27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég tek það fyrst fram, að ég get að sjálfsögðu ekki talað fyrir hönd stjórnarinnar í þessu máli. Þetta mál hefur ekki verið tekið þar til athugunar og því verða það aðeins mínar persónulegu skoðanir sem ég set hér fram.

Þetta er mjög óvenjuleg þáltill. Hún er nýstárleg, hún er mjög frumleg. En það er kannske bara gott fyrir Alþ. að fá annað slagið dálítið frískan blæ og frumlegan einnig. Ég mun því fyrir mitt leyti greiða atkv. með því, að afbrigði verði veitt, ekki af því að mér sýnist líklegt að þessi þáltill., þó samþ. kynni að verða, beri þann árangur sem hv. flm. gerir ráð fyrir, vegna þess, eins og hæstv. forseti benti á, að talsverðir agnúar eru á því að koma máli í gegnum þingið, fyrst þessari þáltill., jafnvel þó að hún fengist tekin fyrir, og svo á eftir þeirri löggjöf sem þyrfti að fylgja. Ég efast satt að segja um að sú löggjöf gengi alveg umræðulaust í gegnum þingið, að binda allt fast við 1. mars. E.t.v. hefði verið öllu skynsamlegra af hv. frsm. að flytja till. um það hreinlega að fresta 1. mars.

Ég skil till. þannig og vil leggja í hana þann skilning, að hv. flm. vilji fá tækifæri til þess að tala fyrir sínu máli, tala um þessi mál, og ég fyrir mitt leyti er alveg samþykkur því, að slík umr. fari fram, þó að ég telji þess enga von að hún geti borið þann árangur, sem hann gerir ráð fyrir. Á hinn bóginn er mér auðvitað persónulega skylt að fagna því og þakka, að hann veitir stuðning því frv. sem ég hef lagt fram. Að vísu getur verið spurning um það, hvort leyfilegt er eftir nákvæmri þingmálvenju að tala um frv., heldur ætti sennilega að tala um till. að frv., vegna þess að þetta frv. hefur ekki verið lagt fyrir þingið enn þá. Þegar ég lagði þetta frv. fram, þá lagði ég það ekki fram sem handrit sem gæti farið beint í prentsmiðjuna, heldur þyrfti sennilega að gera á því ýmsar lagfæringar. Eigi að síður er þetta vissulega nýstárleg aðferð: að leita álits alþjóðar á máli sem að vísu hefur mikið verið talað um, en er þó ekki komið til kasta þingsins með formlegum hætti. En eins og ég sagði áðan, þá skulum við ekki vera of fastheldnir á það gamla. Það er gott að hleypa einhverju nýju lofti inn og frumleika í meðferð málanna, þó að hitt sé líka jafnnauðsynlegt fyrir Alþ.: að halda fast við vissar „tradisjónir“.

Ég er þeirrar skoðunar, að við munum nú innan skamms, stjórnarflokkarnir, koma okkur saman og frv. margumrædda, e.t.v. í eilítið breyttu formi og með breyttu orðalagi, verða lagt fram hér á Alþ., og þá verður það náttúrlega rætt. Ég lít þess vegna á það, ef þessi þáltill. verður leyfð hér og umr. fara fram um hana, sem eins konar forskot á sæluna sem kemur til þegar sjálft frv. verður rætt. En ég held að þó að þetta sé óvenjulegt, þá er það líka nær óþekkt, að ég ætla, að það sé neitað um afbrigði á Alþ. Ég mun þess vegna greiða atkv. með því að afbrigðin verði veitt, legg það svo í vald forseta hvernig hann hagar meðferð málsins.