27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2801 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði að það væri ekki nema gott eitt um það að segja að mál væru flutt með nýstárlegum hætti eins og hér er raunin á með þáltill. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, 7. þm. Reykv. Mér skildist á forsrh. að hann gleddist yfir því, að með þessu væri verið að breyta vinnubrögðum Alþ. og taka upp alveg nýjar þingvenjur, kasta hér þáltill. á borðið og hefja svo umr. utan dagskrár. Það hefur kannske komið hæstv. forsrh. vel, að það hefur náðst á síðustu vikum svo gott samband á milli hans og flm. þessarar till. að þar horfir til órofa vináttu — og er það vel. Hins vegar hefur aftur kólnað vináttan við suma aðra sem skrifuðu hæstv. forsrh. fyrir jólin vinarbréf, en hafa ekki skrifað nú síðustu vikur eða sýnt hæstv. forsrh. nein vinarhót.

Það er rétt, sem fram hefur komið hér í umr., að þessi till. um þjóðaratkvgr. um efnahagsfrv. forsrh., — um frv. sem hefur aldrei verið sýnt á Alþ., en hefur verið þess meira sýnt úti í bæ — jafngildir vantrausti á hæstv. ríkisstj., ef hún væri tekin alvarlega. En flm. þessarar till.. er ekki að flyt ja í alvöru vantraust á ríkisstj. Hann er fyrst og fremst, eins og fram kom hér, að vekja athygli á sjálfum sér og láta líta út enn þá að hann sé mjög nýstárlegur stjórnmálamaður sem komi mönnum á óvart. En hann er líka að fá einn frestinn enn þá. Hann er líka að reyna að komast fyrir næsta horn og fela sig eftir öll stóru orðin sem hann og flokkur hans hafa viðhaft allt frá því að hæstv. ríkisstj. var mynduð.

Það tók langan tíma að mynda hæstv. ríkisstj. og það vantar tvo mánuði upp á að þessi krógi eigi 6 mánaða afmæli. Það er þegar farið að halda upp á þetta afmæli og það líka með nýstárlegum hætti. 1. sept. voru gerð bráðabirgðaúrræði sem frægt er orðið. Hv. flm. þessarar till., sem hér er nú kominn í hörkuumr. utan dagskrár, sagði áðan að atvinnulífið hefði verið komið að því að stöðvast í þessu landi. Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert til styrktar atvinnulífinu? Jú, hún framkvæmdi lækkun á gengi krónunnar. Annað hefur hún ekki gert til styrktar atvinnurekstrinum í landinu. Ég bið hv. þm. og fleiri stjórnarliða að tíunda það, ef eitthvað er. Hins vegar beittu þeir afturvirkni skatta, bæði á almenning og almennar launatekjur í landinu sem og á atvinnureksturinn. Það var ekki til þess að styrkja stoðir atvinnurekstrarins í landinu, heldur fyrst og fremst til þess að kippa stoðunum undan honum. Og nú er verið að leggja á borð þm. tvö frv. sem liggur mikið á, að sagt er, en þó liggur auðvitað miklu meira á þáltill. Vilmundar. Þau frv. eru um að færa á milli innan greina sjávarútvegsins. Bera þau frv. vott um að ríkisstj. telur að illa hafi verið komið hjá atvinnurekstrinum í landinu, þegar á að bera uppi hækkun olíunnar með því að draga úr útflutningsgjaldi og draga úr greiðslum til einstakra verkefna sem útflutningsgjaldinu er ætlað að greiða, allt innan ramma sjávarútvegsins, vegna þess að þessir sjóðir standa það vel sumir hverjir að hægt er að gera það. Ríkisstj. eða ríkissjóður er ekki að taka á sig einnar krónu fórn í þessu sambandi. Þetta er reist á gömlum merg. Þessi ríkisstj. hefur ekkert gert til þess að styrkja atvinnulífið og atvinnureksturinn í landinu, og það veit hv. flm. þessarar makalausu tillögu.

