26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2750 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

Umræður utan dagskrár

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að taka svolítinn þátt í þessari umr. Mér finnst mjög nauðsynlegt að þetta mál komi inn í sali Alþingis. Ég ætla aðeins að leggja áherslu á að það er ekki verðhækkunin á bensíninu sem ég hef mestar áhyggjur af, þó að þar sé vissulega stórt vandamál fyrir marga. Ég hef meiri áhyggjur af afleiðingum þeirrar miklu hækkunar er þegar er komin og er væntanleg í sambandi við olíu til skipa og olíu til húsahitunar.

Það liggur alveg ljóst fyrir, að ef útgerð á ekki að stöðvast við þá miklu holskeflu sem gengur yfir í sambandi við olíuhækkunina þarf að gera mjög róttækar ráðstafanir. Eins er varðandi þau svæði hér á landi, sem búa við það ástand að þurfa að nota eingöngu olíu til húsahitunar, að þar hlýtur þetta að vera mjög mikið áhyggjuefni fyrir þá aðila sem við þær aðstæður búa. Talið er að sú hækkun, sem spáð er í sambandi við húsahitun, muni auka þennan kostnað jafnvel um allt að 100%. Það þýðir að þeir, sem bjuggu við það að þurfa að greiða um 700 þús. kr. á s.l. ári fyrir upphitun í húsum sínum, munu þurfa að greiða allt að 1.5 millj. á þessu ári með þeirri hækkun sem spáð er.

Ég vil sérstaklega undirstrika þetta atriði í sambandi við þá fyrirspurn sem hér hefur komið fram. Ég treysti því, að hæstv. ríkisstj. geri raunhæfar aðgerðir til þess að reyna að jafna út þennan mikla kostnað. Og ég fagna því, að fjmrn. og viðskrn. hafa verið að vinna að þessu máli, og vænti aðgerða í því á næstu dögum, eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh.