27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. utan dagskrár með því að fjalla hér um efnisatriði í löngu máli, heldur einungis það atriði sem ég tel að sé hér fyrst og fremst til umfjöllunar, þ.e.a.s. spurninguna um hvort þessi till. skuli fá þann forgang sem um er beðið og hér er leitað eftir afbrigðum að hún fái.

Hvort sem þessi till. er seint fram komin eða ekki, þá er ljóst að efnisatriði í henni varða tímasetningu sem er skammt undan. Þess vegna er ekki nema sjálfsagt að hún verði þegar tekin á dagskrá. Það mun þá reyna á það, hvort þingfylgi er við þessa till. til þál. Menn þurfa ekki að fara í grafgötur um áhuga Alþfl. á því að ná fram varanlegri lausn svo fljótt sem auðið er.

Ég tel að það komi ekki til greina að neita umfjöllun á grundvelli formsatriða, jafnvel þótt menn telji að aðdragandi að till. sé óvenjulegur, þegar svo er í pott búið sem hér um ræðir, að þær tímasetningar, sem um er fjallað í till., eru svo skammt undan. Þess vegna tel ég sjálfsagt að veita afbrigði.