Flm. segir í grg., að örfáir þm. úr Alþb. hafi lýst andstöðu við frv. Á þessu stigi er ekki kunnugt um afstöðu flestra Alþb.-manna né þm. Sjálfstfl. Til þess að vera kunnugur afstöðu þm. þarf að leggja frv. fyrir Alþingi Íslendinga, en ekki fyrir „Alþingi götunnar“. Það var byrjað á því með nýstárlegum hætti eins og fleira að flytja frv. í Alþýðublaðinu í vetur, síðan er það flutt í ríkisstj., að vísu með nokkrum breytingum.

Hæstv. menntmrh. kemur svo í ræðustól. Hann sagði eina setningu sem er mjög góð, og hún er táknræn fyrir samstarfið í þessari ríkisstj. Vilmundur Gylfason greip fram í fyrir ráðh. og ráðh. sagði afskaplega sakleysislega og hreinskilnislega: Ég skil ekki þm. — Það er einmitt það sem hefur skeð frá því að ríkisstj. þessi var mynduð, að þeir hafa aldrei skilið hverjir aðra, á þessum tæpu 6 mánuðum sem eru liðnir. Þetta var satt og rétt hjá hæstv. samgrh., Ragnari Arnalds, að hann skildi ekki Vilmund og Vilmundur skilur ekki Ragnar. Svona hefur það verið og svona mun það verða.

En hann sagði annað, sami hæstv. ráðh. Hann sagði að þessi ríkisstj. hefði unnið alveg sérstætt afrek að koma verðbólgunni niður úr 52% í 24%, minnir mig að hann hafi sagt. En er nú ekki ráðh. að velta á undan sér 2000 millj. greiðslubyrði hjá Pósti og síma, sem heyrir undir þennan hæstv. ráðh.? Það er hægt að segja að það sé dregið úr verðbólgu á meðan verið er að velta svona hlössum á undan sér. Gleymdi hann ekki líka að ríkisstj. ætlaði við afgreiðslu fjárl. í byrjun þessa árs að lækka niðurgreiðslur á vöruverði um 2800 millj. kr.? Það er ekki farið að gera það enn þá. Því er líka velt á undan sér. Gleymdi hann ekki líka að við afgreiðslu fjárl. átti að hækka gjöld á lyf, sérfræðiþjónustu og göngudeildarstarfsemi, sem áttu að gefa ríkissjóði 940 millj. kr.? Því er einnig velt á undan sér. Af því að verið er að berjast við að koma verðbólgunni niður er öllu velt á undan sér. En ef þetta væri nú komið inn í dæmið, eins og það á að gera, hvernig stæði þá dæmið í dag?

Þessi till. Vilmundar Gylfasonar er, þó að hún sé að flestu leyti fíflaleg, að einu leyti snjöll. Með þessu getum við fengið enn þá tveggja mánaða frest, og það er það, sem þeir, blessaðir drengirnir, hafa alltaf verið að gera frá því að þeir gengu í þetta stjórnarsamstarf. Þeir hafa alltaf verið að tala um stefnumörkun til langs tíma, ítarlega stefnumörkun og brjóta í blað í efnahagsmálum þjóðarinnar, en hafa svo alltaf gleypt ofan í sig allar fullyrðingar. En er ekki rangt að taka svona hart á Vilmundi Gylfasyni þegar ekki eru eftir nema 36 stundir til 1. mars? Benedikt Gröndal utanrrh. sagði, að vísu ekki hér á landi, heldur á Norðurlöndum, að kratarnir færu úr ríkisstj. 1. febr. 1. febr. er ekki enn þá runninn upp hjá krötunum, svo að það er von að blessaður drengurinn haldi að það sé nægur tími til að afgreiða þessa till. Hinir þurfa ekkert að furða sig á því þó að kratarnir sitji hinir rólegustu, því að 1. febr, er ekki kominn enn, hvað þá heldur 1. mars.

Mér fannst nú vænt um að heyra það frá Alþb.-mönnum, að þeir viðurkenna að framkvæmdir í þessu landi séu nú í algeru lágmarki og telja þó — bragð er að þá barnið finnur — að það sé ekki hægt að halda áfram langtímum saman með sama hætti. En hins vegar telja kratarnir að það þurfi enn þá að draga saman seglin. Og nú langar mig til þess að minna kratana á það, að þótt þeir séu margir nýir hér á þingi eru þó hér enn þá tveir syndaselir sem voru á síðasta þingi, sem fluttu ótal hækkunartillögur við afgreiðslu fjárl. á síðasta kjörtímabili og greiddu atkv. með mörgum hækkunartill. kommanna á því sama kjörtímabili. Þar var ekki verið að skera hækkunartillögur við nögl í sambandi við framkvæmdir í þessu landi. Þær voru upp á marga milljarða, 1974, 1975 og 1976, hvað þá núna ef við umreiknuðum á verðlagi dagsins í dag. Þá voru þessir menn ekki að skera við nögl till. sínar.

