26.02.1979
Neðri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

73. mál, samvinnufélög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að tala meira um þetta mál en ég gerði á fimmtudaginn, en ástæðan til þess, að ég bað um orðið á nýjan leik, er ræða sú sem hv. 4. þm. Vesturl. flutti hér. En vegna þess að ég er kominn í ræðustól og vegna þess sem hv. 1. flm. frv., 2. landsk. þm., sagði hér, þá ætla ég að víkja ofurlítið nánar að þessu frv.

Ég skal ekki fara að deila við hv. 7. þm. Reykv. um jarðsamband eða jarðsamband ekki eða festu í málflutningi, að honum sé það lagnara en öðrum hv. þm. að hafa festu og rólegheit í málflutningi sínum. Ég tel mig ekki vera færan um að meta það því að það getur verið matsatriði eins og fleira.

En eitt vil ég segja í sambandi við þetta frv., sem er aðeins ein grein, þar sem er breytt 32. gr. laga um samvinnufélög. Ef þessi grein er tekin, eins og hér er gert, úr sambandi við önnur ákvæði samvinnulaganna, þá verður þar ýmislegt eftir sem ekki — að mínu mati a.m.k. — hæfir eftir að væri búið að gera slíka breytingu. Með leyfi hæstv. forseta, segir svo í 31. gr. í VI. kafla laga um samvinnufélög:

„Æðsta vald í sambandsmálum er í höndum fulltrúafunda. Fulltrúar eru kosnir af félögum þeim, sem eru í sambandinu, og fer tala þeirra, er hvert félag má senda á sambandsfund, eftir tölu félagsmanna.“

Ef þessi grein stendur óbreytt, sem á að ákvarða æðsta vald í málefnum samvinnufélaga, eftir að búið er að breyta 32, gr. og svipta félagsfund samtakanna rétti til þess að kjósa stjórn samtaka sinna, þá skil ég ekki að það standi óhaggað að fulltrúafundir fari með æðsta vald samvinnufélaganna. Þess vegna tel ég að það hafi verið rétt sem ég sagði hér um daginn, að til þess að breyta löggjöf eins og þessari þyrfti að endurskoða lögin í heild og gefa sér tíma til þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Og þó að hv. 2. landsk. þm., sem er lögfræðingur eins og kom greinilega fram í ræðu hans s.l. fimmtudag, teldi sig bera betra skyn á slík mál en við hinir þm., sem ekki höfum notið þess arna, þá hlýtur hann að átta sig á því, að til þess að löggjöf sé sæmilega úr garði gerð verður að taka tillit til fleira en eins atriðis. Með slíkum vinnubrögðum er 31. gr. þessara laga gerð algerlega hjáróma. Þess vegna er eðlilegt ef á að breyta löggjöf eins samvinnulöggjöf sem og annarri heildarlöggjöf', hvort sem er félaga eða annarra mála, að endurskoða löggjöfina í heild, nema fyrir sé tekinn þá sérstakur þáttur og þá hefði þurft að taka fyrir VI. kaflann í heild. Það hefði verið hægt að hugsa sér það.

Út af hinu, sem þessir hv. þm. ræða um, sambandinu við fólkið, sem þeir telja sig vera sérstaka boðbera fyrir, þá dreg ég í efa að þessi breyting mundi verða þess valdandi að meira samband væri á milli forustumannanna og fólksins en eftir því kerfi sem nú er. Hitt tek ég undir, að það er eðlilegt þarna eins og víðar að koma við atvinnulýðræði með setu einhverra manna, sem kosnir eru sérstaklega af starfsfólkinu, á stjórnarfundum, enda er mér næst að halda að þannig sé farið að vinna í Sambandinu. Ég skal ekki fullyrða að svo sé, þó ég telji mig hafa nokkra vitneskju um það, en ekki þó það góða að ég geti fullyrt það. En slíkt tel ég eðlileg vinnubrögð og tel reyndar eðlilegt að það gerist með samkomulagi innan þeirra félaga og stofnana sem um er að ræða.

