30.10.1978
Neðri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

39. mál, kjaramál

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar umr. var — frestað á síðasta fundi hafði ég flutt brtt., sem nú hefur verið dreift hér í hv. d., og í tali mínu, sem þeim fylgdi, hafði ég látið í ljós þá ósk, að hv. alþ. sýndi fólkinu í landinu meiri tillitssemi en höfundar þessa frv., sem til umr. er, hafa sýnt með smíði þess. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég hafði punktað niður ýmislegt af því, sem fram kom í máli hæstv. viðskrh. þá, sem ég hafði hugsað mér að svara, en ég er ekki með þessa punkta nema lítið eitt.

Hæstv. viðskrh. hélt því fram í ræðu sinni að frv. þetta um eignaupptöku, bæði lausafjár og fastafjármuna fólks, væri flutt af mikilli tillitssemi við fólkið í landinu. Ég vil enn draga í efa að svo sé. Ekki hefur þetta frv. aðeins vakið furðu vegna þess að það á að verka aftur fyrir sig í skattlagningu. Fólkið í landinu, eins og hæstv. ráðh. tók fram, bjóst við breytingum — eftir því sem hæstv. ráðh. sagði til bóta frá því sem áður hefði verið, það hefði komið skýrt í ljós við úrslit kosninganna. Þetta var innihald ræðu hæstv. ráðh. Ég vil taka undir, með því fólki, sem ég hef talað við, að þessar íþyngjandi aðgerðir, sem eru í vændum og verða líklega staðfestar hér þrátt fyrir brtt. til lagfæringar, eru aðgerðir sem ganga gegn réttlætiskennd þjóðarinnar almennt, hvort sem þær standast fyrir dómstólum eða ekki. Fólkið getur bæði hlegið og grátið. Ég vil segja að þjóðin sé hrygg, henni liði illa eftir að ráðstafanir ríkisstj. voru kunngerðar.

Það er engin furða, eins og hæstv. viðskrh. tók fram, að fólk flýti sér að kaupa það sem til er í verslunum og hægt er að kaupa, þrátt fyrir að kaupmátturinn sé eins núna og 1974, eins og hann minntist á. Hvernig á annað að vera? Í morgun rétt fyrir hádegið var gengið á sterlingspundi í bönkunum hér í bæ 639.70 kr. Þegar við komum úr mat var gengið á sterlingspundi orðið 647.50. Það er eins gott að ríkisstj. fari ekki í mat, ef hún er að dunda við gengislækkun í matartímanum.

Hæstv. viðskrh. tók líka fram, að það væri stór spurning og vafamál hve mikið fé ætti að nota í verslunarrekstur, eins og hann orðaði það. Álagning til fyrirtækja er núna 18–19% af þjóðarframleiðslunni, ef ég fer rétt með. En það stangast svolítið á við aðgerðir ríkisstj., því að þrátt fyrir þessa álagningarprósentu hefur blasað við alveg fram að helgi að fyrirtækin eigi frekar að loka en halda áfram að útvega fólki atvinnu, sbr. hið nýleysta vandamál smjörlíkisgerðanna og gosdrykkjaverksmiðjanna. Þar lét ríkisstj. undan þrýstingi, ekki vegna þess að hún væri sannfærð um að hún væri að gera rétt, heldur vegna þess að sú staðreynd blasti við, að atvinnureksturinn þolir ekki lengur aðgerðir ríkisstj., hann þolir ekki lengur skilningsleysi stjórnvalda, og frekar en að fá á atvinnuleysismarkaðinn það fólk, sem vinnur í þessum verksmiðjum sem ég gat um áðan, lét ríkisstj. undan og hækkaði álagninguna.

Ég held að það sé löngu augljós staðreynd, að atvinnureksturinn er að sligast undan þeim álögum, sem á hann eru lagðar af opinberum aðilum, og þrátt fyrir að ég hafi kannske einn sjálfstæðismanna, a.m.k. í Ed., staðið á móti skyldusparnaði á atvinnurekstur og skyldusparnaði yfirleitt, þá flyt ég hér brtt. um skyldusparnað í staðinn fyrir eignaupptöku. Slíkt er að skömminni til skárra, þó að það sé afleitt að fólk skuli ekki af nokkru öryggi geta ráðstafað tekjum sínum eða tekjuafgangi, þegar ríkið hefur lagt á slíkt sem það hefur talið eðlilegt til að standa undir allt of þungri yfirbyggingu, sem fulltrúar hvers einasta stjórnmálaffokks hafa talað um að minnka fyrir allar kosningar.

Hæstv. viðskrh. var ekki með neinar nýjar fréttir, þegar hann lýsti því yfir, að hann væri stuðningsmaður ríkisstj., sem hann situr í, í þessum álagningarmálum. Og hann hélt því fram, að hin nýja skattgreiðsla kæmi fólkinu í landinu til góða. Ég stórefast um að það komi nokkrum til góða, hvorki fyrirtækjum né fólkinu í landinu, að fyrirtæki og atvinnurekstur séu þannig svelt að hvorki sé nægilegur arður til þess að standa undir launagreiðslum frá einum launagreiðsludegi til annars, hvað þá að hægt sé að standa undir eðlilegum fyrningum og endurnýjun og þannig áfram. Aðgerðir ríkisstj., sem fóru að vísu út um þúfur í þetta sinn, komu fólkinu síður en svo til góða.

Það er annað, sem kom fram í ræðu hæstv. viðskrh., sem ég vil leyfa mér að draga í efa, að það hafi verið pólitískur áfangasigur verkalýðshreyfingarinnar þegar Alþb. komst í þá sterku stjórnaraðstöðu sem það er í. Ég dreg líka í efa að að sé einhver viljayfirlýsing kjósenda um stefnu Alþb. Ég held að hér sé um stóralvarlegt mál að ræða fyrir okkur öll. Sigur lýðræðisflokkanna í síðustu kosningum var áberandi mikill, miðað við þau orð sem hafa fallið hér frá talsmönnum Alþb. Lýðræðisflokkarnir fengu 46 menn kjörna af 60, en Alþb. aðeins 14 þm. Það eru hlutföllin hjá þjóðinni. Það er svo ógæfa okkar hinna, að við skulum ekki ná saman í stjórnarsamvinnu, lýðræðisflokkarnir, en það, sem enn þá verra er, er að Alþb. — þrátt fyrir að stefna þess er ekki studd nema af tiltölulega litlum hluta þjóðarinnar — skuli vera ráðandi um stefnu ríkisstj. Þar eru hlutföllin öfug um vilja kjósendanna. Það tel ég mjög alvarlegt mál. Og því segi ég aftur: Er nokkur furða þótt þjóðin sé hrygg og bíði eftir því að fá að endurskoða afstöðu sína til stjórnmálaflokkanna? Og ég verð að vona, að það verði mjög fljótlega.