21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

73. mál, samvinnufélög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af fyrir sig er það matsatriði um einstaklinga hverjir eru íhaldsmenn og hverjir eru ekki íhaldsmenn, ef það orð er notað. Hefur mér í lífinu reynst það svo, að þeir, sem telja sig fjærst því að vera tilgreindir á þann hátt, eru kannske oft á tíðum þeir mestu. En út í það ætla ég ekki að fara að þessu sinni, hverjir innan þessara veggja hv. Alþ. eða þessarar hv. d. séu mestu íhaldsmennirnir í raun. Hitt vil ég segja, að það frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., getur ekki að mínu áliti verið á þann veg að það sé verið að minnka afskipti Alþ. og hins opinbera af rétti einstaklingsins til að vel ja og hafna. Ég get ekki heldur skilið að með þessari einu lagagrein, sem hér er lagt til að set ja, sé verið að setja nein rammalög. Það er lagt til að setja beina fyrirskipun um hvernig félagsmenn innan ákveðinna félagssamtaka á Íslandi skuli fara að því að kjósa sér fulltrúa til að fara með sín mál. Þegar svo er að staðið hef ég ekki skilning á því, að hér sé um rammalög að ræða. Það væri út af fyrir sig hægt að kalla það ramma eða hugmynd að ramma, ef það væri till. um að endurskoða slík lög og settar fram hugmyndir eða settur einhver frekari rammi en þetta, en ekki bein fyrirskipun eins og þarna er um að ræða.

Ég lít svo á að samvinnufélögin í landinu séu frjáls félagsskapur þar sem allir geti orðið félagsmenn ef þeir óska. Það er engin takmörkun á því að fá þar félagsréttindi og vald hvers einasta manns er að nota þann rétt sem hann hefur. Það, sem er m.a. hinn stóri þáttur í samvinnufélagsskapnum, er að það er maðurinn sjálfur, sem velur og hafnar, en það er ekki fjármagnið sem þar ræður ríkjum.

Starfsemi samvinnufélaganna víðs vegar úti um landið hefur orðið einn veigamesti byggðaþáttur á hinum ýmsu stöðum. Það væri mjög illa farið ef t.d. hér á hv. Alþ. væri þannig að þessum málum staðið að löggjafinn færi að hafa þau afskipti að skipa samvinnumönnum fyrir hvernig þeir ættu að framkvæma þá löggjöf sem um þetta er — hina almennu löggjöf — til þess að ráða sér forustu.

Í því byggðarlagi þar sem ég á heima er mjög sterkt og öflugt samvinnufélag. Þar sat í forustusætinu kaupfélagsstjóri í kringum 40 ár. Þegar hann gekk út úr þessu fyrirtæki eftir þennan starfstíma fór ekki einu sinni stóllinn hans með honum frekar en ráðherrastóll í rn. Það kom annar maður og settist í sætið, af því að fyrirtækið var ekki eign kaupfélagsstjórans, heldur fólksins í byggðarlaginu. Þess vegna hélt það áfram störfum sínum til uppbyggingar og til þess að tryggja sem besta afkomu byggðarlagsins og þá um leið þjóðarinnar í heild.

Þetta fólk hefur farið að félagslögum sem það hefur samþykkt fyrir sitt kaupfélag, og það hefur ekki látið skipa sér fyrir hvernig kjósa skuli. Fundir í deildum Kaupfélags Borgfirðinga eru verulega vel sóttir, og það er misskilningur að halda því fram, að það sé einhver fámenn klíka sem þar ráði. Það eru menn sem eru síðan kosnir af aðalfundi sem stjórna félaginu. Þeir eru kosnir til þriggja ára í senn. Og það eina, sem þar hefur verið fyrst og fremst haft hugfast, hefur verið að reyna að dreifa stjórnarnefndarmönnum sem best um félagssvæðið. Þess vegna mundi það vera að mati þessa fólks mjög farið aftan að siðunum, ef Alþ. færi að fyrirskipa hvernig kosningum yrði hagað, því það þarf enginn að halda, ef slík löggjöf sem þessi yrði að raunveruleika fyrir Samband ísl. samvinnufélaga, að þá yrði látið þar við sitja og hin einstöku kaupfélög gætu aftur ráðið sínum hluta að þó takmörkuðu leyti. T.d. er það svo, ef ég tek Kaupfélag Borgfirðinga, að þar eru í stjórn menn sem eiga heima í mjög fámennu sveitarfélagi. Ef hins vegar væri farið að kjósa stjórnina almennum kosningum meðal félagsmanna, þá er nokkurn veginn ljóst að

