27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2789 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég hef í dag kvatt mér hljóðs utan dagskrár af ástæðu sem ég tel vera brýna, þó svo hv. þm. kunni e.t.v. að greina á um tilefnið. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forseta fyrir umburðarlyndið. Jafnframt vil ég beina orðum mínum til hans, vegna þess að í dag hefur verið dreift á borð hv. þm. þáltill. sem felur í sér að Alþ. skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að þegar í stað fari fram þjóðaratkvgr. um frv. það um langtímaráðstafanir í efnahagsmálum, sem hæstv. forsrh. lagði fram og kynnti í ríkisstj. hinn 12. febr. s.l. Jafnframt álykti Alþ. að fela ríkisstj. að gera og undirbúa ráðstafanir til að fresta þeim breytingum í efnahagskerfinu, sem verða eiga í tengslum við i. mars n.k., uns niðurstöður í þessari þjóðaratkvgr. liggi fyrir.

Bregðist Alþ. skjótt við og samþykki þessa till. til þál., þá verður það að gerast fyrir 1. mars, og jafnframt verður ríkisstj. skjótlega að láta undirbúa lagasetningu sem formlega er ákaflega einfalt mál, raunar aðeins ein setning, sem feli í sér að efnahagsbreytingunum, sem verða eiga í tengslum við 1. mars, verði frestað þar til niðurstöður í þessari þjóðaratkvgr. liggi fyrir.

Það er augljóst, að til þess að þessi till. nái efnislega fram að ganga þarf Alþ. að afgreiða till. fyrir 1. mars, þ.e. á tveimur næstu dögum. Fyrst þarf því að leita afbrigða hjá hv. Sþ. til þess að þessi till. fáist rædd, og er þess hér með farið á leit við hæstv. forseta Sþ., að hann leiti slíkra afbrigða. Það er síðan Alþingis að samþykkja eða synja till. sem slíkri.

Ég vil færa nokkur rök fyrir þessari till. Öllum má vera um það kunnugt, að núv. ríkisstj. tók við miklu ófremdarástandi í almennum efnahagsmálum á s.l. hausti. Hér geisaði verðbólga, atvinnuvegir voru við að stöðvast, skuldasöfnun erlendis komin á hættulegt stig og svo má lengi telja. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir það að ríkisstj. var mynduð í byrjun sept. á síðasta ári, raunar undir fallandi holskeflu nýrrar verðbólguskriðu, hefur enn ekki náðst samkomulag um skipulegar aðgerðir í efnahagsmálum í því skyni að ná verulegum tökum á þeirri óðaverðbólgu sem hér hefur geisað um alllangt skeið. Þvert á móti eru það niðurlagsákvæði í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj., að hann skuli endurskoðaður árið 1979, þ.e. á þessu ári. Sýnir þetta ásamt öðru að höfundar og guðfeður núv. ríkisstj. voru sér þess fullkomlega meðvitaðir, að þetta var bráðabirgðaríkisstj. sem framkvæmdi bráðabirgðaráðstafanir. Það var tjaldað til einnar nætur.

Það voru gerðar bráðabirgðaráðstafanir 1. sept. og aftur 1. des. Þær byggðust fyrst og fremst á því, að nokkrar beygingar og sveigingar voru gerðar á kaupgreiðsluvísitölu, en aðrar meginbreytingar á efnahagskerfinu voru ekki gerðar. Í hvort skipti var það haft á orði, að í lok næsta þriggja mánaða tímabils skyldi stefnt að heildstæðum efnahagsráðstöfunum til lengri tíma. Af því hefur ekki orðið. Þvert á móti nálgast nú 1. mars óðfluga og svo virðist stefna að ekkert — bókstaflega ekkert eigi að hafast að. Fyrir þá, sem hafa áhyggjur af verðbólgu og efnahagslegu stjórnleysi og efnahagslegri óstjórn í þessu landi, hlýtur þetta að vera allverulegt áhyggjuefni, ekki vegna kaupgreiðsluvísitölu fyrst og fremst, enda er munur á því, sem gerist í þeim efnum verði ekki hafst að, og hinu, sem að er stefnt í frv. forsrh., mjög óverulegur, eða hálft þriðja prósentustig. Aðalatriðið eru aðrar stærðir sem þar hanga utan á, svo sem fiskverð, svo og hitt, að fyrirsjáanleg er veruleg olíuverðshækkun sem — ef stjórnleysið verður látið vara — mun velta stjórnlaust yfir samfélagið. Sýni ríkisvaldið ekki ábyrga forustu, þegar málum er svo komið, þá stefnum við í enn hrikalegra ástand en hér hefur verið undanfarin missiri.

