26.02.1979
Efri deild: 59. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2763 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að ósk bæjarstjórnanna í Keflavík og Njarðvík. Báðar bæjarstjórnirnar hafa sent öllum þm. Reykjaness áskorun um að beita sér fyrir að felld verði úr fiskveiðilögunum síðasta mgr. 13. gr. laga nr. 81/1976, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimild þessi til veitingar dragnótaveiðileyfa skal ekki notuð að því er varðar veiðar í Faxaflóa.“

Þrátt fyrir óskir um að fella þessa síðustu mgr. úr lögum er ekki gengið lengra en það með þessu frv., að lagt er til að sömu lög gildi um Faxaflóa og aðra firði og flóa hér við land næstu tvö ár. Það er sem sagt svo, að þrátt fyrir þessi ströngu ákvæði hefur ráðh. ekki verið treyst fyrir Faxaflóa í þessum efnum. Ástæðan er flestum ljós. Fordómar einstakra manna í nokkrum byggðarlögum gegn þessu veiðarfæri hafa komið í veg fyrir að skarkolamiðin væru nýtt, þrátt fyrir aflahrun á þessu svæði, kvein um að efnahagur okkar þoli ekki að dregið sé úr þorskveiðum og síðast, en ekki síst stöðugt haldbetri sannanir fyrir því, að allt tal um skaðsemi dragnótar umfram önnur veiðarfæri er fjarstæða.

Ég vil ekki þreyta ykkur mikið með lestri, en það er nóg til af lesmáli um dragnót. Ég ætla — með leyfi forseta — aðeins að vitna í skýrslu Aðalsteins Sigurðssonar deildarstjóra flatfiskdeildar í Hafrannsóknastofnun sem hann sendi út í haust, en þar segir m.a.:

„Eitt af því, sem dragnót og botnvörpu hefur verið fundið til foráttu, er að þær gruggi sjóinn við botninn. Á þetta grugg að fæla fiskinn af miðunum, þar sem togað er, og jafnvel setjast í tálkn og drepa hann. Í fyrsta lagi mun of mikið gert úr því gruggi, sem dragnót veldur, ef dæmt er eftir . lýsingu, sem Guðni Þorsteinsson og Jóhannes Briem (1978) gáfu eftir könnun í Faxaflóa s.l. haust. Þeir segja:

Voðin sjálf sveif létt við botninn og snerti aðeins stöku bárutoppa. Sáust einungis smárispur eftir hana í sandinum á stöku stað. Ekki var að sjá neitt grugg fyrir aftan voðina, einungis mjög smáa sandhvirfla við fótreipið. Í öðru lagi mun fiskurinn ekki vera mjög viðkvæmur fyrir gruggi í sjónum.“

Að lokum ætla ég — með leyfi forseta — að hafa yfir lokaorð í skýrslu þessari sem hljóða svo:

„Ótrú manna á dragnót á að miklu leyti rót sína að rekja til ofnotkunar hennar og botnvörpu hér áður og fyrr og þá með allt of smáum möskva. Einnig vilja persónulegir hagsmunir blandast inn í dóm manna. Hér hefur hins vegar verið leitast við að skýra hlutlaust frá staðreyndum með það fyrir augum, að lesendur geti gert sér raunsæja hugmynd um dragnótaveiðarnar.“

Ég ætla ekki frekar að lesa upp úr þessari skýrslu, en mér fyndist eðlilegt að þeir, sem áhuga hafa á þessu máli, kynntu sér hana.

Það er ekki nóg með að við veiðum aðeins helming af því sem lagt er til að veitt sé af skarkolanum. Mikið af því, sem veitt er, er veitt á þeim tíma sem kolinn er lélegast hráefni, þ.e. þegar kolinn er genginn út. Hliðstæð vinnubrögð væru að hefja laxveiðar í september eða jafnvel ekki fyrr en laxinn fer að ganga niður.

Mest af þeim kola, sem við veiðum, er heilfryst. Það skásta fer á markað í Englandi, þar er hann þíddur upp, flakaður og frystur aftur. Þar með er hann orðinn annars flokks vara. Smávegis er uggaklippt og fer á Bandaríkjamarkað fyrir þokkalegt verð. En langstærsti hlutinn fer til Rússlands sem ruslfiskur.