Eins og þetta er nú er það þannig í hinum einstöku kaupfélögum landsins, sem mynda Samband ísl. samvinnufélaga, að þau eru deildaskipt, nema minnstu kaupfélögin. Aðalfundur fer með mál þeirra og allir þeir, sem eru félagsmenn í kaupfélaginu, geta mætt á honum. Þetta hefur ekki verið talið framkvæmanlegt nema hjá hinum ýmsu stóru kaupfélögum. Hins vegar er það svo, að í deildunum — ég veit að svo er a.m.k. í Kaupfélagi Borgfirðinga, þar sem ég þekki best til — mætir kaupfélagsstjórinn á öllum deildarfundum. Þar segir hann frá starfsemi kaupfélagsins á liðnu ári og gefur þær upplýsingar sem óskað er eftir að gefnar séu. Yfirleitt má segja um þessa fundi, að þeir séu vel sóttir. Hver einasta deild í Kaupfélagi Borgfirðinga, sem er með stærstu kaupfélögunum, kýs sína fulltrúa sem mæta á aðalfundi þess. Þessi fundur fær svo heildarskilagerð kaupfélagsstjórans og stjórnarformannsins og fram fara almennar umr. Þessi fundur stendur venjulega tvo daga og þar eru mál fyrirtækisins rædd og skýrð. Fulltrúarnir fá prentaða skýrslu um starfsemina á liðnu ári og geta fylgst með þeim málum eins vel og þeir frekast hafa áhuga á, auk þess sem Kaupfélag Borgfirðinga gefur út blað þar sem það gerir grein fyrir starfsemi sinni. Þessi aðalfundur kýs svo stjórn kaupfélagsins og fulltrúa á aðalfund Sambandsins.

Það þarf enginn að segja mér, að betra samband yrði milli félagsmannanna t.d. í Kaupfélagi Borgfirðinga ef ætti að fara að kjósa fyrir sambandið, eins og hér er lagt til, heildarstjórn af öllum félagsmönnum samvinnufélaganna um allt land og halda að með þeim hætti væri verið að auka lýðræðið innan samvinnufélaganna. Haldið þið að þessir fulltrúar væru þá nær félagsmönnum í hinum einstöku kaupfélögum en þeir eru nú? Á það verður svo að líta, að Sambandið er samband kaupfélaganna, hinir einstöku félagar í því eru kaupfélögin sem eru innan vébanda Sambandsins. Og aðalfundur kaupfélaganna kýs fulltrúa á aðalfund Sambandsins og svo er kosin stjórn Sambandsins.

Ég er alveg sannfærður um að kerfið, sem slegið er fram í þessu frv., — sem er, eins og ég áðan sýndi fram á, afskaplega illa undirbúið, fráleitt sem lagagerð að rjúka í eina grein í heilum lagabálki og taka hana út úr án þess að athuga nokkuð samhengi hennar við aðrar greinar laganna, — yrði síður en svo til þess að tengja betur saman félagsmennina og yfirstjórnina, enda er ég sannfærður um að hv. flm. gera sér ekki grein fyrir þessu, kynni þeirra af starfsemi kaupfélaganna séu ekki meiri en svo, að það sé varla von að þeir geri sér grein fyrir þessu. Ég sagði í ræðu minni um daginn, að kaupfélögin væru mikils virði hinum einstöku byggðarlögum. Ef slík breyting væri gerð á samvinnulögunum, — út af fyrir sig er ekkert athugavert við að endurskoða þau lög, en það verður að gerast með eðlilegum hætti, — þá mundi þetta færast inn á hið almenna félagsform, en ekki ná bara til þessa eina þáttar. Eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, 10. þm. Reykv., mundi koma upp krafa um þetta hjá ASÍ eins og öðrum félagssamtökum. Það er ekki hægt að halda því fram, að ASÍ séu ekki hagsmunasamtök eins og kaupfélög. Hvort tveggja eru hagsmunasamtök. Þau eru stofnuð í þeim tilgangi að bæta stöðu þess fólks sem er þar félagsmenn, á sviði verslunar og atvinnurekstrar hjá kaupfélögunum og kjaramála hjá ASÍ-félögum. Það væri ekki auðvelt að færa það kerfi til baka ef menn vildu hlaupa til og breyta. Mér virðist hv. flm. telja að það sé íhaldssemi, afturhald og skilningsleysi hv. þm. ef þeir vilja ekki gleypa svona lummur alveg glóðvolgar. En ég held að hv. þm., sem ekki er óeðlilegt, þyrftu að kynna sér eðlileg vinnubrögð við lagasetningar betur en þeir hafa lært í Háskólanum til þess að skilja að slík málsmeðferð væri mjög óeðlileg.

