27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2794 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég býst við að fleirum en mér þyki nokkuð kynlegt það óðagot sem gripið hefur hv. þm. Vilmund Gylfason. Hann hefur að vísu flutt hér till. og það hefur víst gerst áður hér á þinginu, en hann lætur sér það ekki nægja, heldur neitar að lúta þeim þingsköpum sem í gildi eru og kveða á um að þm. beri réttur til þess að kynna sér efni till., sem lagðar eru fram, áður en tekin er ákvörðun um hvort um þær verði ein eða tvær umr., og að þeir fái síðan samkv. 28. gr. annan sólarhring til þess að undirbúa sig undir umr. Um þetta eru skýr og ótvíræð ákvæði í 28. gr. þingskapa, og í greininni er ekki gert ráð fyrir neinum undantekningum frá því. Hitt er allt annað mál, að það er auðvitað hægt að gera afbrigði frá þingsköpum almennt ef 3/4 greiddra atkv. eru því meðmælt.

Ég verð hins vegar að segja það, að mér sýnist að mörg málanna, sem á dagskrá eru, séu æðimiklu merkilegri en þetta mál. Ég verð því að segja, að ég sé harla litla ástæðu til að taka þetta mál fram yfir öll önnur mál, sem flutt hafa verið á liðnum dögum og vikum, og því fullkomlega óeðlilegt að fara að veita í skyndingu afbrigði í þessu tilviki.

Í fullri hreinskilni sagt, án þess að ég ætli að fara að ræða hér um efni till. í smærri atriðum, sýnist mér að þetta sé einhver allra vitlausasta till. sem séð hefur dagsins ljós hér á Alþ., og hafa þær þó margar verið kynlegar eins og festir munu vita. Það er sem sagt ætlun hv. þm. að frv. eða tillaga að frv., sem er upp á 60 greinar og er mjög margbrotið, verði í heilu lagi lagt undir dóm þjóðarinnar og þjóðin eigi þess kost að segja annaðhvort já eða nei. Hún á sem sagt að gleypa allan grautinn í heilu lagi. (Gripið fram í.) Ég skil ekki hv. þm., því miður. Ég held að varla geti nokkur hv. þm, í alvöru ímyndað sér að till. af þessu tagi sé flutt í alvöru. Þetta er rökstutt með því, að á döfinni séu breytingar á efnahagskerfinu sem séu svo háskalegar að þeim þurfi að fresta þar til niðurstöður úr þjóðaratkvgr. liggi fyrir. Ég veit ekki satt að segja við hvað hv. þm. getur átt, að það séu einhverjar breytingar á efnahagskerfinu sem séu að dynja yfir um næstu mánaðamót. Hvaða breytingar á efnahagskerfinu eru það sem samþykktar hafa verið og eiga að koma þá til framkvæmda? Ég er satt best að segja undrandi á því, að menn skuli geta látið frá sér fara svo augljósa endaleysu.

Ég vildi bæta því við, að frv. það, sem forsrh. hefur lagt fram, er nú til athugunar í ríkisstj. eins og allir vita. Það hefur nýlega verið sent fjölmennustu hagsmunasamtökum alþýðu og við höfum verið að fá umsagnir bæði Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og margra annarra samtaka um þetta frv. Það hafa komið fram býsna alvarlegar aths. við þetta frv. og yfirleitt hafa engin þessara samtaka verið reiðubúin til að mæla með samþykkt frv. óbreytts. En það er greinilegt, að hv. þm. telur eðlilegt að aths. þessara aðila séu hundsaðar með öllu, ekki sé einu sinni litið á það, hvort þær aths. eigi rétt á sér eða ekki. Það á ekki að bíða eftir því, að mönnum gefist kostur á að kynna sér þessar umsagnir, sem sumar hverjar voru að berast í morgun og aðrar eru ekki komnar, eins og t.d. umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Nei, það á bara að afgreiða málið núna í snatri og án þess að hugleiða eitt andartak hvað þessir aðilar hafa til málanna að leggja.

Það eru sannarlega ekki aðeins allir þm. Alþb. sem eru þeirrar skoðunar, að þetta frv. þurfi nánari athugunar við, þó að hv. þm. komist að vísu svo smekklega að orði hér í grg., að örfáir þm. úr Alþb. hafi lýst andstöðu sinni við frv. Það er fullyrðing sem allir hér inni vita að er ósönn. Allir þm. Alþb. hafa lýst andstöðu sinni við þetta frv., en ekki aðeins þeir, heldur fjöldamargir aðrir aðilar, eins og ég hef hér þegar rakið.

Ég vil, vegna þess að hv. þm. vék hér nokkuð að rökstuðningi sínum við þessa till. og ástandi mála almennt, leyfa mér að minna á að það er meginmarkmið þessarar ríkisstj. að tryggja fulla atvinnu, að tryggja óskert lífskjör og draga verulega úr verðbólgu. Ég vil í þessu sambandi minna á að þessi markmið eru öll jafnmikilvæg og ekki síst þau tvö síðari sem ég nefndi nú. Við megum ekki henda barninu út með baðvatninu. Við megum ekki fórna atvinnuörygginu eða lífskjörum almennings í einhverri örvæntingarfullri tilraun til þess að draga hraðar úr verðbólgu en unnt er að gera með eðlilegum hætti. Verðbólgan er á niðurleið. Ég vil í þessu sambandi minna á að samkv. nýjustu upplýsingum um verðbólgu á síðasta hálfu ári og séu þær upplýsingar reiknaðar út á ársgrundvelli virðist verðbólgan hafa verið um 24% miðað við 6 síðustu mánuði. Er það ekki merkilegur árangur, og sýnir það ekki að við erum á réttri leið? Okkur hefur líka tekist að varðveita lífskjör fólks. Og ég tel að það sé frumskylda þessarar ríkisstj. að tryggja áfram óskert lífskjör. En því miður getur það frv., sem hér er til umr., ekki gert það óbreytt.

Það er eins með atvinnuástandið. Það er tæpast nógu gott sem stendur, þó að það verði kannske að heita viðunandi miðað við árstíma, en ekki má tæpara standa. Og það er staðreynd, að hlutfall fjárfestingar er nú í algeru lágmarki. Fjárfestingar í þjóðarbúinu hafa ekki verið lægri í heilan áratug eða ekki síðan á kreppuárunum fyrir 10 árum, 1968 og 1969. Ég tel, að þó að við Alþb.-menn höfum fallist á að fjárfestingarhlutfallið yrði þetta lágt á árinu 1979 vegna þess sérstaka ástands sem er í verðbólgumálum, þá sé ekki unnt að fallast á að svo verði til langframa og ekki sé tímabært að taka ákvarðanir um þetta. Af þessum ástæðum og mörgum fleiri er ljóst að frv. þetta þarf nánari athugunar við og það væri mikið fljótræði að fara að afgreiða efni þess undir þjóðaratkvgr. á einum eða tveimur dögum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vil bara undirstrika það, að augljóst er að þessi till. stríðir ekki aðeins gegn þeim umsögnum og samþykktum, sem borist hafa frá fjölmennustu stéttasamtökum þjóðarinnar, heldur er hún líka vanhugsuð að efni til. Ég tel að það sé nóg fyrir hv. alþm. að þurfa að taka þessa till, til umr. hér á venjulegum dagskrártíma, þó að við þurfum ekki að fara að eyða verulegum tíma í umr. utan dagskrár um slíka tillögu.