Ört minnkandi fiskigengd hefur leitt til þess, að mörg frystihús á Suðurnesjum hafa hætt starfsemi, önnur eru rekin með litlum afköstum og reyndar spurning hve lengi sum þeirra þrauka. Þessu hefur fylgt nokkurt atvinnuleysi á sumrin, þegar mest framboð er á fólki, og á haustin, þegar afli er allajafna minnstur. En þetta er einmitt sá tími, sem skarkolinn er best fallinn til vinnslu og reyndar líka til veiða.

Nú er komin á markað mjög fullkomin flökunarvél sem gerir vinnslu á kola miklu hagkvæmari en áður. Þessi vél getur einnig flakað smáa grálúðu, en hún veiðist fyrst og fremst á vorin eða fyrri hluta sumars, þannig að með tilkomu kolaveiða einnig yrði samfelldur nýtingartími miklu lengri á þessum vélum, enda tæpast hagkvæmt að kaupa þær fyrir eins stuttan tíma og grálúðuveiðarnar standa. Svona vél var reynd við vinnslu í Sjöstjörnunni í fyrrasumar og reyndist mjög vel. Mér er kunnugt um að Útgerðarfélag Akureyringa á von á einni slíkri vél, Ísbjörninn hér í Reykjavík á von á einni, og ég held að Ísfirðingar og Súgfirðingar eigi von á sinn hvorri vélinni.

Hófleg veiði á skarkola úr Faxaflóa væri á bilinu frá 1400–1500 tonn og á Hafnaleir, sem þegar er reyndar opinn, er veiði líklega 400–500 tonn. Þetta eru tölur sem Aðalsteinn Sigurðsson hefur staðfest. Dragnótaveiðar á þessu svæði mætti stunda frá miðjum júní, og með vikustöðvun eða svo um verslunarmannahelgi mundu þessar veiðar standa fram eftir nóvember með því að skammta 90 tonn á viku. Sá skammtur væri nægilegt hráefni fyrir tvær flökunarvélar af þessari nýju gerð og um 30 manns mundu hafa vinnu við hvora vél. Ég tel að hæfilegt væri að 6 bátar eða svo stunduðu veiðarnar í senn og fengju þeir þá að veiða 15 tonn á viku hver. Eftirspurn eftir kolaflökum er mikil og verð gott ef varan er eins og markaðurinn vill fá hana.

Mér er ljóst að hér er hreyft máli sem oft hefur valdið deilum. Ég vona þó að svo sé komið, að flestir séu farnir að átta sig á að fjandskapur út í þetta veiðarfæri er ekki á rökum reistur. Tæknin hefur gert kleift að senda menn niður í sjóinn til að fylgjast með dragnótinni þegar veitt er með henni. Lýsingar þeirra ásamt ljósmyndum sanna rækilega að allt tal um skaðsemi dragnótaveiða er fjarstæða sé möskvinn nógu stór. Kvikmyndir hafa því miður ekki heppnast hjá okkur, en þær eru til annars staðar frá. Dragnót er ódýrt og gott veiðarfæri. Líklega er ekkert veiðarfæri hagstæðara til útgerðar. Íslendingar hafa þróað þetta veiðarfæri. Slysahætta, sem áður var veruleg samfara veiðum með dragnót, er nú síst meiri en með öðrum veiðarfærum. Dragnótaveiðar krefjast sérstakrar kunnáttu, jafnvel á hverju svæði um sig. Sú kunnátta varðandi Faxaflóa er nú óðum að glatast.

Í drögum að hafréttarsáttmála mun vera gert ráð fyrir að nýti þjóð ekki fiskstofn skuli öðrum látið eftir að nýta hann, og það væri kaldhæðni ef við ættum eftir að sjá Bretann koma hingað í Faxaflóann til að hirða skarkolann, eins og hann byrjaði á fyrst þegar hann kom.

Herra forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til sjútvn. Það má vera að það þurfi orðalagsbreytingar á því, þar sem út er komin reglugerð um möskvastærð sem talað er um í frv.