Allt þetta höfum við vitað undanfarna mánuði. Um þetta hafa núv. stjórnarflokkar fjallað allt frá því að umr. um stjórnarmyndun hófust skömmu eftir kosningar s.l. sumar. Samt voru gerðar bráðabirgðaráðstafanir 1. sept. og aftur 1. des. Þó voru ákvæði í grg. með ráðstöfununum 1. des. þar sem kveðið var á um almenna stefnumörkun til lengri tíma. Hins vegar hefur smám saman orðið ljóst að við þessa stefnumörkun á ekki að standa nema að takmörkuðu leyti og eftir því hvernig kaupin þykja gerast á eyrinni hverju sinni.

Þegar þetta var ljóst þótti ráðamönnum í Alþfl. nóg komið af svo góðu. Tekið var saman frv. í des. sem kallað var: Frumvarp til laga um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu. Flokksstjórn Alþfl. samþykkti að þingflokkur Alþfl. skyldi ekki samþykkja fjárlög fyrr en afstaða stjórnarflokkanna til þessa frv. eða samræmdra aðgerða í meginþáttum efnahagsmála og þá fleiri þáttum en launamálum einum saman lægi fyrir í því skyni að ná verðbólgu varanlega niður. Þingheimi hér er kunnugt um það uppistand sem varð hér í þingsölum í des. vegna þessara umr. Hæstv. forsrh. gaf þá yfirlýsingu úr þessum stól þar sem því var heitið, að fyrir 1. febr. skyldi fram lagt í ríkisstj. slíkt frv. um samræmdar aðgerðir í efnahagsmálum þar sem ríkisvaldið hefði forustu um að ná tökum á verðbólgumálum. Ráðherranefnd var sett á laggirnar og hæstv. forsrh. stóð við sinn hluta samkomulagsins, því að ráðherranefndin skilaði áliti fyrir 1. febr. Hins vegar var það allt fullt af götum, eins og þingheimi mun kunnugt um, og ljóst var, að skilningur a.m.k. hluta ráðherranefndarinnar var slíkur, að einskis samkomulags væri að vænta að sinni. Hæstv. forsrh. lagði hins vegar fram í ríkisstj. fullbúið frv. til laga hinn 12. febr. s.l.

Gera mátti ráð fyrir að þar væri að finna summu af skoðanaskiptum stjórnarflokkanna undanfarna mánuði, en þó þannig að frv. gerði ráð fyrir allverulegum árangri í verðbólgumálum, sem verið hefur grundvallarkrafa Alþfl. frá upphafi og raunar höfuðsjónarmið ríkisstj. allrar, að sögn a.m.k. Frá fyrsta degi framlagningar forsrh. á þessu frv. gat það verið hverju barni ljóst, að til þess. að árangur næðist þyrfti frv. að öðlast lagagildi fyrir 1. mars. Eðlilegt var að haft væri samráð við helstu aðila vinnumarkaðarins, eins og ríkisstj. hefur ætlað sér frá upphafi, en það samráð varð hins vegar að vera innan marka þeirra tímasetninga sem frv. sjálft gerði ráð fyrir.

Þegar frá leið framlagningu frv. og nær leið 1. mars var það hins vegar æ ljósara að ekki stóð til að svo yrði. Þvert á móti virðist standa til hjá þeim flokkspólitísku öflum, sem lýstu frá upphafi og að minni hyggju ærið fljótfærnislega andstöðu við frv., að beita áhrifum sínum á nokkra forustumenn þrýstihópa til að tefja og þæfa framgang þessa máls í heillegri, en heilbrigðri mynd fyrir 1. mars. Og nú, þegar einasta tveir dagar eru til stefnu, virðist sem sú eyðileggingarherferð sé að takast. 1. mars er að líða hjá án þess að komi til hinnar minnstu breytingar og ekki einnar einustu á efnahagslegri umgerð samfélagsins.

Af þessum ástæðum, sögu undanfarinna vikna og mánaða, er þessi till. fram borin hér á hv. Alþingi, að freista þess á síðustu stundu að þeirri ógæfu verði afstýrt, að áframhaldandi óðaverðbólga velti áfram um samfélagið nú þegar annars konar og nýrri efnahagslegar ógnanir stefna á samfélagið þessu til viðbótar. Þar er auðvitað átt við óviðráðanlegar hækkanir af völdum olíuverðs erlendis svo og nýjar upplýsingar í svartri skýrslu fiskifræðinga um þorskstofn hér við land. Þess verði þvert á móti freistað, að þjóðinni verði gefinn á því kostur að grípa í taumana og hún um það spurð, hvort hún vilji fórna svolitlu um sinn, eins og efnislega er lagt til í frv. frá 12. febr., í því skyni að treysta verulega efnahagslegar undirstöður samfélagsins þegar til lengri tíma er litið. Um niðurstöður slíkrar þjóðaratkvgr., ef hv. Alþingi heimilar slíkt, er auðvitað ógerlegt að spá á þessu augnabliki. Aðalatriðið er hitt, að þjóðin fái að tjá sig um efnisatriði þessa máls, sem hefur verið að velkjast fram og aftur um valdakerfið undanfarinn hálfan mánuð án þess að Alþ. hafi svo mikið sem fengið til þess ráðrúm að segja af eða á, vegna þess að samráðin, sem vel og heiðarlega eru hugsuð, eru orðin að pólitískum ógnunum, þar sem svo kann að vera að pólitískur minni hl. í samfélaginu sé að beita meiri hl. þann, sem vill koma á hagstjórn undir forustu ríkisvaldsins, beinlínis pólitískri kúgun. En þetta mun vera markmið, þ.e. verðbólgumarkmiðið sem að er stefnt með þessu frv. og nærfellt allir samþykkja í orði, en misjafnlega gengur hins vegar að sporðrenna á borði.

