22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa fullum og einlægum stuðningi við þá till. sem hér er til umr., en geri mér jafnframt ljóst að hér er á ferðinni mál sem ekki verður leyst á örskömmum tíma og jafnvel ekki löngum tíma. Til þess liggja ýmsar ástæður sem ég mun ekki rekja hér. Hins vegar er aðalerindi mitt hingað í stólinn að taka þátt í þeirri umr. sem hefur hafist um auglýsingar í sjónvarpi á varningi sem keppir við íslenskan iðnvarning. Ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem hafa gagnrýnt þær auglýsingar sem nú sjást gjarnan í íslenska sjónvarpinu og jafnvel í íslensku dagblöðunum. Þetta mál hefur komið til umr. í útvarpsráði nú að undanförnu og mjög verið gagnrýnt hvernig ýmsar auglýsingar um erlendan iðnvarning og aðra vöru hafa komist í gegn og verið sýndar í sjónvarpi.

Ég tel að í mörgum tilvikum hafi verið hrotin þau lög eða þær reglur sem um auglýsingar í sjónvarpi gilda. T.d. er það mér mjög til ama að heyra verulegan hluta af auglýsingatíma sjónvarps á erlendu tungumáli og að íslenskan skuli eiga þar erfitt uppdráttar. Ég get ekki heldur sætt mig við auglýsingar — og vona að það verði ekki tekið sem atvinnurógur — um hreinlætisefni sem á að hafa þá eiginleika að koma brotnum hurðum á hjarir og gera við ýmsar skemmdir í húsnæði og eldhúsum manna. Reynsla mín af eldhússtörfum er sú, að uppúrsuða næst ekki af með þvottalegi, hversu góður sem hann annars er.

Við skulum hafa í huga að aðstaða íslensks iðnaðar til samkeppni við þau erlendu risafyrirtæki, sem þarna auglýsa, er mjög erfið. Í fyrsta lagi er það svo, að auglýsingafé þessara erlendu fyrirtækja er gífurlega mikið. Íslenskir umboðsaðilar fá auglýsingakostnaðinn endurgreiddan og geta þess vegna, ef erlendu fyrirtækin eru örlát, auglýst gífurlega mikið, eins og komið hefur fram um stöku vörutegundir. Ég held að þegar við tölum um þessar erlendu auglýsingar getum við sett íslensku dagblöðin undir sama hatt, því að þar gilda nánast alveg sömu lögmál. Það, sem er þó sýnu lakast, er að hér er um að ræða ríkisstofnun sem ber að gæta þess að verið sé að auglýsa raunverulega eiginleika vörunnar, en ekki tilhúna eiginleika. Á þetta hefur mjög skort. Þetta hefur verið tekið til umr. í útvarpsráði, og ég vænti þess fastlega að á þessu verði breytingar mjög fljótlega.

Ég held að það sé spurning sem menn verði að velta fyrir sér um auglýsingar ríkisfjölmiðlanna, hvort eigi að taka þá stefnu að hætta auglýsingum t.d. í sjónvarpi og jafnvel einhverjum hluta af útvarpsauglýsingum. Hér er á ferðinni talsvert mikið fjárhagslegt mál sem hver og einn verður að taka afstöðu til. Í fyrsta lagi liggur það ljóst fyrir, að með því að hætta auglýsingaflutningi í sjónvarpi og ég tala nú ekki um í hljóðvarpi, þá jafngildir það mjög verulegri hækkun á afnotagjöldum útvarps-og sjónvarpsnotenda og/eða hækkun á sköttum almennings.

Það er nú svo, að mjög verulegur hluti af rekstrarfé Ríkisútvarpsins er fenginn fyrir auglýsingar. Ef við gætum losnað við þennan hvimleiða þátt að mínu mati, sérstaklega í sjónvarpi, þá jafngildir það því að við verðum að hækka afnotagjöldin mjög mikið. Sama gildir um útvarpið að öðru leyti en því, að ég tel að ýmsar auglýsingar í útvarpi hafi verulegt þjónustugildi. Á ég þá einkum við atvinnuauglýsingar og aðrar auglýsingar sem bera það í sér að þær þjóna landsmönnum öllum og eru þess vegna mjög mikilvægar í landi þar sem samgöngur eru erfiðar. Ég held að á meðan stjórnvöld halda Ríkisútvarpinu í slíku fjársvelti að til verulegra vandræða horfir, eins og nú er, sé þetta ekki raunhæf hugmynd, nema þá stjóravöld finni leiðir til þess að skapa nýja tekjustofna fyrir Ríkisútvarpið. (Gripið fram í: Eða stytta útsendingartímann.) Eða stytta útsendingartímann, það er hugsanlegt. Þessi mál eru mjög á dagskrá núna, og það er kannske rétt, úr því að farið er að ræða um þennan þátt, að benda á að Ríkisútvarpið stendur nú frammi fyrir mjög alvarlegum vanda vegna þess hve tekjustofnar þess verða fyrirsjáanlega skornir niður. Það út af fyrir sig er mál sem Alþ. þyrfti að fjalla sérstaklega um. Að mínu mati er þar á ferðinni vandi sem snertir okkur alla mjög og við verðum að taka afstöðu til.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram vegna þeirra umr. sem hér hafa orðið og eru mjög tímabærar. Þetta hefur verið rætt í útvarpsráði og verður rætt áfram, og ég vænti þess fastlega að þær auglýsingareglur, sem nú gilda, en að mínu mati hefur verið farið á svig við, verði látnar verka að fullu á nýjan leik þannig að a.m.k. þessi þáttur komi ekki í veg fyrir að íslenskur iðnaður geti staðið í þeirri samkeppni sem hann verður að standa í gagnvart erlendum iðnvarningi.