26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2748 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal gjarnan segja örfá orð í tilefni af fyrirspurn hv. þm. Odds Ólafssonar.

Ég vil fyrst upplýsa það, að Þjóðhagsstofnun var falið það verkefni að gera úttekt á því, hvaða áhrif verðhækkanirnar á olíu og bensíni, sem eru sumar þegar orðnar og aðrar yfirvofandi, mundu hafa á okkar efnahagskerfi, þ. á m. á ríkisbúskapinn. Ekki hefur enn borist skýrsla frá Þjóðhagsstofnun um þetta, en ég hef fregnað það seinast að hún muni berast til ríkisstj. í dag og þá munu menn átta sig miklu betur á því, hvaða áhrif þessar hækkanir koma til með að hafa.

Ríkisstj. hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum og þar á meðal samþykkt, að fjmrn. og viðskrn. láti fara fram gagngera athugun á því, hvaða áhrif þessi mikla hækkun á olíuvörum er líkleg til að hafa á rekstrarafkomu ríkissjóðs. Þegar skýrsla hefur borist frá Þjóðhagsstofnun verða menn betur í stakk búnir til þess að kryfja þessi mál til mergjar.

Ég hef nú rétt til glöggvunar nokkrar upplýsingar frá fyrri árum um þessi mál.

Innflutningur á bensíni og olíum á árunum 1977 og 1978 varð samtals í krónum fyrra árið, 1977, 14 milljarðar 933 millj. kr. og aftur á árinu 1978 21 milljarður 167 millj. kr., hafði heldur dregið hlutfallslega úr innflutningi eða úr 12.3% af heildarinnflutningi í 11.5%. Þessar tölur sem auðvitað verða miklu hærri á yfirstandandi ári, gefa til kynna að hér er um að ræða feiknalega stóran þátt í innflutningi okkar. Þar af leiðandi hefur þessi olíukreppa — önnur olíukreppan sem nú ríður yfir hagkerfi okkar eins og annarra sem þurfa að flytja inn olíuvörur — mikil áhrif að sjálfsögðu á okkar efnahag. Tekjur ríkisins af innflutningi bensíns og olíuvara á árinu 1978 námu einhvers staðar á milli 4 og 5 milljarða kr. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um það á þessu stigi málsins, en það er einhvers staðar á milli 4 og 5 milljarða.

Vegagjaldið á núverandi fjárlögum fyrir árið 1979 nemur hvorki meira né minna en 7 milljörðum 483 millj. kr. En tekjur ríkissjóðs af innflutningi á bensíni eru bensíngjaldið, sem er markaður tekjustofn, eins og kunnugt er, og rennur til vegaframkvæmda, síðan eru söluskattur og tollur. Ég get upplýst um áhrifin sem sú bensínhækkun, sem þegar hefur orðið, hefur á tekjur ríkissjóðs á þessu ári.Ef borið er saman við þær forsendur sem fjárlögin ganga út frá virðast tekjur ríkissjóðs af tollum og söluskatti af bensíni munu geta hækkað um ca. 1100 millj. kr. á þessu ári, þ.e. af þeirri hækkun sem þegar hefur orðið. Það bendir auðvitað til þess hvað muni gerast síðar meir.

Ég er á þeirri skoðun, að ríkið eigi að sjálfsögðu ekki að hagnast á því að olíuvörur og bensín hækkar í verði. Hins vegar er ekki því að neita, að það þarf að meta á nýjan leik hvaða áhrif þessar breytingar kunna að hafa á tekjuöflun ríkissjóðs. Það gefur auðvitað auga leið, að þó að tekjur ríkissjóðs hækki vegna hækkunar á olíuvörum og bensíni, þá er hætt við að það dragi úr öðrum innflutningi og þar af leiðandi úr öðrum tekjum ríkissjóðs. Þetta þarf allt saman að athuga og er ætlunin að skoða það við þá athugun sem nú fer fram á vegum ríkisstj. um þessi málefni.