21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

73. mál, samvinnufélög

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það fór sem mig grunaði í sambandi við þetta mál, að hér væri ekki einvörðungu um það að ræða að vinna að breytingu á lögunum um samvinnufélög, heldur stæði miklu meira á bak við, enda kom það þokkalega vel fram þegar til máls tók einn af flm. frv., hv. þm. Vilmundur Gylfason. Það var augljóst hjá honum, að það sem sérstaklega vakti fyrir honum var gamla íhaldstillagan um að hafa áhrif á það, hvernig verkalýðshreyfingin í landinu hagaði félagsmálum sínum. Hann talaði um að það mætti finna hér í þinginu menn sem mætti kalla Íhaldsmenn með stórum staf og íhaldsmenn með litlum staf. En það fer víst ekki á milli mála, að þessi hv. þm. er fulltrúi þess nýíhalds sem slær út gamla íhaldið á flestum sviðum. Þegar gamla íhaldið dregur klærnar inn, þá spennir hann sínar klær út. Þegar gamla íhaldið hikar aðeins við að koma með sínar till. sem hafa verið kveðnar niður á Alþ. áður, þá kemur nýíhaldið með þessar till, sínar og hikar ekki við að ráðast að almannasamtökum í landinu á þann hátt sem greinilega vakir fyrir þessum hv. þm.

Það er á margan hátt gott að það komi fram, hvað býr í slíkum þm. sem hv. þm. Vilmundi Gylfasyni. Það er nauðsynlegt að afhjúpa það frá degi til dags og sýna inn í það. Hann kvartaði undan því, að verkalýðshreyfingin í landinu hefði of mikil völd og of mikil áhrif og þar væru tilteknir forustumenn með of mikið vald. Auðvitað talar hann hér um verkalýðshreyfinguna af sama þekkingarleysinu og hann talar um flest önnur mál og af sömu yfirborðsmennskunni. Hann veit auðvitað ekkert um hvernig verkalýðshreyfingin vinnur, hvað hún heldur mikið af fundum og hvað margir taka þar þátt í atkvgr., jafnt þegar verið er að ákveða verkföll og annað. Hann þekkir þar ekkert til. Hann verður auðvitað hissa ef nefnd eru talnadæmi um það, hvernig þar er staðið að málum. En það skiptir ekki neinu máli. Hann hefur hrifist af tillögum íhaldsins um að binda það með lögum, ákveða að svona skuli félagsmenn haga sínum innri félagsmálum, og það vill hann kalla frelsi.

Auðvitað er ekkert um það að villast, að hér er um að ræða þá stóru spurningu, hvort við eigum að viðurkenna það grundvallaratriði sem markað er í okkar stjórnarskrá og við höfum búið við um langan tíma, að mönnum eigi að vera frjálst að mynda með sér félagasamtök og skipa þar sínum innri málum. Auðvitað er þessi grundvallarréttur, sem er virtur, allt annað en það sem þessi hv. þm. var að reyna að grauta saman við óskylda hluti: löggjöf um hlutafélög eða löggjöf um samvinnufélög. Auðvitað er það löngu þekkt mál að löggjafinn setji almenna rammalöggjöf, hvers konar félagasamtök menn geti byggt upp. En það er vitanlega innan þess ramma sem þar hefur verið settur sem menn hafa ákveðið frelsi til þess að skipa innri málum samtakanna. En það er þar sem hv. þm. Vilmundur Gylfason vill grípa inn í. Þau mega ekki fá að ráða sínum innri málum. Það á að skerða þeirra félagafrelsi, m.a. vegna þess að hann óttast þessi stóru félagasamtök í þjóðfélaginu. Hann telur völd þeirra of mikil, mátt þeirra of mikinn. Þau fara nefnilega ekki eftir hans kokkabókum. Hann kvartaði hér sérstaklega undan því, að það væri hastarlegt að Alþ. skyldi hika við að setja lög um efnahagsmál án þess að hafa fengið uppáskrift eða samþykki verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Já, það er hart. Þessi þm. á eftir að kynnast því, af því að hann þekkir svo lítið til raunveruleikans, hann á eftir að kynnast því, að honum miklu meiri menn hafa reynt þetta sem hann er að fálma hér um og vill reyna að gera. Þeir hafa reynt að setja lög um að verkalýðshreyfingin og aðrar fjöldahreyfingar séu skyldar til að gera þetta og megi ekki gera annað. Slík lög hafa verið sett hér á Alþ. æ ofan í æ. Verkföll hafa verið bönnuð o.s.frv. En þessi hv. þm. ætti að kynna sér hvernig þetta hefur tekist. Þetta hefur nefnilega brotnað allt saman niður í framkvæmdinni, vegna þess að menn hafa byggt á þeirri grundvallarreglu í okkarþjóðskipulagi, að hér á að ríkja frjálst félagakerfi. Menn geta myndað félagssamtök og beitt þeim, og þeir gera það. Og þegar fólkið rís upp í gegnum sín félagslegu form, þá brotna svona lög niður og verða þýðingarlaus og það tekst ekki að framkvæma þau.

