22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2715 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

119. mál, alþjóðasamningar um mannréttindi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég átti satt að segja von á því, meðan hæstv. utanrrh. mælti fyrir þessu merka plaggi, að einhverjir yrðu til að biðja um orðið. Hér hafa orðið æðimiklar umr. að undanförnu og æðilöng biðröð hv. þm. að komast í ræðustól út af ómerkari plöggum en þessu. Ætli það sé ekki æðilangt síðan lagt var fram hér á Alþ. merkara plagg heldur en þetta?

Hitt verð ég að játa, að ég er ekki undir það búinn að flytja hér langa ræðu í tilefni af flutningi þessarar þáltill., enda er það í raun og veru óþarfi. Þegar ég tala um að eðlilegt hefði verið að menn hefðu kvatt sér hljóðs, þá er það vegna þess að ég álít að undir þessum kringumstæðum eigi menn að standa upp, þó ekki sé til annars en að láta í ljós fögnuð sinn yfir að þetta mál skuli komið hér fram. Ég árna hæstv. utanrrh. allra heilla í þessu sambandi og Alþingi þá um leið og vænti þess, eftir að það hefur nú beðið í 10 ár að málið yrði lagt fyrir Alþ. frá því að samningar þessir voru undirskrifaðir fyrir Íslands hönd, að það þurfi ekki að þvælast lengi hér í þingsölum eða nefndum.

Ég tel að hæstv. utanrrh. hafi gert góða grein fyrir þessu máli í sínu stutta yfirliti. Hann drap á öll helstu atriði og gerði grein fyrir þeim. Hér er um að ræða atriði sem koma að sjálfsögðu ýmsum mönnum á óvart, t.d. að það þurfi að taka inn í alþjóðasamþykkt ákvæði um að ekki skuli leyfa þrælahald. Utanrrh. vék að því, að það mundi enn vera til sums staðar. Og mér er það minnistætt að einu sinni þegar ég var á þingi Sameinuðu þjóðanna hafði einn af fulltrúum Arabaríkjanna býsnast mikið yfir skerðingu mannréttinda í tilteknu ríki og þá kom upp annar og upplýsti að í ríki þessa sama manns hafi þrælahald verið lögfest, það væri m.ö.o. leyfilegt lögum samkvæmt.

Margt fleira er í þessum alþjóðasamningum sem okkur, sem búum við mannréttindi á þeim sviðum, virðist ekki skipta miklu máli að því er okkur sjálf snertir. En eins og hæstv. utanrrh. sagði skiptir þetta gríðarlega miklu máli fyrir æðistóran hluta mannkynsins. Ég vona að það megi verða sem fyrst að Alþingi staðfesti þá a.m.k. samúð okkar með því fólki sem víða um heim verður að sæta skorti á mannréttindum og ýmiss konar ofsóknum í því sambandi.