Nú skal ég ekki eyða lengri tíma í flm. Það út af fyrir sig, að þeir hafi farið í gegnum prófkjör er ekki nýtt. — Það höfum við fleiri gert og það áður en Alþfl. fann upp að það mundi verða lífsakkeri hans að láta fólk úr öðrum flokkum kjósa sig. En það er annað mál sem ég ætla ekki að fara að ræða hér.

Eins og ég sagði áðan var það ræða hv. 4. þm. Vesturl. sem gerði að verkum að ég fór að biðja um orðið aftur. Ég hafði raunar ætlað að láta mér nægja það sem ég sagði um efni málsins um daginn, þó að ég hafi af skiljanlegum ástæðum skýrt betur lagasetninguna en ég gerði þá, að gefnu tilefni frá hv. 1. flm. En það, sem kom mér á óvart, var ræða hv. 4. þm. Vesturl. Nú held ég að það hafi verið háttur okkar þm. á Vesturlandi að gera mál okkar upp heima fyrir í héraði, en ekki tala um sérmál kjördæmisins á hv. Alþ. Hjá því verður þó ekki komist, fyrst hv. 4. þm. Vesturl. kaus að fara að víkja að Kaupfélagi Borgfirðinga eins og hann gerði. Hann taldi m.a.s. að ekki væri nóg að gert með flutningi þessa frv., meira þyrfti að gera ef vel ætti að fara. Um það ætla ég ekki að fara að ræða við hann, heldur það sem hann nefndi sérstaklega um Kaupfélag Borgfirðinga.

Ég hélt að hv. 4. þm. Vesturl. væri það kunnugur í því héraði að hann vissi hvað Kaupfélag Borgfirðinga er mikill burðarás — svo að ég noti aftur það orð sem fór í taugarnar á honum — uppbyggingar og framfara í byggðarlagi okkar. Held ég að óhætt sé að segja að það sé öllum félagsmönnum yfirleitt ljóst.

Hv. 4. þm. Vesturl. nefndi hér sérstaklega það, að Kaupfélag Borgfirðinga léti flytja Tímann með bílum sínum. Nú er mér að vísu ljóst að hv. 4. þm. Vesturl. hefur ekki lagt mjög mikla vinnu í að kynna sér mál héraðsins. En ég hélt að hann væri svo kunnugur, að hann vissi að almennur póstur, sem borgað er fyrir hjá póststofnuninni hér, er fluttur með mjólkurbílunum á félagssvæði Kaupfélags Borgfirðinga, þar til á næstsíðasta ári eða svo var póstur eingöngu fluttur þannig. Þá var aftur tekinn upp flutningur á milli skólanna, viss hringur, sem annast Hvanneyri, Varmaland og fleiri slíka staði hvað varðar flutninga á pósti. Að öðru leyti er póstur fluttur, hvort sem það eru bréf frá hv. 4. þm. Vesturl., 1. þm. Vesturl. eða blöð sem gefin eru út af stjórnmálaflokkum eða öðrum aðilum, með öðrum pósti og ekkert greint á milli. Sumir aðilar, sem gefa út hlöð, koma þessu fyrir á annan veg, en það er þeirra mál. Og Kaupfélag Borgfirðinga ræður engu um hvaða gjald er tekið fyrir flutning á blöðum. Það er póststjórnin sem það gerir.

Þá talaði hv. 4. þm. Vesturl. um fyrirgreiðslu Kaupfélags Borgfirðinga við bændur. Hún er mikil. Það er ekki hægt að efa. En fyrst og fremst er hún að ósk bændanna sjálfra og þeim í hag. T.d. greiðir Kaupfélag Borgfirðinga yfirleitt raforkureikninga fyrir bændur í héraðinu. Það er ekki af því að það hafi beðið um að fá að gera þetta, heldur af því að hinir telja sér það hagkvæmt. Það greiðir einnig olíureikninga án þess að það sé bundið við hvaða olíufélag hafi selt olíuna; það er alveg sama hvort það er Olíufélagið, Skeljungur eða Olíuverslun Íslands. Þetta er gert eftir ósk þeirra viðskiptamanna sem eru kaupfélagsmenn og eru í viðskiptum við Kaupfélag Borgfirðinga. Sama er að segja um tryggingagjöld. Þau eru einnig greidd af Kaupfélagi Borgfirðinga ef menn óska þess. Það er einnig svo, að sýslumaðurinn í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu tekur mikið af þinggjöldum hjá Kaupfélagi Borgfirðinga af viðskiptamönnum þess samkv. beiðni þeirra og góðu samkomulagi þarna í milli.