Borgnesingar gætu náð a.m.k. meiri hluta stjórnarinnar. Þetta hefur ekki verið. Ég held ég muni það rétt, að einn af stjórnarnefndarmönnum Kaupfélags Borgfirðinga, sem eru 7, sé búsettur í Borgarnesi. Þetta sýnir að það er reynt að dreifa þessum kjörnu stjórnarnefndarmönnum sem mest um héraðið sem Kaupfélag Borgfirðinga nær yfir, vegna þess að félagsmennirnir eru búsettir um allt Vesturlandssvæðið, þ.e. allt félagssvæði Kaupfélagsins.

Hér finnst mér því vera till. um að takmarka félagsfrelsi. Það þarf enginn að halda, ef slík löggjöf næði í gegn á Alþ., að hér yrði látið staðar numið. Og eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan, þegar hann leit til hv. varaþm. Guðmundar J. Guðmundssonar, þá þarf enginn að halda að slíkur háttur yrði ekki tekinn upp í félagsskap eins og ASÍ og öðrum landssamtökum, ef komið væri á í fyrirtæki eins og Sambandi ísl. samvinnufélaga.

Um hitt má svo alltaf deila, hvort sá réttur, sem þarna er, sé notaður eins og vera skyldi, þannig að þeir kjörnu fulltrúar, sem sitja sambandsfundina og kjósa í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga, hafi notað rétt sinn til kosninga á þann veg sem æskilegast væri. Á því kann ég ekki skil, en tel mig þó vita að það hefur verið reynt að dreifa þessu nokkuð með tilliti til hinna ýmsu aðstæðna. Það er fjarri því, að t.d. sá stjórnmálaflokkur, sem hefur mest verið kenndur við samvinnufélögin og er að minni hyggju sá burðarás sem hefur dugað þeim þegar á hefur þurft að halda í hinni almennu landsmálabaráttu, sérstaklega áður fyrr, þegar á það reyndi að löggjafinn fjallaði um þessi mál svo mjög sem raun bar vitni um, — það er fjarri því, að hann eigi alla fulltrúana í stjórn þessa fyrirtækis, enda fyndist mér það óeðlilegt. Ég er ekki fylgismaður slíks og tel að svo eigi ekki að vera. Ég man nú ekki í svipinn hvort meiri hl. kunni að vera skipaður mönnum í þeim flokki.

Eitt er víst, að meiri hl. stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga er dreifður um landið, þar hefur meira tillit verið tekið til hinna einstöku landssvæða heldur en annarra þátta. Þess vegna fyndist mér það harður kostur, ef það fólk, sem er félagsmenn í kaupfélögunum og þar af leiðandi í Sambandinu, fengi ekki að hafa rétt til þess að kjósa stjórn sína samkv, þeim reglum, sem það hefur sett sér innan þess ramma sem landslög segja fyrir um.

Ég vil því segja það um þetta frv., að hér er gerð till. um að fara inn á hraut sem mundi verða mikil ógæfa ef hv. Alþ. samþ., sem mér að vísu dettur ekki í hug að verði, því þá væri verið að skerða hið almenna félagsfrelsi í þessu landi meira en með nokkru öðru hefur verið gert til þessa. Ég er félagssinnaður maður og ég vil láta fólkið eiga rétt til að velja og hafna í þessum efnum, vil ekki láta löggjafann skipa fyrir um það. Ég, er mjög undrandi á því í raun og veru, að þeir hv. þm., sem hafa flutt þetta frv., skuli m.a. hafa gengið svo langt að það skuli ekki einu sinni eiga að athuga málið milli þinga, heldur ganga beint til verks til að breyta lögunum. Það finnst mér sýna það og sanna, áð hér er ekki verið að verki með þann hugsanagang að bæta þessa löggjöf, heldur hitt, að ganga beint í það að skerða félagsfrelsi þegnanna í þessu landi. Gegn því mun ég vinna meðan ég get því við komið.