Þeir eru hér enn þá, hæstv. utanrrh. og formaður þingflokks Alþfl., -þeir syndaselir sem voru á Alþ. á síðasta kjörtímabili. En nú skal draga úr öllu, því að nú hafa þeir ábyrgð, að þeir segja. Þeir segja einnig: Nú ætlum við að gera meira. Við ætlum með þessu frv. — Ólafur Jóhannesson vill endilega eiga þennan króa, en á sennilega lítið í honum — að draga úr öllum eða flestum lögboðnum framlögum til framkvæmda og til félagslegrar uppbyggingar í landinu. — Þetta frv. gerir ráð fyrir því að binda ekki framlög eins og til jarðasjóðs, til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, til Fiskveiðasjóðs, Byggingarsjóðs verkamanna, Lánasjóðs sveitarfélaga, Erfðafjársjóðs, Bjargráðasjóðs, jarðræktarframlaga, Atvinnuleysistryggingasjóðs, Hafnabótasjóðs, Iðnrekstrarsjóðs, Byggðasjóðs, — það er eitt af áhugamálum forsrh. að hann ætlar alveg gersamlega að gelda Byggðasjóðinn, nú er hann hættur að vera dreifbýlismaður, hann var það alveg fram á þennan tíma, — til Fiskræktarsjóðs, Framleiðnisjóðs landbúnaðar, auðvitað til uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, — við sjáum nú hve gengur vel hjá framsóknarmönnum þessa dagana í þeim efnum, — til búfjárræktar og til Kirkjubyggingasjóðs, enda er Ólafur Jóhannesson hættur að vera kirkjumálaráðh., Steingrímur tekinn við, og til styrktarfjár og eftirlauna embættismanna, til styrktarfjár og eftirlauna ýmissa ekkna, — það er sennilega gert fyrir Alþfl., — til eftirlauna aldraðra í stéttarfélögunum, til Ferðamálasjóðs, Iðnlánasjóðs og Styrktarfélags vangefinna. Þar endaði upptalningin og þar hefur sennilega Alþfl. sett punkt. En á sama tíma og þetta gerist berjast kratarnir fyrir að fá einn sjóð lögfestan, fyrir öryrkja, með því að taka sérstakt brennivínsgjald til þess sjóðs. Hann er búinn að vera hér á dagskrá, og voru stjórnarflokkarnir klofnir í því máli. Annan daginn koma þeir saman og segja: Við skulum afnema öll lögbundin framlög, svo flytjum við aftur frv. um nýja sjóði. (Gripið fram í.) Það eru sjálfvirkir sjóðir inni í þessu líka, og það eru markaðir tekjustofnar. Þetta er sýndarmennskan ein. Af hverju á að skera niður Styrktarsjóð vangefinna, en stofna svo aftur nýjan sjóð í staðinn með sölugjaldi á brennivín, sem ríkið hefur hirt? Ríkið hefur sannarlega þurft á því að halda og meira en nokkru sinni fyrr, því að aldrei hefur nokkurn tíma verið beitt þeim vinnubrögðum að hafa brennivínsbúðirnar opnar á Þorláksdag og auglýsa að það vanti enn þá í tekjuáætlun ríkissjóðs og því séu menn vinsamlegast beðnir að herða nú sóknina í brennivínsbúðina rétt fyrir jólin. Það hefur engin ríkisstj. gert fyrr en þessi. Það kom einu sinni fyrir að vísu á dögum fyrri ríkisstj., að einn málglaður ráðh. sagði frá því, að brennivínið mundi hækka næsta dag. Þá tæmdust pallarnir hérna og það er ekki örgrannt að sumir þm. hafi farið líka.