Eina blaðið, sem Kaupfélag Borgfirðinga greiðir fyrir án þess að hafa verið sérstaklega beðið um að gera það, er Samvinnan. Að öðru leyti hefur það ekki greitt til dagblaða, nema eftir beiðni viðkomandi kaupanda, og er Tíminn engin undantekning. Það hefur ekki neitað um greiðslu ef það hefur verið beðið um það, vegna þess að það annast þá fyrirgreiðslu fyrir viðskiptamenn og félagsmenn sem óskað er eftir. Sama er að segja um viðskipti þeirra hjá sparisjóðnum í Mýrasýslu, hvort sem er greiðsla inn á ávísanareikning eða hlaupareikning viðkomandi manns eða önnur viðskipti. Slíkt hefur þetta fyrirtæki annast og gert um langan tíma. M.a. hefur því verið það kleift af því að það er fjárhagslega vel rekið og nýtur trausts viðskiptamanna sinna og félagsmanna og vill fyrir þeim greiða.

Þetta vil ég taka fram vegna hinnar hálfkveðnu vísu í ræðu hv. 4. þm. Vesturl. um Tímann, Framsfl. og Kaupfélag Borgfirðinga. Ég hygg að hv. 4. þm. Vesturl. hafi, eins og aðrir sem hafa átt samstarf við Kaupfélag Borgfirðinga, á engan hátt undan því að kvarta. Mér þykir því miður, að það skuli vera farið með slík mál í hálfkveðnum vísum á hv. Alþ. eins og hv. 4. þm. Vesturl. gerði.

Hv. 4. þm. Vesturl. fór í framhjáhlaupi að tala um greiðslur á afurðum til bænda vegna uppáskriftar á þáltill. sem hann taldi sig hafa verið hálfsnupraðan fyrir. Það hlýtur að vera á hans eigin flokksheimili að slíkt var gert. Það er aftur skoðun mín, að þeim málum væri síst betur fyrir komið, ef farið væri inn á þá braut sem hann var að leggja til. Að sumu leyti held ég að þar hafi verið um misskilning að ræða. Nú um alllangt árabil hefur Kaupfélag Borgfirðinga greitt bændum, sem leggja inn sauðfjárafurðir, 85% í nóvembermánuði hvert ár. Það hefur svo verið líka vaxtafært sem ógreitt hefur verið frá 1. jan. næst á eftir innleggi. Það hefur verið gert að mestu upp í maí, þegar uppgjörslánin hafa komið, og þannig hefur að mestu leyti verið búið að ná grundvallarverði. Það hefur náð grundvallarverði til bænda um langt árabil, lengur en ég man raunverulega aftur. Þegar það hefur verið búið að greiða uppgjörslánin að vorinu hefur venjulega verið búið að greiða allt að 95–97% af afurðaverðinu. Rekstrarlánin, sem það fær seinni part vetrar og á vorinu og sumrinu, eru færð beint inn í viðskiptareikning bænda um leið og þau berast. Nautgripakjötið, sem lagt er inn, er borgað fullu verði í sama mánuði og inn er lagt. Þannig hefur þetta verið hjá Kaupfélagi Borgfirðinga og mundu engar umbætur á þessu verða, nema síður sé, þó að breytingin, sem hv. 4. þm. Vesturl. skrifaði upp á, hefði orðið að raunveruleika. Hins vegar er það svo hjá samvinnufólki þarna, að það vill samhjálp. Þess vegna hefur það sameiginlega stöðu með hjálp Kaupfélags Borgfirðinga til þess að hægt sé að styðja við bakið á þeim sem illa eru settir og hjálpar þurfa við.

Það er alveg sama hversu hv. 4. þm. Vesturl. reynir á hv. Alþ. að hnýta í Kaupfélag Borgfirðinga, eins og hann gerði hér s.l. fimmtudag, það verður honum aldrei til neins sóma eða ávinnings. Leikritahöfundurinn Jónas Árnason getur náttúrlega samið leikrit um að reyna að færa jólin til, þó erfitt muni reynast. Það á hann að gera. En hv. 4. þm. Vesturl. verður eins og aðrir hv. þm. að halda sig við staðreyndir, og breytir engu þó þeir vilji með hálfkveðnum vísum láta skína í aðra framkomu á vegum Kaupfélags Borgfirðinga en raunveruleikinn segir til um.