Það má svo að lokum segja það, að það þarf engan að undra þó að talsmaður Alþfl. mælist á þessu augnabliki til þess, að þessu skæklatogi ljúki að sinni, en gengið verði hreint til verka og þjóðin um það spurð, hvort hún vilji hagstjórn eins og þá sem fram kemur í frv. frá 12. febr. Frv. þetta naut stuðnings miðstjórnar Framsfl. Ráðh. og þingflokkur Alþfl. lýstu að degi liðnum stuðningi sínum við frv. og kröfðust þess, að það yrði lagt fyrir Alþ. hið fyrsta. Fjölmennur aðalfundur í Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur samþykkti einróma á fimmtudagskvöld, að ráðh. og þm. Alþfl. skyldu knýja á um að frv. yrði lagt fram hið fyrsta, en að öðrum kosti skyldu þessir aðilar leggja frv. sjálfir fram. Ég geri enga kröfu til þess, að flokkssystkinum mínum í Alþfl. sé skipað á æðri sess en öðru fólki í þessu samfélagi. En ég geri kröfu til þess, að þessu fólki sé ekki skipað á lægri sess en öðru fólki í þessu samfélagi. Þar að auki hafa 26 þm. í þessari hv. stofnun beint eða óbeint lýst vilja sínum til þess að hafst verði að. Frv. er tilbúið. Það er í sjálfu sér ekki eftir neinu að bíða. Einfaldasta og hreinlegasta leiðin er sú, úr því sem komið er, að gengið verði beint til þjóðarinnar og hún spurð álits. Með því yrði gerð alvarleg tilraun til þess að brjótast út úr þeim vítahring óðaverðbólgu sem er að sliga samfélagið allt.

Ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hvers vegna talsmenn Alþfl. leggja á það slíkt ofurkapp að hafst verði að í þessum efnum. Málflutningur okkar nú um nokkurra missira skeið talar skýrustu máli um það. Við getum ekki heldur tekið því, að með pólitísku baktjaldamakki — mér liggur við að segja pólitísku ofbeldi, þar sem allt er óvíst um þjóðarvilja svo að ekki sé meira sagt, sé komið skipulega í veg fyrir allar alvarlegar tilraunir til þess að ná árangri í hagstjórn í þessum efnum og það kannske af fámennum valdaklíkum þar sem þjóðarvilji er hugsanlega virtur að vettugi.

Herra forseti. Það er orðið brýnt að þeirri spurningu sé svarað, hver sé raunverulegur þjóðarvilji í þessum efnum. Þess vegna er þessi umr. hafin hér á hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég óska eftir því, þar sem þáltill. sú, sem hér hefur efnislega verið gerð að umræðuefni, hefur rétt í þessu verið fram lögð, að leitað verði afbrigða í því skyni að fá hana tekna á dagskrá og rædda. Verði afbrigðin heimiluð og verði þáltill. síðan samþ. verða til þess kjörin stjórnvöld vissulega að aðhafast skjótlega. En í sjálfu sér er það vandalítið. Það verður að drífa í gegn á Alþ. tiltölulega mjög einfalda lagasetningu þar sem þeim efnahagslegu hreyfingum, sem verða áttu í tengslum við 1. mars, er frestað. Síðan verður þjóðaratkvgr., sem vitaskuld yrði leiðbeinandi fyrir hið háa Alþ., látin fara fram hið allra fyrsta. Verði frv. frá 12. febr. síðan samþ., verða auðvitað laun og annað greitt frá 1. mars í samræmi við frvgr. Verði frv. frá 12. febr. hins vegar hafnað, verður greitt frá 1. mars eins og ekkert hafi í skorist og aðrar breytingar í efnahagskerfinu verða þá í samræmi við það. En á hvorn veginn sem færi yrði ávinningurinn að minni hyggju samfélagsins alls. Við verðum að fá svör við spurningum, sem undanfarið hafa leitað á samfélagið allt: Hver á að stjórna? Hvernig á að stjórna? Hvernig á að ná árangri til þess að afstýra því efnahagslega sjálfstæðishruni þessarar þjóðar sem hefur verið í farvatninu undanfarin ár með þeirri misheppnuðu hagstjórn sem hér hefur verið beitt?

Hver sem verða örlög þessarar till. skal það aldrei verða sagt, að hér á hinu háa Alþ. hafi ekki verið reynt til hins ítrasta að afstýra þeim áföllum sem við illu heilli stöndum enn einu sinni frammi fyrir.