22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

51. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir till. á þskj. 56, sem ég flyt ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni og fjallar um að Alþ. álykti að fela utanrmn. Alþingis að gera úttekt á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll og þá einkum og sér í lagi á fyrirtækinu Íslenskir aðalverktakar.

Ég vil fyrst í stað leggja á það þunga áherslu, að hér er ekki verið að leggja til sérstaka rannsóknarnefnd, þá tegund af rannsóknarnefnd sem hefur orðið mörgum hv. þm. þyrnir í augum, heldur er verið að leggja til að n., sem þegar er til og starfar þar að auki lögum samkvæmt allt árið, nefnilega utanrmn., taki að sér að annast þessa úttekt. Í annan stað sýnist mér frá þingskapalegu sjónarmiði að þetta mál þurfi ekki af þessum sökum nema eina umr. og að henni lokinni taki hv. Sþ. afstöðu til þess, hvort það feli utanrmn. að taka úttektina að sér eða ekki.

Nú ber að leggja á það þunga áherslu, áð tilgangur slíkrar úttektar er ekki að fella dóm í sjálfu sér, og þess vegna tel ég engan veginn rétt á þessu stigi málsins að fjalla um fyrirtækið Íslenska aðalverktaka, hvorki sögu þess né viðskiptahætti. Það er þó alveg ljóst, að um langt skeið — það mun vera um aldarfjórðungsskeið — hafa þessi viðskipti verið með nokkuð öðrum hætti en önnur viðskipti í landinu, vegna þess að þetta fyrirtæki hefur eftir ákveðnum leikreglum haft einokunaraðstöðu — ríkisverndaða einokunaraðstöðu — til þess að eiga viðskipti við svokallað varnarliðið í Keflavík.

Ég tel að það hafi ævinlega orðið umræðum um þennan rekstur til allmikils baga, að þeir hafa einokað þessar umr. sem fyrir fram er vitað að hafa mótaða afstöðu í öryggis- og varnarmálum Íslendinga, svo að umr. um þessi mál — þ.e.a.s. Íslenska aðalverkataka og þessa viðskiptahætti — hafa varla verið komnar á nokkurt skrið þegar inn í málið hafa blandast tilfinningalegar umr. um varnar- og öryggismálin vítt og breitt. Þarna hefur ekki verið greint glögglega á milli, með þeim afleiðingum að umr. um þetta hafa venjulega dottið upp fyrir. Í till., sem hér er lögð fram, kveður að því leyti við annan tón en kannske oft áður, að báðir flm. þessarar till. eru stuðningsmenn aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og yfir höfuð samvinnu við þær lýðræðisþjóðir sem okkur eru skyldastar landfræðilega og menningarlega. Og það er ekki kjarni þessa máls að blanda saman annars vegar afstöðu til öryggismála og hins vegar afstöðu og upplýsingum um þá viðskiptahætti sem þarna hafa verið stundaðir. Tilgangur þessarar till. er allur annar, sem sé að allur almenningur hafi um það fullnægjandi upplýsingar í smáatriðum, hvers konar viðskipti fara fram, einkum og sér í lagi að því er tekur til fyrirtækisins Íslenskra aðalverktaka, en skyldra fyrirtækja einnig, hvort koma megi þessum viðskiptum öðruvísi fyrir, hver eru raunverulega orðin efnahagsleg tengsl Íslendinga við veru varnarliðsins hér. Það er almenn lífsskoðun flm. beggja, að þeim mun meira sem almenningur veit um þessi mál, þeim mun minni leynd sem yfir þeim hvílir, þeim mun betra og þeim mun betur er allur almenningur í stakk búinn til þess að fella um það dóm að þessum viðskiptum skuli vera öðruvísi fyrir komið, og ef öðruvísi þá hvernig.

Í þessari till. til þál. er einnig lagt til, svo sem við höfum lagt til um aðrar svipaðar till., að úttektin fari fram fyrir opnum tjöldum, áhugafólki í landinu, sem er margt, gefist kostur á að fylgjast með upplýsingaöflun. Þeir, sem þessi viðskipti hafa stundað eða fyrir þeim staðið, munu auðvitað mæta hjá n. til að veita henni allar upplýsingar. Grundvallarhugmyndin á bak við þetta er sú einfalda lífsskoðun, að þeim mun meira sem fólk veit, þeim mun betra og þeim mun meira sem fólk veit, þeim mun líklegra er að fólk taki réttar ákvarðanir á lýðræðislegan máta.

Að því er tekur til þessara viðskipta hafa Íslenskir aðalverktakar og skyld fyrirtæki árum saman notið ríkisverndaðra viðskiptakjara. En hverjir eru eignaraðilar? Hversu mikill hefur þessi, ágóði verið? Með hverjum hætti rennur hann um samfélagið og út í samfélagið? Er hentugra að koma þessum viðskiptum öðruvísi fyrir? Mundi rannsókn leiða í ljós að við séum orðnir um of háðir þessum viðskiptum og þess vegna sé betra að vera án þeirra? Ég veit að margir hv. þm. eru þeirrar skoðunar, sem auðvitað er fullkominnar virðingar verð, og um það munu eftir sem áður vera skiptar skoðanir.

Samþykki hv. Alþ. þessa till. gerum við ráð fyrir að utanrmn. Alþingis muni þegar í stað, eða svo skjótt sem frekast er kostur, hefja störf að því er tekur til þessa. Á ekki mörgum vikum gætu legið fyrir fullnægjandi upplýsingar um allt sem að þessum viðskiptum lýtur og talsmaður utanrmn. mundi síðan gefa hv. Sþ. skýrslu um niðurstöðu þessarar úttektar. Heildaráhrifin yrðu m.a. þau, að upplýstari umr. en kannske oft áður gætu farið fram um þessi mál, og á því upplýstari grunni sem umr. um þessi mál hvílir, þeim mun betra er það yfir höfuð, þeim mun líklegra er að ákvarðanirnar verði skynsamlegar.

Ég vil leggja á það þunga áherslu, að þó að ég kunni að hafa mínar skoðanir á því, hvaða viðskipti fara þarna fram og með hverjum hætti þau hafa verið um allnokkurt árabil, þá er slíkt ekki kjarni málsins á þessu augnabliki, vegna þess að tilgangur úttektar utanrmn. á einmitt að vera að komast að niðurstöðu um það. Og ég vil skjóta því inn, að ég tel að það hafi allnokkuð spillt fyrir hliðstæðri till., sem flutt hefur verið um samgöngufyrirtæki, að kveðnir voru upp efnislegir dómar áður en Alþ. gerði upp við sig hvort slík nefnd yrði sett á laggirnar. Við reynum að forðast að falla í þá gryfju. Alþingi á að leggja á það hlutlægt mat, hvort til þessa sé ástæða, og í ljósi þeirrar niðurstöðu, sem síðan lægi fyrir, ætti Alþ. að vera betur í stakk búið en áður til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir um málið.