22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2724 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól fyrst og fremst til að þakka hv. flm. fyrir tímabæra till., — till. sem verður til þess að vekja athygli á miklu vandamáli. Þótt ég sé e.t.v. ekki mjög hrifinn af því sem hann sagði, að við ættum kannske að greiða 10% hærra verð fyrir innlendu framleiðsluna, þá held ég að þess sé ekki þörf. Það mætti auka sölumöguleika íslenskra afurða og íslensks iðnvarnings á ýmsan annan hátt. Mér er kunnugt um að bæði greiðslukjör, afhendingartími og ýmislegt fleira getur orðið til þess að stuðla að sölu íslensks iðnvarnings til opinberra aðila, ekki síður en það, hvort um einhvern smávægilegan mismun í verði sé að ræða. Það er mikils virði að skipta við íslenska aðila, vegna þess að bæði viðhald og endurnýjun verða oft auðveldari og hagstæðari og ekki síst vegna þess, að ef eitthvað er að vörunni, sem kemur í ljós síðar, þá er óspart fengin leiðrétting og leitað leiðréttingar hjá íslenskum aðilum, enda þótt slíkt sé nærri óhugsandi ef keypt er af erlendum aðilum.

En það er eitt sem mig langar til að vekja athygli á, hvað við erum illa settir í þessu efni. Það er það sem var að ske nú fyrir nokkrum mánuðum, að á sama tíma og íslensk iðnfyrirtæki hér í nágrenninu voru að hætta eða draga saman sína starfsemi vegna verkefnaskorts, þá voru íslensk stjórnvöld að semja um kaup á sömu vöru frá útlöndum. Hér á ég við Portúgalstogarana. Þegar Stálvík var í vandræðum með að hafa verkefni fyrir verkamenn sína og varð að fækka þeim til stórra muna voru íslensk stjórnvöld og urðu að semja við Portúgala um kaup á togurum, — og ekki nóg með það, heldur er talið mjög líklegt að vegna nýrrar hönnunar og umbóta í smíðum séu þeir togarar, sem hér er hægt að smíða nú, allt að 20% sparari á orku en jafnstór skip frá Portúgal sem nú er verið að smíða fyrir okkur. Þetta atriði út af fyrir sig et svo merkilegt að það er vel þess vert að hafa orð á því hér. Á sama tíma og íslensk stjórnvöld verða vegna sölu á afurðum okkar erlendis að gerá óhagstæð innkaup, kaupa hærra verði en innlendu framleiðsluna, a.m.k. jafnháu, af aðilum sem aldrei hafa smíðað slík skip fyrr, þá standa okkar ágætu iðnaðarmenn iðjulausir vegna skorts á verkefnum.

Við komumst aldrei hjá að gera okkur grein fyrir því, að við höfum hlutfallslega meiri útflutning en flestar aðrar þjóðir, sem þýðir að sjálfsögðu að við verðum mjög háðir öðrum í viðskiptum. En ég vildi vekja sérstaka athygli á þessu með skipin frá Stálvík, sem eru hönnuð af Íslendingi sem hefur verið langdvölum við skipasmíði í Svíþjóð, og fullyrt er af sérfræðingum að þau skip muni spara verulega í orkuvinnslu. Hér er sýnilega við mikla örðugleika að fást, því jafnvel undir slíkum kringumstæðum er ekki hægt að vinna verkið í okkar landi.