22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

119. mál, alþjóðasamningar um mannréttindi

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðild Íslands að alþjóðasamningum um mannréttindi sem er 119. mál þingsins. Till. er á þá lund, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt bókun sem þeim samningi fylgir og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Þegar samtök Sameinuðu þjóðanna voru stofnuð árið 1945 hétu aðildarríkin því, að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi og gerðu það eitt af markmiðum sínum „að styrkja og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsisréttindum allra.“

Í framhaldi af þessu var hinn 10. des. 1948 birt sérstök yfirlýsing, Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, sem átti 30 ára afmæli í desembermánuði s.l. Yfirlýsingin var samþykkt á 3. Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna af 48 ríkjum, og í þeirra hópi var Ísland, en 8 ríki sátu hjá og tvö voru fjarstödd. Sameinuðu þjóðirnar voru 58 á þeim tíma, en þær eru nú 150.

Yfirlýsing þessi fól í sér fyrirheit ríkjanna um vernd tiltekinna mannréttinda, en hún var ekki lagalega bindandi eins og milliríkjasamningar eru. Engu að síður er það mat manna, að hún hafi í þrjá áratugi haft verulegt gildi, ýmist sem mælikvarði til styrktar mannréttindum og til eflingar siðgæði víða um heim eða þá að ýmis ríki hafa stuðst við hana þegar þau hafa sett sér löggjöf á þessu sviði.

Mannréttindanefnd var stofnuð árið 1946 og hefur hún starfað á vegum Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna. N. ákvað í upphafi að hinn alþjóðlegi grundvöllur mannréttindaverndar skyldi felast í þrennu: yfirlýsingu, einum eða fleiri alþjóðasamningum og ákveðinni skipan til að fylgjast með og stuðla að efndum mannréttindaákvæðanna.

Árið 1954 lagði nefndin fyrir 9. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna drög að tveimur alþjóðasamningum. annars vegar um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hins vegar um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Samningsdrögin voru síðan til meðferðar í félags- og mannréttindamálanefnd þingsins um 12 ára skeið og sættu þar verulegum breytingum. Hinn 16. des. 1966 samþykkti 21. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna báða samningana ásamt valfrjálsri bókum við hinn fyrrnefnda.

Af þessu stutta yfirliti er ljóst að það hefur tekið langan tíma að ná samkomulagi um þessa samninga, enda eru mannréttindi umdeild mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, eins og varla þarf að tíunda fyrir hv. alþm. En samningar þessir tveir ásamt bókuninni, sem eru birtir sem fskj. á þskj. 137, hafa engu að síður hlotið viðurkenningu allmikils fjölda ríkja, þó að því fari víðs fjarri að þar séu Sameinuðu þjóðirnar allar á einu máli. Samningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi átti siðast þegar fréttir bárust 52 aðildarríki og hinn samningurinn 54. Hins vegar eru þetta yfirleitt ríki sem eru okkur skyld að hugsunarhætti og stjórnskipan og samningar þessir voru á sinum tíma undirritaðir fyrir Íslands hönd. Það gerðist í árslok 1968, fyrir liðlega 10 árum, en það hefur vafist fyrir stjórnkerfi okkar að undirbúa málið og leggja það fram á Alþ. þangað til nú í desembermánuði. Hitt er þó rétt að nefna, að undirbúningur þessa máls hefur verið mjög ítarlegur og vandaður. Fyrst var Jónatan Þórmundssyni prófessor falið að bera öll ákvæði þessara samninga og bókunarinnar saman við gildandi íslenskar réttarreglur og eftir atvikum framkvæmd þeirra. Hann skilaði ítarlegum álitsgerðum í janúar og febrúar s.l. ár og með ábendingum hans hafa samningarnir síðan verið til athugunar í rn. sem mál þessi snerta, þ.e. dómsmrn., félmrn. heilbr.- og trmrn. og menntmrn., fyrir utan utanrrn. sem flytur málið. Hygg ég því að segja megi að þetta mál hafi fengið allítarlega og nákvæma athugun í embættiskerfi okkar Íslendinga. Niðurstaðan er sú, eins og sjá má, að þessir aðilar hafa allir fallist á að fullgilda megi alþjóðasamningana ef Alþ. sýnist svo, en þó hafa þeir talið rétt að gera fimm fyrirvara sem taldir eru upp á bls. 2 og 3 í þskj. Eru þeir um einstök og ekki sérlega veigamikil atriði, svo að ég mun ekki eyða tíma í að ræða þá hvern um sig, en vænti að sú n., sem fær málið til meðferðar, muni hins vegar athuga þá vandlega og þá, ef henni sýnist svo, kalla fyrir sig þá sérfræðinga sem mest hafa um málið fjallað.

