30.10.1978
Efri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

48. mál, félagsheimili

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Lög um Félagsheimilasjóð eða um félagsheimili, eins og þau heita víst, fjalla einvörðungu um stofnkostnað, að viðbættu ákvæðinu um Menningarsjóð félagsheimila. Það hygg ég að hafi verið þannig, að þetta ákvæði hafi verið sett inn í lögin eftir á. Þetta ákvæði um Menningarsjóð félagsheimila er ekki ítarlega útfært, og ég held að þær hugmyndir, sem fram koma í þeim frv. sem nú liggja fyrir þingi, fyrir báðum deildum — og ég hygg að það hafi komið fram frv. í þessa stefnu á þinginu í í fyrra, — ég held að þær hugmyndir séu alveg tímabærar og það sé æskilegt að setja fastari skipan á starfsemi þessa Menningarsjóðs félagsheimila en verið hefur. Úthlutun úr honum hefur verið á vegum menntmrn. Starfsmenn rn. hafa yfirleitt gert um það tillögur til ráðh. sem síðan hefur kveðið endanlega á um úthlutunina.

Ég er samþykkur þeirri stefnu sem fram kemur í þeim frv. sem hér hafa verið lögð fram.

Svo er aftur það sem hv. 5. þm. Vestf. minntist á áðan, hvort ástæða væri til að setja sérstaka stjórn yfir alla starfsemi Félagsheimilasjóðs. Þá kemur mér í hug að e.t.v. væri ástæða til að endurskoða þessi lög í heild sinni og þá spurning hvort það gefst nægilegt tóm til þess á þingtímanum að fara ofan í saumana á þeim. Nú er ég síður en svo að hafa á móti því að endurskoða þessi lög í heild, því meðan ég var menntmrh. velti ég þessu töluvert fyrir mér og við ræddum þetta innanhúss í rn., hvort það væri ástæða til að setja af stað endurskoðun þessarar löggjafar. Ekki varð af því, en það var ekki vegna þess að við endilega tækjum þá afstöðu, að þess væri ekki þörf, heldur bara varð ekki úr framkvæmdum að því leyti. En ég er ekki viss um að það væri rétt nema gefa sér rúman tíma til að endurskoða lögin í heild.

Eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Vestf., er tilhögun á lánveitingunum þannig, að um beiðni er fjallað í íþróttanefnd ríkisins, en hún er þannig saman sett, að í henni eru fulltrúar frá Ungmennafélagi Íslands, frá Íþróttasambandi Íslands og svo íþróttafulltrúi. Þessi n. gerir tillögur um afgreiðslu lána og styrkja úr Félagsheimilasjóði eins dg er, og ég varð ekki var við annað en það væri ágætt samstarf milli þessarar n. og þeirra sem í félagsheimilabyggingunum standa eða forstöðu hafa um þau mál heima fyrir.

Ég held að það sé í sjálfu sér ekki bráðaðkallandi að taka það atriði sérstaklega fyrir, þó að það kunni að vera skynsamlegt að endurskoða þessi lög í heild. Þetta kemur náttúrlega allt til skoðunar í þingnefnd og raunar þingnefndum, af því að það er annað frv. í Nd. og verður væntanlega athugað samtímis. Þetta er e.t.v. dæmigert um þörf á því að nefndir í báðum deildum starfi saman. Þegar koma hliðstæð mál fram í báðum deildum, þá er það viss bending um að það sé æskilegt. En þessi mál verða að sjálfsögðu öll skoðuð í n. Og svo er þriðja frv., sem ég flutti ásamt öðrum þm. varðandi 1. gr., að bæta þar inn einum lið í upptalninguna: sjómannastofum. Þetta verður þá allt skoðað.

Ég vildi láta koma fram, að ég álit þetta gott mál og sé orðið tímabært að setja fastari skipan á starfsemi Menningarsjóðs félagsheimila. Hann fær verulegt fjármagn, ég vil nú ekki fara með tölur um það, — en miðað við þá styrki, sem verið er að veita í menningarmálum, er það fjármagn verulegt og er náttúrlega mikið atriði að nota það skynsamlega. En öll þessi starfsemi, eins og fram kom hjá hv, flm., starfsemi hinna frjálsu félaga, er náttúrlega meira og minna fjárvana og því meir sem hún tekst á við stærri og vandasamari viðfangsefni.