26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2752 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Fyrirspurn, sem hv. 4. þm. Reykn. kom hér með utan dagskrár, er vissulega orð í tíma töluð og má margt um þessi alvarlegu mál segja. Ég hafði kvatt mér hljóðs fyrst og fremst til að víkja að einum þætti þessara mála: olíunotkun til upphitunar húsa. Hv. 5. þm. Vesturl. og hæstv. fjmrh. hafa nú að nokkru tekið af mér ómakið í þessu efni. Þó vil ég nota þetta tækifæri til að leggja áherslu á þennan þátt málanna.

Ég tók eftir því, að hv. 4. þm. Reykn. sagði í upphafi síns máls að hækkun olíuverðs og bensíns hefði alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem þyrftu að aka langa leið til vinnu sinnar hér á Reykjavíkursvæðinu. Auðvitað er þetta rétt og í sjálfu sér ekkert við það að athuga. En ef og þegar olíuverðshækkunin kemur svona alvarlega við þá sem búa á hitaveitusvæðinu, hvað skyldu menn þá ætla um þá sem eiga ekki því láni að fagna, eins og er viða um landið. Það er ekki einungis að þar komi þessi aðstöðumunur fram, heldur eru það oft og tíðum ekki minni vegalengdir úti á landi, sem menn þurfa að aka, heldur en er hér á Reykjavíkursvæðinu.

Ég vil leggja áherslu á það, að við þá athugun, sem hæstv. fjmrh. segir að nú fari fram og muni haldið áfram, vegna olíuverðshækkunarinnar, verði upphitun húsa ekki síst tekin með. Ég þarf ekki að lýsa fyrir hv, þm. hve alvarleg upphitunarmálin eru hvarvetna í landinu þar sem fólk býr við olíuupphitun íbúða sinna. Og það er næsta furðulegt hvernig þetta ástand er í ýmsum efnum þegar nánar er að gætt. Það er einmitt á þeim svæðum, þar sem ekki er um að ræða notkun jarðvarma til upphitunar húsa, að leitast er við að nota annan innlendan orkugjafa, raforku frá vatnsvirkjunum. Nú er það svo víða og ekki síst í því kjördæmi sem ég er þm. fyrir, að vatnsorkan nægir hvergi nærri til að gegna þessum þörfum eins og er. Leitast er við að bæta úr því með keyrslu dísilvéla og olía er notuð til þess. Þá er það svo, að það þarf að greiða 20% söluskatt af olíu þeirri sem keypt er í þessum tilgangi, og það þarf enn á ný að greiða 20% af þeirri raforku sem framleidd er með þessari olíu ef hún fer til annarrar notkunar en upphitunar.

Þetta er mál sem ekki verður unað við lengur. Það má segja að það hafi áður verið knýjandi þörf á að breyta þessu. En ef þörf hefur verið áður, þá er það nauðsyn eins og nú er málum komið. Eins og ég sagði áður, er hægt að flytja langt mál um það málefni sem hv. 4. þm. Reykn. hefur hér innleitt til umr. En ég skal ekki gera það frekar, en ítreka það, að ég legg áherslu á að sú athugun, sem nú er gerð og fyrir dyrum stendur, nái til þessara mála í heild.