26.02.1979
Neðri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2768 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

117. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta var upphaflega á þskj. 134 og flutt hér í Nd. af hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, Jóni Baldvin Hannibalssyni, Kjartani Ólafssyni, Páli Péturssyni og Lárusi Jónssyni. Frv. var samþ. óbreytt úr þessari d. nokkru fyrir jól og sent hv. Ed. Þar var gerð breyting á frv. og er það nú, svo breytt, prentað á þskj. 376. Frv. fjallar um breytingar á lögum um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, þess efnis, að stjórn sjóðsins sé heimilt að greiða bætur ef um er að ræða veiðar sem farið hafa fram á tilteknu veiðisvæði og hafa verið stöðvaðar, t.d. vegna hrygningar nytjafiska eða hættu á seiðadrápi.

Þær einu breytingar, sem gerðar hafa verið á þessu frv. í hv. Ed., eru að greiðslur bóta skuli í meginatriðum við það miðaðar að útgerðarmaður sleppi skaðlaus af greiðslu kauptryggingar og að sjóðsstjórnin eigi við ákvörðun bóta samkv. breyttum lögum að hafa hliðsjón af því, hvort friðunin hafi verið ákveðin fyrirvaralaust eða fyrirvaralítið, þannig að eigendur viðkomandi báta hafi ekki getað gert ráðstafanir til veiða með sömu eða öðrum veiðarfærum á öðrum veiðisvæðum með svipuðum árangri.

Sjútvn. þessarar hv. d. hélt fund í morgun og féllst þar á að mæla með samþykkt frv. eins og það kom frá Ed., þó svo að ýmsir hv. nm. í sjútvn. hafi látið í ljós þá skoðun, að sú breyting, sem hv. Ed, gerði á frv., hafi ekki verið til sérstakra bóta.