27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2798 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Málatilbúnaður að þessu sinni er sannarlega óvenjulegur og skal ekki úr því dregið, en við þm. höfum kynnst mörgu óvenjulegu í þingstörfum á þessum vetri fyrr og kippum okkur ekki upp við það, þótt ein ný uppákoma eigi sér stað í virðulegum salarkynnum Alþingis.

Ég vil strax segja það sem mína skoðun, að ég tel enga ástæðu fyrir okkur sjálfstæðismenn að standa í vegi fyrir því að umr. geti orðið um þá þáltill. sem nú hefur verið útbýtt á borð þm. og flm. hefur rætt utan dagskrár, þótt ég vilji ekki draga neitt úr því heldur, að hv. flm. hefði getað hagað sér með öðrum hætti. Sú staðreynd, að hann fitjar upp á þessari till. 36 klukkutímum áður en 1. mars rennur upp, ber því vitni að honum er ekki nein alvara með þessum tillöguflutningi — þetta er sýndarmennskan einber.

En hvað snertir efni till., sem ég get ekki alveg leitt hjá mér, þá fjallar till. í fyrsta lagi um það, að þjóðaratkv. skuli fara fram um frv. sem forsrh. kynnti í ríkisstj. 12. febr. s.l. Hér er verið að leggja til að Alþ. ákveði þjóðaratkv. um mál sem ekki er orðið þingmál. Ég hefði talið að það væri eðlilegt að umrætt mál, sem bera á undir þjóðina, væri orðið þingmál. Sannleikurinn er sá, að hv. flm. hafði frumvarpssmíð með höndum á fyrri hluta þings og birti það frv. opinberlega. Það frv. hefur aldrei séð dagsins ljós hér í þingsölunum. Þessir hv. þm. Alþfl. hafa aldrei haft kjark eða dug í sér til að flytja það frv. hér á Alþ. Nú hafa þessir sömu þm. lýst stuðningi sínum við frv. forsrh., sem forsrh. hefur lagt fram í ríkisstj., ekki hér á Alþ., en þeir hafa ekki heldur haft kjark í sér — til þess að gerast flm. þess frv. og leggja það fram hér á Alþ., ef svo mikið er í húfi sem þeir vilja vera láta og hv. flm. þáltill. lét í ljós áðan.

Í umr. utan dagskrár á Alþingi 15. febr., tveim eða þrem dögum eftir að hæstv. forsrh. lagði fram frv. sitt í ríkisstj., gerði ég málsmeðferð alla að umræðuefni í framhaldi af utandagskrárumr. er hv. 1. þm. Reykn. hafði hafið daginn áður í Nd. Þá varpaði ég fram þeirri fsp. til hæstv. forsrh., hvaða ráðagerðir væru varðandi flutning þessa frv. hér á Alþ. og hve langur tími mætti ætla að þm. væri ætlaður til meðferðar málsins sjálfs. Þá sagði hæstv. forsrh., að nú hefði ríkisstj. tímann fyrir sér og það lægi ekki á að afgreiða málið. Ég held að hv. flm. þessarar till., Vilmundur Gylfason, hafi hlustað á þessi orð hæstv. forsrh. og hafi aðeins veikum rómi sagt að það væri ekki eftir neinu að bíða, frv. væri tilbúið og það ætti að leggja fyrir þingið. En það var ljóst af orðum hæstv. forsrh., að 1. mars var ekki nokkur dagsetning í hans huga, þótt það væri e.t.v. dagsetning í huga hv. flm.

Sannleikurinn er sá, að dagsetningar hafa margar verið nefndar síðan núv. hæstv. ríkisstj. settist að störfum. Við höfum heyrt dagsetningar eins og 1. des., eins og fyrir jól miðað við afgreiðslu fjárl., eins og 1. febr., eins og 1. mars. Við höfum heyrt ýmsar aðrar viðmiðanir, eins og t.d. að fjárlög skyldu afgreidd hallalaus og ríkissjóð skyldi reka án greiðsluhalla. Og þegar þurft hefur á að halda hefur almanaksárið verið lengt úr 12 mánuðum í 16 mánuði, eins og bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa látið sér um munn fara. Allar þessar starfsaðferðir, allar þessar tímaviðmiðanir eru með þeim eindæmum að sagan segir ekki frá öðru eins í starfi einnar ríkisstj. svo að ég muni eftir, a.m.k. ekki meðan ég hef setið hér á Alþingi.

Það er talið að ef þjóðaratkvgr. eigi að ná tilgangi sínum sé eðlilegt að um sé að ræða málefni eða ákvörðunarefni sem auðvelt sé eða tiltölulega einfalt sé að gera upp við sig með því að svara já eða nei. Frv. það, sem hér um ræðir, auk þess að vera ekki komið á borð þm., er í 50 eða 60 greinum og mörg eru þar álitamálin, og þess vegna er því ekki þannig farið að það eigi vel við að leggja það fyrir þjóðaratkvgr. til ákvörðunar.

