv. ríkisstj. Við skulum hafa þann fyrirvara á hvernig Dagblaðið vinnur skoðanakannanir sínar, en alla vega leiddi sú skoðanakönnun í ljós að 80% aðspurðra eða þar um bil voru mótfallin aðgerðum ríkisstj. En að þessu spurði blaðið í skoðanakönnun sinni: Hvað finnst mönnum um aðgerðir verkalýðsforustunnar — þ.e.a.s. að skora á fólk að taka þátt í ólöglegum aðgerðum? Og hvað kom í ljós? Það kom í ljós að sama hlutfall aðspurðra, eða 80%, var á móti því sem verkalýðsforustan hvatti til að gera. Það komi ljós þarna, eins og oft áður og seinna, að það skorti fullkomlega jarðsamband milli foringja launafólksins í landinu og fólksins sjálfs.

Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sér gríðarlegt vandamál, sem menn verða í fyrsta lagi að gera sér grein fyrir og í öðru lagi að velta því fyrir sér með hverjum hætti megi finna leiðir til úrbóta. Út af fyrir sig sæi ég ekkert rangt við að sams konar frv. og hér er flutt um samvinnuhreyfingu væri flutt um launþegafélög — nefnilega um að setja rammalöggjöf um aðalfundi, um kosningar til stjórna og um aðrar ákvarðanir sem máli skipta, í því skyni einu að tryggja að það sé jarðsamband milli fólksins í félögunum, milli fólksins í landinu og forustu launþeganna. Ef þetta jarðsamband skortir og ef það er orðið langt og óbrúanlegt bil á milli forustumanna í slíkum hreyfingum annars vegar og fólksins sjálfs, þá vitum við að það er komin veruleg skekkja í alla hina pólitísku mynd.

Ég vísa til þess í þessu sambandi, að þessi mál hafa verið mjög til umræðu í Bretlandi undanfarna daga, vikur og mánuði af ástæðum sem ég veit að hv. dm. er kunnugt um. Þar kemur í ljós að skoðanakannanir leiða til nákvæmlega hliðstæðrar niðurstöðu og þær skoðanakannanir sem ég vísaði til og komu í Dagblaðinu í fyrra, þ.e.a.s. foringjar verkalýðsfélaga standa fyrir aðgerðum, en þegar almennir borgarar eru spurðir vítt og breitt um þær kemur í ljós að allt að því 80% af borgurunum eru mótfallin þeim aðgerðum sem um ræðir. Kjarni þessa máls er sá, og mér er ljóst að slíkt á sér langa sögulega þróun og þessi sögulega þróun verður ekki leiðrétt í einni svipan, að menn átti sig á því fyrst í stað, að vandamálið er til, og í annan stað hygg ég að gæti verið nauðsynlegt að um þetta yrði sett einhvers konar rammalöggjöf. — Ég sé að á mig horfir grimmt hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Ég veit að hann þekkir þessi mál mætavel, og ég held að með allri sanngirni megi ég segja um hann, af því ég sé hvað hann er dapur á svipinn, að mér er fullkunnugt að hann hefur jarðsamband í sínu félagi. En því miður, eins og ég hygg að við hv. þm. getum verið sammála um, er þetta býsna oft upp og ofan, svo ekki sé meira sagt, og á undanförnum árum og áratugum hefur þetta því miður í vaxandi mæli orðið ofan á.

Allt um það er hér aðeins verið að vekja máls á vandamáli sem ég hygg að í æ vaxandi mæli skipti meira og meira máli í þessu samfélagi. Þróunin hefur orðið sú hjá okkur og annars staðar, að við getum ekki lengur talað um þrískiptingu valds með þeim hætti sem 19. og 18. aldar spekingar þar á undan töluðu um. Það eru orðnar miklu fleiri þungamiðjur valds en þessir 18. og 19. aldar höfundar gerðu ráð fyrir. Ein af þessum þungamiðjum valds eru einmitt hagsmunahóparnir. Launþegahreyfingin vegur þar auðvitað þyngst, og þegar það er orðin staðreynd, þegar það virðist t.d. vera skoðun fjölmargra þm. að ekki megi setja lög um efnahagsmál öðruvísi en fá leyfi hjá forustumönnum hagsmunahópa, þá er það líka og ætti að vera bæði sjálfsagt og í samhengi við þessa hugsun að löggjafinn velti því fyrir sér með hverjum hætti þeirri skipan verði komið á þessi mál að til farsældar leiði fyrir heildina alla.

Það frv., sem hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson hefur mælt fyrir, tel ég að fjalli um atriði sem sjálfsögð ættu að vera í nútímasamfélagi. Það er alveg ljóst, að samvinnuhreyfingin er bæði fjölmenn hreyfing og hún er rík hreyfing. Ég hygg að sú þróun hafi orðið þar eins og viðar í félagslegum hreyfingum, að í reynd hefur þarna þróast þrepalýðræði sem aftur leiðir til þess að á toppnum situr fámenn stjórn sem raunverulega fer með völd og iðulega er í litlum tengslum við hina almennu félagsmenn.

Ég mótmæli því enn, að löggjafinn hafi ekki til þess fullan rétt að setja almenn rammalög um þessi efni ef hann telur það vera skynsamlegt, og ég er sannfærður um að hvað sem líður forustumönnum samvinnuhreyfingar og áliti þeirra á þessu frv., þá eiga hugmyndir eins og þessar fylgi að fagna úti um hinar dreifðu byggðir og meðal almennra samvinnumanna. Og hvers vegna? Vegna þess að þær auka áhrif hins almenna félagsmanns. Til þess er leikurinn gerður að því er þetta frv. varðar, og þessa hugsun ættum við að heimfæra viðar úti í hinu stóra samfélagi.