22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2728 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Stefán Jónsson beindi til manna fsp. um það, hver væri munurinn á starfshóp og nefnd. Mér skildist á þeim tengslum sem lágu til þessarar spurningar, að hann væri að kenna stjórnarandstöðunni um þetta orð sem nú er farið að tíðka mjög í þskj. og þingplöggum. Af því að ég er sanngjarn maður vil ég vekja athygli á því, að það var ekki fyrr en við valdatöku núv. ríkisstj. að verulega tók í hnúkana með notkun þessa orðs. Skýringin er að sjálfsögðu sálfræðileg. Það var búið að skopast æðimikið að nefndafargani í þjóðfélaginu og menn voru að létta af sér þunga þeirrar gagnrýni með því að breyta orðinu nefnd í starfshóp. Það var allt sem gerðist, held ég.

Ég verð að láta í ljós ánægju mína yfir því, að þegar ég kem í ræðustól í þetta sinn er ég að miklu leyti sammála hv. þm. Gunnari Thoroddsen. Þetta er mér alveg sérstakt ánægjuefni og mjög svo gleðileg tilbreyting. Það, sem hann sagði áðan um auglýsingar í sjónvarpi, var allt eins og talað út úr mínu hjarta. En ég spyr, — og ég verð að segja í því sambandi, að það er engin furða þó að hv. 1. þm. Reykv. sé búinn að kveðja sér hljóðs, — ég spyr: Hver ósköpin eru að gerast? Hvað er með allar kenningarnar um frjálsa markaðsþjóðfélagið og frjálsu samkeppnina? Kemur allt í einu upp úr dúrnum að þetta stenst ekki, þessar uppáhaldskenningar Sjálfstfl. standast þarna allt í einu ekki? Einn af forkólfum Sjálfstfl. stendur upp til þess a.m.k. að láta að því liggja að hann væri til viðtals um að setja einhvern hemil á þetta frelsi allt saman. Mæli hann manna heilastur.

Ég held að það hafi verið hann eða einhver annar, sem sagði reyndar: Ég er ekki endilega með því að fara að banna þessar auglýsingar. — Ég er ekki á því heldur að við eigum að fara að banna frekar einar auglýsingar en aðrar, þó að hitt verði náttúrlega að kanna, sem hv. þm. Stefán Jónsson sagði áðan, að hér sé um að ræða brot á lögum um útvarpsrekstur og auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi þar sem þetta fer að mestu leyti fram á útlensku og þar að auki sungið, eins og hv. þm. benti á. Ég skildi hann reyndar ekki þegar hann talaði um hvort menn vildu ekki taka höndum saman um að breyta hljómi þeirra auglýsinga til samræmis við eitthvað sem heyrði betur undir íslenska framleiðslu, þegar annar þm. var búinn að gera aths. um, að þetta væri raunverulega íslensk framleiðsla. Ég vona að það verði ekki farið að kyrja þetta yfir okkur eftir gömlum kvæðastemmum um ágæti Coca-Cola og Pepsí-Cola. En þó að ég telji e.t.v. ekki hægt að banna tilteknar auglýsingar fremur en aðrar eða það kynni að vera erfitt, þá er ég sannfærður um að þjóðhagslega séð, eins og áhrif þessara auglýsinga eru og hér er verið að tala um innlendan iðnað og keppni við hinn erlenda, væri mikill ávinningur að hætta algerlega við auglýsingar í sjónvarpi, þrátt fyrir allan gróðann sem stofnunin hefur haft, og við yrðum þá að borga þeim mun hærri skatt eða þeim mun hærri afnotagjald fyrir. Ég er sannfærður um að ef skyggnst væri í þessi mál, sem er að sjálfsögðu erfitt, yrði niðurstaðan sú, svo er níðst á innlendum iðnaði á þessum vettvangi. Og fyrir utan það sem heitir þjóðhagslegt, að maður tali nú ekki um sálubótina, sem yrði að því að losna við þessi ósköp: klukkutíma auglýsingar, þar sem keppast tveir risar gosdrykkjanna í heiminum, báðir bandarískir, Coca-Cola og Pepsí-Cola.