En hér ber og meira til. Það væri vissulega mikil lítillækkun, sem alþm. gerðu sjálfum sér og Alþ. sem stofnun, ef þeir ætluðu að samþykkja að skírskota til þjóðaratkvgr. varðandi málefni sem þeir hafa ekki sjálfir kjark til þess að taka afstöðu til, vegna þess að öðruvísi yrði samþykkt till. ekki túlkuð. Það er auðvitað í fyrsta lagi skylda núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar á Alþ., alþm. Alþb., Alþfl. og Framsfl., að koma sér saman um efnahagsmálastefnu. Þeir þóttust hafa gert það fyrir 1. sept., þeir þóttust hafa gert það fyrir jól, þeir þóttust ætla að gera það fyrir 1. febr. og þeir þóttust ætla að gera það fyrir 1. mars, en ekkert af þessu hafa þeir efnt. Þessir stuðningsmenn ríkisstj. hafa staðið fyrir bráðabirgðaúrræðum æ ofan í æ, hverjum á fætur öðrum —bráðabirgðaúrræðum sem eingöngu hafa verið til þess fallin að auka á vandann sem við hefur verið að glíma. Þannig er ferill þessarar hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar. Þingstörfin hafa borið þessu glögg vitni og hafa verið með þeim eindæmum, að sú þáltill., sem nú er kynnt hér á þingi og beðið um afbrigði um, er í raun og veru ekki nema í stíl við þau vinnubrögð sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir.

Ég er þeirrar skoðunar, að á það verði að reyna og það sé skylda stuðningsflokka núv. ríkisstj. að láta það koma fram, hvort þeir geti komið sér saman um stefnu í efnahagsmálum eða ekki. Það verður að reyna á það hér innan veggja Alþ. Ef svo fer, að núv. hæstv. ríkisstj. kemur sér ekki saman um efnahagsstefnu, þá getur sú spurning vaknað hvort annar meiri hluti þm. geti komið sér saman um efnahagsstefnu. Ef svo reynist ekki, þá er auðvitað ekkert annað fyrir hendi en að áfrýja til þjóðarinnar, rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Þá standa allir þm. reikningsskap gerða sinna og þá stendur núv. hæstv. ríkisstj. reikningsskap gerða sinna eða réttara sagt aðgerðaleysis.

Það er fróðlegt að bera saman ummæli þm. stjórnarliðs, þótt ræður hafi verið tiltölulega stuttar af hálfu stuðningsmanna núv. hæstv. ríkisstj. í þessum umr. enn sem komið er í dag. Ég heyrði ekki betur en hv. flm. teldi þetta einfalt mál: að frv. forsrh. væri það bjargráðið sem til ætti að taka. Hæstv. forsrh. talaði um að það mundi verða úr að þm. stjórnarliðsins kæmu sér saman um frv. eilítið breytt, eins og hann komst að orði. En síðan kemur formælandi Alþb., hæstv. menntmrh., hér upp og segir að ekki eingöngu örfáir þm. Alþb. hafi lýst andstöðu sinni við frv., eins og komist sé að orði í grg. þáltill., heldur hafi allir þm. Alþb. lýst andstöðu sinni við frv. og það þurfi að breyta frv. í veigamiklum atriðum til þess að það hljóti stuðning þeirra. Ég held að það væri rétt að þessir þm. gerðu það upp við sig, hvort þeir fylgja og að hve miklu leyti þeir fylgja þessu frv. og hvort þm. stjórnarliðsins yfir höfuð geta komið sér saman um eitt eða neitt.

Það er svo fullkomin ástæða til að gefnu þessu tilefni að ræða nokkuð um efnahagsmálin. Á þessu stigi málsins skal ég þó ekki lengja þessar umr., en ítreka það sem ég hef þegar sagt.

Ég tel að flutningur þáltill. sé ekki með meiri undarlegheitum eða frumleika í þingstörfum en annað það sem við þm. höfum vanist fyrr í vetur, og á ég þá ekki við að um gott fordæmi sé að ræða, og því mun ég persónulega ekki leggjast á móti því að till. verði rædd, þótt afbrigða þurfi með. En ég hlýt að benda á það og undirstrika, að frv. forsrh. er ekki vel til þess fallið, að þjóðaratkvgr. fari fram um það. Enn fremur hlýtur flutningur og samþykkt till. að bera vitni um að þm. sjálfir skjóta sér undan skyldustörfum og ábyrgð og lítillækka Alþ. með slíkum starfsaðferðum. Það er skylda þm. sjálfra að marka efnahagsstefnu, og síðan geta þeir áfrýjað til þjóðarinnar og þjóðin og kjósendur endurkosið þá eða sýnt þeim vantraust með því að kjósa aðra.

Þá fæ ég ekki heldur skilið það kapp sem lagt er á afgreiðslu þessarar þáltill. fyrir 1. mars, vegna þess að hún hefur auðvitað ekki út af fyrir sig lagagildi. Til viðbótar henni þyrftu að koma lagaákvæði sem yrði þá að afgreiða innan 34 tíma eða svo, og flm. gerði ekki grein fyrir efni þeirra. Ég sé ekki heldur í fljótu bragði, þótt frv. forsrh. hefði verið samþykkt fyrir 1. mars, að það hefði gert allan mun, vegna þess að í frv. er sá mikli munur miðað við frv. Alþfl.-manna, sem þeir höfðu milli handanna fyrir jól, að 1. mars var felldur niður í frv. forsrh. En vera má að mér hafi sést yfir einhver ákvæði sem gera að verkum að þessi dagur hafi ákveðna þýðingu. Mér er að vísu ljóst að þetta er ein af þeim dagsetningum sem stjórnarliðar hafa miðað aðgerðir sínar við, en þetta er líka ein af þeim dagsetningum sem þeir hafa þurft að heykjast á að halda.

Tími er vissulega til kominn að þeir geri hreint fyrir sínum dyrum, stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstj. Eftir því er beðið. Við sjálfstæðismenn fögnum hverju því tækifæri sem við höfum til þess að ræða efnahagsmálin hér í þingsölunum og leiða almenningi fyrir sjónir hve ráðalausir stuðningsflokkar ríkisstj. eru og hve stefnulausir þeir eru í þeim málum sem mestu varða fyrir alþjóðarheill.