26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2760 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir fróðlegar og gagnlegar umr. um þetta mál. En mig langar til að vekja athygli á því, að í mínu upphafsmáli tók ég skýrt fram hvað það væri sem ég væri að vekja athygli á í sambandi við verðlagningu á bensíni. Það var að tollar, sem eru cif.-tollar og teknir í hlutfalli af verði á bensíni, og enn fremur söluskatturinn væru það sem ég áliti að þyrfti að taka til athugunar og lækka, en alls ekki sá hluti sem fer til vegamála. Ég geri mér ljóst að það er mál sem við þurfum að standa vörð um.

Hv. 1. landsk. þm. vék að því, að það væri allmikill munur á upphitun húsa með rafmagni og olíu, og ég hef alveg sömu reynslu úr mínu kjördæmi. Ég geri mér fyllilega ljóst að nú þegar er orðinn verulegur munur á því, a.m.k. víðast hvar um land. En það er annað sem spilar þarna líka mikið inn í og gerir alla dóma erfiða um þessi mál, og það er ástand húsanna. Ég held að það sé fyllilega ástæða til að það verði veitt alveg sérstök lán frá Húsnæðismálastofnun ríkisins til þess að endurbæta hús með tilliti til hitaeinangrunar. Það,gæti auðveldlega sparað mikinn orkukostnað.

Varðandi mál hv. þm. Stefáns Jónssonar um almenningsvagnanna vil ég halda því fram, að einkabíllinn sé þáttur í velmegun okkar og okkur beri ekki að fara til baka. Ég vil vekja athygli á því, að ef við flyttum okkur frá einkabílum yfir til almenningsvagnanna, þá þýðir það, a.m.k. þar sem um stuttar vegalendir er að ræða til vinnustaðar, lengri vinnutíma, og það þýðir enn fremur mjög vafasamar breytingar hvað snertir heilsufarslegt öryggi. Ég hef mikla reynslu af því, að það er erfitt að standa í biðskýlum í hvaða veðri sem er við okkar veðurfar og bíða eftir strætisvagni, og ég held að það sé mjög vafasamt að fara út á þá hraut. Hitt er svo annað mál, að mjög heilnæmt er að ganga á vinnustað og verður auðvitað gert í vaxandi mæli. En þar kemur aftur það sem ég gat um, að þau svæði, þar sem menn eiga marga km á vinnustað, eru verst sett í þessu efni.