Nú mætti þessi hv. þm., fulltrúi nýíhaldsins hér á þingi, kynna sér svolítið af því, hvernig Alþfl.-menn fyrr á árum töluðu um þessi sömu mál og hvernig þeir beittu áhrifum sínum þegar svona íhaldskenningar komu upp hér á Alþ. Hann mætti kynna sér nokkuð af því, hvernig sú verkalýðshreyfing í landinu sem þá var undir forustu Alþfl., þegar aðalleiðtogar Alþfl. voru jafnframt leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar í landinu, — hvernig þeir fóru með löggjöf sem hafði verið samþ. af íhaldssömum meiri hl. á Alþ., hvernig þeir fóru í framkvæmdinni með slíka löggjöf, hvernig þeir brutu hana á bak aftur. En sá tími er löngu liðinn að Alþfl. af þessari gerð sé hér til. Nú er kominn sá einkennilegi Alþfl. sem ég kalla nýíhald, sem venjulega er í öllum greinum íhaldssamara en íhaldið sjálft. Sérstaklega þegar um það er að ræða að grípa til einhverra íhaldskenninga sem komið hafa upp, þá ganga þeir fram fyrir skjöldu og verða íhaldssamari en íhaldið sjálft.

Það kann vel að vera að þeir hafi einhverjir verið sem litu svo á, þegar þetta frv. um breytingu á kosningum innan samvinnuhreyfingarinnar birtist hér, að aðeins væri um það að ræða að snúa sér að Sambandi ísl. samvinnufélaga, það væri ekki sérlega vinsælt, það hlyti að vera hægt að fá samþ. lög á sambandsklíkuna og það mætti draga nokkuð úr einokunaraðstöðu Sambandsins, eins og þessu nýíhaldi er tamt að tala um. En nú ætla ég að menn hafi fengið að heyra í þessum umr.till. um Sambandið er aðeins hliðargrein á heildaráætluninni. Aðalatriðið er að koma fram með íhaldstillögu sem gamla og gróna íhaldið var ekki tilbúið að flytja hér á Alþingi, að grípa inn í og fyrirskipa verkalýðshreyfingunni hvernig hún á að kjósa í sínar stjórnir, hvernig hún á að skipa sínum innri málum og hvernig er hægt að hneppa hana í einhverja fjötra með löggjafarákvæðum á Alþingi. Það er aðalatriði málsins. Þangað er stefnt. Og það kom greinilega upp hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að þetta þvælist einmitt fyrir honum núna þegar menn eru að ræða um efnahagslöggjöf: Hugsa sér að það skuli vera verkalýðshreyfing sem stendur í veginum fyrir því, að sett skuli lög um efnahagsmál. Auðvitað þarf löggjafinn að grípa inn í þegar menn sjá hvernig raunverulega er í pottinn búið í sambandi við flutning þessa frv. og hvað hér liggur á bak við.

Í minni fyrri ræðu gerði ég ekki meira en rétt aðeins hreyfa við málinu, fletta upp horninu á blaðinu og vara menn örlítið við hvað mundi á eftir fylgja. En þá kom auðvitað strax foringi nýíhaldsins og sagði: Auðvitað er það aðalatriði málsins. — Þegar menn hafa fengið að sjá þetta, þá kannske fara menn að átta sig svolítið betur á því, hvað felst raunverulega í frv. sem hér liggur fyrir.

Ég á ekki von á að það takist að þessu sinni hjá nýíhaldinu hér á Alþ., sem við verðum að hafa þá raun af að hafa með í ríkisstj. og vinna með í ríkisstj., með öllum þeim erfiðleikum sem því fylgja, að þessu nýíhaldi takist að fá fram löggjöf af því tagi sem það reynir hér að koma fram. Eflaust verður í þeim hópi hv. þm. Vilmundur Gylfason og nokkrir fleiri úr Alþfl., en ég á von á að úr 14 manna þingflokki Alþfl. slitni kannske helmingurinn úr lestinni þegar málið er komið upp á þennan hátt. Það hefur a.m.k. orðið svo áður. En við eigum eftir að reyna hvort gamla íhaldið og nýja íhaldið standi saman í þessu máli og treysti sér til að standa saman að því að setja lög um þetta. Við eigum eftir að prófa það. Það hefur þó a.m.k. gott gerst í þessum efnum að við höfum fengið nokkra aðstöðu til að afhjúpa þetta nýíhald sem hér birtist einkum og sérstaklega í hv. þm. Vilmundi Gylfasyni í öðru hverju máli sem hér er tekið til umr. á Alþingi. Við höfum fengið ágætt dæmi til að sýna svolítið inn í þetta nýíhald, og þá kannske fá einhverjir þeirra, sem hafa léð því eyra, að hlusta á hv. þm. þegar hann jafnvel þykist vera með tillögugerð sinni að berjast fyrir hagsmunamálum og kjörum verkafólks í landinu, þó hann sé í sífellu að stagast á því, að það þurfi að hinda kaupið með lögum, og þó hann harmi, að það skuli ekki hafa tekist að binda kaupið með lögum. Já, það gefst tækifæri til þess stig af stigi að fletta þá klæðum, þessa pilta sem hafa komið fram í þessu gervi. Ég tel það ekkert eftir mér þó að ég tíni af þeim spjarirnar. Ég mun gera það eftir því sem tilefni gefst til þar til það verður ekki mikið utan á þeim og menn mega sjá hvað innan undir býr.