Þar sem hér er um að ræða fyrirferðarmikið mál, 45 síðna þskj., tel ég rétt að stikla yfir samningana og nefna örfá atriði til að gefa lauslega hugmynd um hvað hér er á ferðinni. Hygg ég að menn muni, þegar þeir heyra þessi efnisatriði, telja þau sjálfsögð fyrir okkur Íslendinga og að flest þessi mannréttindi séu fyrir hendi hér á landi, og er það tvímælalaust rétt. Þó eru hér atriði sem snerta heitar umr. sem urðu í þessum sal fyrir fáum dögum, þar sem er meðferð ákærðra manna t.d., en ekki hygg ég að lagavernd skorti hér í þeim efnum. Við verðum því að líta á þetta mál ekki aðeins sem leiðarvísi til umbóta hjá okkur sjálfum, heldur að við erum með aðild að samningum sem þessum að styrkja mannréttindastefnu á alþjóðlegum vettvangi og leggja okkar litla lóð á vogarskálar í þeim málum.

Ef ég fletti fljótlega í gegnum alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, þá er þar í 1. gr. ákvæði um að aldrei megi svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis, og væri kannske hægt að beita því um landhelgismálið ef við þyrftum á að halda, og að þeir, sem gerist aðilar að samningunum, skuli stuðla að viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti og virða þann rétt í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hér eru ákvæði nokkru síðar um að ábyrgjast jöfn réttindi til handa körlum og konum, sem varla er deilumál í orði hér á landi, hvað sem segja má um framkvæmdina.

Í upphafi 6. gr. er ákvæði um að viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til að hafa tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja þann rétt. Þetta er töluvert mikilvæg grein, e.t.v. ekki fyrir okkur, en fyrir þær þjóðir sem verða að þola atvinnuleysi milljóna manna.

Í 7. gr. er fjallað um rétt sérhvers manns til að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, og er síðan talið upp í smærri atriðum hvað þar er átt við. Hér er komið að yfirlýsingu sem snertir mál þar sem við erum býsna skammt á veg komnir. Hér er einnig ákvæði um að menn skuli njóta öryggis við störf og heilsusamlegra vinnuskilyrða. Um það má einnig segja, að við séum ekki langt komnir á því sviði, þó að töluvert hafi verið um það rætt og launþegasamtök hafi barist fyrir umbótum á þessu sviði. Hér er ákvæði um hvíld, frítíma og sanngjarna takmörkun á vinnustundum og frídaga á launum með vissu millibili svo og endurgjald fyrir opinbera frídaga. Ég þarf ekki að fjölyrða um vinnutíma í sambandi við aðstæður okkar.

Í 8. gr. eru ákvæði um rétt til að stofna stéttarfélög og síðan áfram rétt stéttarfélaga til að mynda landssambönd og stéttarfélagasambönd og ákvæði um verkfallsrétt.

Síðan er í 9. gr. ákvæði um rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þ. á m. til almannatrygginga. Þetta er komið inn í sáttmála um alþjóðleg mannréttindi, að einstaklingurinn skuli eiga rétt til almannatrygginga.

Í 10. gr. er fyrirheit um að mesta möguleg vernd og aðstoð skuli látin fjölskyldunni í té. Fjölskyldan nýtur þarna viðurkenningar sem grundvallareining mannlegs þjóðfélags.

Síðan eru í greinum þar á eftir ákvæði um réttindi mæðra með tilliti til verndar í sambandi við barnsburð, um ráðstafanir til verndar og aðstoðar barna og ungmenna án mismununar vegna ætternis eða annarra aðstæðna og ákvæði um vinnu barna.

Í 11. gr. er ákvæði um rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, nokkru síðar ákvæði um að sérhver maður skuli vera laus við hungur, enn eitt ákvæði sem kann að skýra það að allmargar þjóðir eiga erfitt með að skrifa undir þessi markmið og hafa dregið það við sig. Hér er einnig ákvæði um að tryggja sanngjarna dreifingu matvælaforða heimsins, sem er umhugsunaratriði hjá þjóð sem er að draga saman matvælaframleiðslu sína, og þar á eftir rétt manna til að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. Þar er að sjálfsögðu átt við þá viðleitni sem þjóðfélagið getur haft í frammi til þess að einstaklingurinn geti náð því marki. Og fleiri ákvæði eru sem varða heilbrigðismál.

Síðan kemur réttur til menntunar, um barnafræðslu og framhaldsmenntun í hinum ýmsu myndum, þ. á m. tækni- og iðnframhaldsmenntun sem gera á öllum tiltæka og aðgengilega.

