22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

119. mál, alþjóðasamningar um mannréttindi

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa uppi langar umr. um þetta mál, en ég vil taka undir það sem fram hefur komið hér frá tveimur hv. þm. sem tekið hafa til máls, að ástæða er til að þakka hæstv. utanrrh. fyrir að bera upp þetta mál nú. Eins og fram kemur í grg. með þessari þáltill. voru þessir samningar undirritaðir fyrir um það bil 10 árum af hálfu Íslands, en þeir hafa ekki verið lagðir fram til fullgildingar fyrr en nú, og ég tel að það hafi verið tími til kominn.

Það má vel vera að einhverjir muni segja sem svo, að þessir samningar hafi ekki neitt sérstakt hagnýtt gildi fyrir okkur Íslendinga. Ég býst við að okkur finnist að okkar mannréttindamálum sé þannig komið að við þurfum ekki mikið af öðrum að læra. Ég skal ekki fara neitt út í þau efni, tel þó að í því felist mikill sannleikur að hér á Íslandi séu mannréttindi yfirleitt í heiðri höfð, og ég treysti mér vel til að rökstyðja það. A.m.k. eru þau meira í heiðri höfð en í mörgum öðrum löndum og með ýmsum þjóðum sem kannske mega sín meira en við. En ég tel að einmitt vegna þess, hversu þessum málum er vel komið í okkar landi, sé full ástæða til að við gerumst fullir aðilar að þessum samningum með því að fullgilda þá hér á Alþingi. Það er a.m.k. yfirlýsing um samstöðu með öðrum um þessa samninga sem fela í sér e.t.v. það besta sem gert hefur verið á alþjóðavettvangi í sambandi við samstöðu þjóða um mannréttindi, mannhelgi og þau réttindi sem lúta að einstaklingnum bæði efnahagslega séð og þó fremur mannréttindalega séð í hinni gömlu merkingu orðsins.

En sem sagt, ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram um þakklæti til hæstv. ráðh. fyrir að hafa lagt þetta mál fyrir Alþingi, og ég vona og veit að það muni ekki verða nein fyrirstaða á því að Alþ. samþykki þetta mál.