21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

73. mál, samvinnufélög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að ræða um samvinnuhreyfinguna. Hún er mikilvæg í þessu landi, eins og menn vita, og hún gæti orðið og þyrfti raunar að verða enn þá mikilvægari. Það er líka góðra gjalda vert að vinna að því að auka tengsl samvinnumanna innbyrðis, sérstaklega með það í huga að þetta er ekki í eðli sínu eingöngu fyrirtæki, heldur félagsmálahreyfing. Það gleymist oft í dagsins önn og í umr., en það er atriði sem við megum ekki gleyma og eigum ekki að gleyma.

Ég held að áhrif félagsmanna innan samvinnuhreyfingarinnar séu sæmilega tryggð. En það væri æskilegt í ýmsum tilfellum að auka áhuga hins einstaka samvinnumanns á málefnum hreyfingarinnar og gera þátttöku hans virkari. Mér finnst t.d. hér í Reykjavík, eftir því sem það kemur mér fyrir sjónir sem aðkomumanni, að hér sé samvinnustarf að ýmsu leyti vanmegnugt bæði sem félagsmálahreyfing og eins sem fyrirtæki. Markaðshlutdeild samvinnuverslunar t.d. hér í Reykjavík er ótrúlega lítil, eins og hún ætti þó að hafa mikla yfirburði yfir önnur rekstrarform.

Uppbygging samvinnufélaga er allt önnur en hlutafélaga, og mér finnst að menn þurfi að gera sér betri grein fyrir því. Í samvinnufélögunum eiga allir að vera jafnir, áhrif manna fara þar ekki eftir hlutafjáreign, og það er ansi mikill skilsmunur þegar áhrif manna fara ekki eftir efnahag. Þar sem ég þekki til samvinnustarfs í Norðurl. v. eru lýðræðislegar kosningar og býsna virkt fulltrúalýðræði í þessari starfsemi. Þar eru haldnir deildarfundir í hverjum hreppi og það heyrir til algerra undantekninga ef þeir eru ekki lögmætir. Það eru nokkuð ströng ákvæði um það, að svo og svo margir félagsmenn þurfi að vera á fundi til þess að fundur sé lögmætur, og það er mjög fátítt að svo sé ekki. Menn sýna þessu starfi þar mikinn áhuga. Ef deildarfundir eru ekki lögmætir verða kjörbréf þeirra fulltrúa, sem á fundunum eru kosnir, lögð til úrskurðar á aðalfundi. Á deildarfundum eru sem sagt kosnir fulltrúar á aðalfund. Aðalfundur fer með málefni samvinnufélaganna í héraði. Síðan hafa samvinnufélög víða um land með sér samband, eins og menn vita, og fulltrúar á sambandsfundi eru kosnir á aðalfundum samvinnufélaga víða um land. Það er hugsanlegt að breyta þessu fulltrúakjöri á sambandsfundina. Það mætti t.d. að mínum dómi íhuga hvort þyrfti að vera óskaplegt fyrirtæki að fulltrúar á sambandsfund yrðu kosnir beinni kosningu í öllum deildum, boðnir fram eftir atvikum með einhverjum hætti fremur en fela það aðalfundi. Mér kemur í hug það fyrirkomulag sem er á kosningu til Búnaðarþings, þar sem búnaðarþingsfulltrúar eru ekki kosnir á aðalfundum búnaðarsambanda, heldur eru þeir kosnir í almennum kosningum félaga í búnaðarfélögunum. Þetta þætti mér hugsanleg breyting. En ég tek það fram, að ég held að við búum við bærilegt skipulag og bein kosning stjórnar, eins og er lagt til í þessu frv., held ég að sé óþarflega mikið fyrirtæki og ástæðulaust. Þetta minnir mig á forsetakosningar eða þvílíkt umstang. Ég ber mikla virðingu fyrir stjórnarmönnum Sambands ísl. samvinnufélaga, en mér finnst ekki þurfa að gera eins mikið veður út af kosningu þeirra og t.d. forsetakosningum.

Málefni verkalýðshreyfingarinnar hafa dregist inn í þessa umr. Ég man ekki hver byrjaði á því, — ætli það hafi ekki verið hv. 7. þm. Reykv.? — og 1. þm. Austurl. hefur verið þrautseigur við þá umr. Ég held að vel gæti komið til greina að auka lýðræðisskipulag í verkalýðshreyfingunni og þá með því að háfa þar svipaðan hátt á og er í samvinnuhreyfingunni nú, að stjórnir hinna einstöku verkalýðsfélaga væru kosnar hlutfallskosningu. Í samvinnufélögum er það þannig, að heimildir eru fyrir hlutfallskosningum á fulltrúum og hlutfallskosningar eru mjög tíðkaðar. Þær eru skynsamlegar að mörgu leyti og tryggja eðlilegan rétt og eðlileg áhrif minni hl., og það er einmitt mikilvægt atriði í lýðræðisskipulagi að hafa það form sem tryggi skynsamlegan rétt minni hl. Hitt er svo annað mál, að innan verkalýðshreyfingarinnar eru að sjálfsögðu víða víðsýnir menn og taka tillit til minni hl. og tryggja rétt hans af rausn. En það er svo sem engin trygging fyrir því að svo sé alls staðar og svo verði um alla framtíð. Þess vegna held ég að það væri framför í lýðræðisátt ef verkalýðshreyfingin breytti skipulagi sínu.

Við búum í ýmsum greinum við fulltrúalýðræði. Ríkisstj. okkar nýtur stuðnings Alþingis og á að njóta meirihlutastuðnings á Alþ., og hæstv. ráðh. okkar eru ekki kosnir beinni kosningu, þeir eru fulltrúar okkar alþm. sem kosnir eru beinni kosningu hver í sínu afmarkaða kjördæmi. Þetta leiðir hugann að kosningu formanna stjórnmálaflokka. Guð má t.d. vita hvern Alþfl. kysi sér fyrir forustumann í beinni kosningu. Ég treysti mér ekki til að fullyrða að niðurstaðan yrði jafnskynsamleg og hún hefur orðið með núverandi skipulagi.