Þessa kyns eru ákvæðin sem ég hef stiklað á, en auðvitað er margt nánar talið sem ég eyði ekki tíma í að tíunda hér.

Hinn samningurinn er alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Kann að vera að þar komi fram ýmislegt sem öllu frekar er umdeilt heldur en það sem ég hef nú þegar talið. Það byrjar á jafneinföldu atriði og því, að því er okkur kann að finnast, að sérhver maður hafi meðfæddan rétt til lífs. Þar á eftir er fjallað um dauðarefsingu. Hún er því miður ekki fordæmd, en þar eru ákvæði sem miða við ríkjandi ástand í stórum hlutum heims og ættu að verða til þess að draga úr framkvæmd dauðarefsingar.

Í 7. gr. segir: „Enginn maður skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Sérstaklega skal enginn sæta án frjáls samþykkis hans læknisfræðilegum eða vísindalegum tilraunum.“ Um þetta er engin þörf að fjölyrða. Við vitum af skýrslum, sem við heyrum öðru hverju frá Amnesty lnternational og fleirum, að pyndingar og annað, sem hér er nefnt, er viðhaft í stórum stíl í tugum ríkja um allan heim.

Í 8. gr. segir að engum manni skuli haldið í þrældómi, en ekki mun vera öruggt að þrælahald sé ekki enn í nokkrum ríkjum Austurlanda. Þar eru ákvæði um þvingunar- eða nauðungarvinnu.

Síðan eru ákvæði um það í 9. gr., að allir menn eigi rétt til frelsis og mannhelgi. Þetta eru ærið stór orð og kannske enn ein skýring á því, að sumar þjóðir hafa ekki viljað gerast aðilar að þessum samningum.

Síðan eru mörg ákvæði um það, hvernig fara skal með menn sem ríkisvaldið tekur fasta. Hver sá maður, sem tekinn er höndum, skal, þegar handtakan fer fram, fá vitneskju um ástæðurnar fyrir handtökunni og skal án tafar tilkynnt um þær sakir sem á hann eru bornar. Og þar á eftir fylgja mörg ákvæði um þetta svið.

Ég vík næst að 12. gr. Þar segir að hver maður skuli eiga rétt á umferðarfrelsi og frelsi til að velja sér dvalarstað og síðan: „Allir menn skulu frjálsir að því að yfirgefa hvaða land sem er, þar með talið sitt eigið land.“ Ég þarf ekki að tengja þetta við veruleikann fyrir hv. þm. Í 14. gr. segir að allir menn skuli vera jafnir fyrir dómstólunum, menn skuli njóta réttlátrar og opinberrar rannsóknar fyrir lögbærum, óháðum og óhlutdrægum dómstóli.

Síðan hleyp ég fram til 18. gr., þar sem segir að allir menn skuli frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í 19. gr. segir: „Allir skulu eiga rétt á að ráða skoðunum sínum afskiptalaust. Allir skulu eiga rétt til að láta í ljós skoðanir sínar; í þessum rétti felst frelsi til að leita, taka við og miðla alls konar vitneskju og hugmyndum án tillits til landamæra, annaðhvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista eða eftir hverjum öðrum leiðum að þeirra vali.“

Í 20. gr. segir: „Allur stríðsáróður skal bannaður með lögum.“

21. gr.: „Rétt skal mönnum að koma saman með friðsamlegum hætti.“

22. gr.: „Allir eiga rétt á að mynda félög með öðrum, þ. á m. að stofna og ganga í stéttarfélög.“

Hér er einnig í þessum samningi ákvæði um fjölskylduna sem hina eðlilegu grundvallarhópeiningu þjóðfélagsins sem á að njóta réttar og verndar ríkisins. Síðan er grein um réttindi barna og þannig heldur sáttmáli þessi áfram. En báðir sáttmálarnir enda á allmörgum ákvæðum um framkvæmd, um hina alþjóðlegu mannréttindanefnd, sem ég minntist á í upphafi, og um skýrslugerð til að fylgjast með því hvernig þessum málum er háttað.

Ég ítreka það, herra forseti, að þau mannréttindi sem þessir samningar fjalla um, eru flest talin sjálfsögð á Íslandi. Þó segja lögfróðir menn að við getum ekki staðfest þá nema hafa eina 5 fyrirvara sem greindir eru. En ég tel að okkur beri að gera skyldu okkar á þann hátt að við staðfestum þessa samninga, sem rétt yfirvöld hér á landi undirrituðu fyrir 10 árum, og hjálpum þannig, þó í litlum mæli sé, til að styðja málstað mannréttinda á jörðinni.

Herra forseti. Ég legg að lokum til að málinu verði vísað til síðari umr. og utanrmn.