Coca-Cola-fólk er búið að syngja í heila mínútu með kertin í höndunum um að Coca-Cola sé „fhe real thing“. Mínútan mun kosta í sjónvarpi hátt í 180 þús. kr., svo að menn sjá hverjir möguleikarnir væru fyrir innlenda framleiðslu að keppa þarna. Síðan kemur álíka löng auglýsing frá Pepsí-Cola sett út í rokk, rokkútgáfa. Mér skilst að það sé skýringin á því, að Kínamenn eru að verða einhverjir mestu Pepsí-Cola-drekkendur í heimi. Þar hefur Pepsí-Cola slegið í gegn og ýmsir vilja þakka það einmitt þessari rokkútgáfu.

Sannleikurinn er sá, að raunverulega innlenda gosdrykki getum við að sjálfsögðu ekki framleitt meðan um er að ræða appelsínusafa og annað slíkt. En hinir gömlu, góðu drykkir okkar eru að sjálfsögðu alveg jafngóðir og þeir nýrri. Þeir hafa bara enga möguleika í samkeppninni. Þegar maður kemur einhvers staðar á ferð um landið og skortur er á gosdrykkjum, þar eru ekki eins margar tegundir og venjulega, þá eru þær tegundir, sem eftir eru, alltaf þessar sem auglýstar eru í útvarpinu, og ef ekki er nema ein tegund til, þá er það Coca-Cola.

Svo að maður leyfi sér að hafa í frammi svolítinn áróður: Egilsgosdrykkirnir gömlu eru að sjálfsögðu alveg jafngóðir og þessir nýju gosdrykkir og eflaust hollari, að maður tali nú ekki um þjóðlegheitin, þar sem framleiðslan er kennd við ekki óþjóðlegri persónu en þar er um að ræða. (Gripið fram í: Úr kjördæminu.) Já, og þar að auki úr Vesturlandskjördæmi.

Í sambandi við nauðsyn þess að efla innlendan iðnað var vikið að togarakaupum erlendis, og satt er það, að mikill verkefnaskortur er núna sums staðar, a.m.k. í járniðnaði, og ekkert vit í að vera að panta togarana úr höndum útlendinga þegar við getum smíðað þá sjálfir. Og nú kemur í sama stað niður og oft áður þegar maður á orðastað við hv. þm. Gunnar Thoroddsen, þá nefnir maður fyrirtæki sem heitir Grundartangi. Hv. þm. átti á sínum tíma mikinn þátt í að koma þeirri framkvæmd af stað. Nú er ég sannarlega ekki að mæla því fyrirtæki bót á neinn hátt, ég var á móti því frá byrjun og það þrátt fyrir að fyrir lægju allar þær glæsilegu áætlanir sem þá lágu fyrir um gróða af því, atvinnuaukningu o.s.frv., en það hafa óneitanlega orðið vonbrigði ýmsum þeim, sem trúðu áróðrinum um atvinnuaukningu og annað þess háttar, og þá sérstaklega iðnaðarmönnum, að tækin, útbúnaðurinn til þessarar verksmiðju hefur komið yfirleitt erlendis frá. Iðnaðarmenn á Akranesi hafa horft á bíla fara tugum saman upp bryggjuna. Skipsfarmar eftir skipsfarma hafa komið fullir með þessi tæki. Þessir iðnaðarmenn fullyrða að þeir hefðu getað smíðað þau sjálfir allflest. Um innlenda þátttöku þarna hefur eiginlega ekki verið að ræða, annað en að ágætt fyrirtæki á Skaga fékk það verkefni að girða lóðina, og það fylgdi með, að sú girðing hefði verið sett upp til að verja svæðið fyrir kommúnistum og sauðkindum, og mun víst hvort tveggja hafa tekist. (Gripið fram í.) Þetta er niðurstaðan af áhuganum á innlendum iðnaði í þessu sambandi, og fer ég þá ekki lengra út í þetta mál að sinni.