Stjórnmálaflokkar taka sig saman og ætla að stjórna landinu, koma sér saman um efnahagsúrræði, koma sér saman um stefnu, að halda uppi fullri atvinnu og eðlilegum rekstri þjóðarbúsins. Það hefur verið með þeim hætti nú, að einn stjórnarflokkurinn auglýsir fund á Hótel Borg, og hann hefur verið auglýstur fyrir sennilega tugi þúsunda á þessa leið: Ágreiningurinn í ríkisstj. Fundur Alþfl. á Hótel Borg. — Þar var auðvitað rætt um ágreininginn í ríkisstj., hvað allt væri ómögulegt og samherjarnir, samstarfsflokkarnir, væru gersamlega óhæfir menn. Lengi var nú Framsókn slæm, en hefur batnað mikið síðustu dagana. Alþb. mátti ekki láta sitt eftir liggja og það hélt fund, ég held að Hótel Sögu. Þar sagði formaður Alþb. að illur andi væri yfir Ólafi. Og ekki mátti „maddaman“ missa af öllu saman, því að hún hélt líka fund, gamla Framsókn, og hún taldi, Framsókn gamla að Alþb.-ráðh. hefðu ekki einu sinni lesið frv. hans Ólafs. Þar fengu þeir nú einkunnina, þessir þrír frá Alþb. í ríkisstj., þeir hefðu ekki einu sinni lesið doðrantinn!

Svavar Gestsson viðskrh. sagði að kratarnir væru í sandkassaleik hér fyrir jólin. Ég held að sandkassarnir séu orðnir þrír og þeir séu að leika sér a. m. k. þrír í hverjum sandkassa og hafi verið að gera undanfarna daga.

Hvað á svo að þýða að flytja till. um að efna til þjóðaratkvgr. með undirbúningi sem tekur allt að því tvo mánuði? Svo á blessuð þjóðin að segja til um það, hvort hún samþykki þennan doðrant Ólafs eða ekki, sennilega stendur á atkvæðaseðlinum: já eða nei, það þurfi ekki neinu að breyta því að þetta sé hin helga bók. Og þegar 9 menn í ríkisstj. geta ekki vikum saman komið sér saman um þessi úrræði, væri þá ekki ráð að gera sér grein fyrir því, að 1. febr. er liðinn og 1. mars alveg í farvatninu, og ríkisstj. settist á rökstólana og reyndi að koma sér saman um stefnu, um stjórn efnahagsmála og um ráðstafanir til þess að draga úr verðbólgu og stuðla að framförum í þjóðarbúskapnum.

Þetta frv. stuðlar ekki nema að litlu leyti að framförum í þjóðarbúskapnum. Þetta er frv. hins kolsvarta afturhalds að verulegu leyti, og það ber Vilmundur Gylfason fyrir brjóstinu, hann vill koma því hér á. Hins vegar er því ekki að leyna, að í þessu frv. eru margt gott. Það fer ekki fram hjá neinum. En þegar við lítum á það í heild verður frv, ekki til þess að renna styrkum stoðum undir atvinnureksturinn í landinu og tryggja atvinnu landsmanna eða hins vinnandi manns í landinu. Það eru fyrst og fremst samdráttaraðgerðir á öllum sviðum þjóðlífsins með því að gera engar breytingar á þessu frv. Það, sem þessir flokkar eiga að gera, er að koma fram á Alþ. og segja: Við ætlum að ná og halda áfram samstöðu og samstarfi um leiðir í efnahagsmálum og öðrum þeim málum, sem eru knýjandi nauðsyn. — Að öðrum kosti eiga þeir að lýsa yfir að þeir hafi gefist upp. Þá á ekki að leggja ágreininginn undir atkv. þjóðarinnar, heldur á þá að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga, leggja undir dóm þjóðarinnar hvort þeir 60 menn, sem síðast voru kjörnir á þing, eigi þangað allir afturkvæmt. Með það í huga hverjir eigi afturkvæmt eftir þá frammistöðu, sem þessir flokkar hafa sýnt, þá efast ég ekki um að þjóðin hafnar forustuhlutverki þessara flokka á næstunni að fenginni þessari tæplega 6 mánaða reynslu, sem verður haldið upp á nú eftir tvo daga, þegar 1. mars rennur endanlega upp og Alþfl. gerir sér ljóst að er að honum komið og 1. febr. fyrir löngu liðinn.